En svo má auðvitað spyrja af hverju tröll verða endilega að steini, af hverju breytast þau ekki í vatn, gorkúlur, banjó, færiband eða eitthvað allt annað? Og alveg eins má spyrja af hverju verður ummyndunin við sólarljós en ekki við tunglskin, þegar það rignir, í sunnanstrekkingi eða við eitthvað allt annað? Til þess að svara þessum spurningum er rétt að hafa í huga hvernig menn búa íslensk tröll til. Í svari Ólínu Þorvarðadóttur við spurningunni Hver er munurinn á trölli, jötni og risa? kemur meðal annars þetta fram:
Lengst af hefur íslenska orðið tröll þó ævinlega verið notað um einhvers konar bergbúa eða vættir í mannsmynd. Fram kemur í þjóðsögum að tröll eru stórvaxnar verur sem búa í hellum og gljúfrum. Þau eru ólík jötnakyni goðsagnanna að því leyti að jötnarnir búa vel og ríkmannlega, eiga góð húsakynni og berast á, eins og lesa má um í Þrymskviðu og víðar.Af þessu sést að það er ekki fjarri lagi að láta tröll verða að steini, enda eru þau bergbúar. Ef tröllin yrðu að banjói, færibandi eða einhverju öðru sem tengist þeim ekki neitt, væri verið að fara á skjön við skáldskaparlega rökvísi. Slík saga mundi frekar sverja sig í ætt við súrrealisma en íslenska þjóðsagnahefð. Súrrealismi snerist meðal annars um að tefla saman einhverju sem virtist fullkomlega óskylt og storka þannig vanabundinni skynjun. Það felst einnig rökvísi í því að láta tröllin verða að steini þegar sólin kemur upp. Andstæða sólarljóss og dagsbirtu er nóttin og myrkrið, en þá fara kynjaverur einmitt á kreik. Þegar hin upplýsta og bjarta veröld tekur aftur völdin er "eðlilegt" að myrkaöflin láti undan síga. Þá verða nátttröllin beinlínis steinrunnin. Umbreyting (e. metamorphosis) er eins konar afbrigði af myndhverfingu (e. metaphor) en með því hugtaki er átt við að merking orða færist af einu sviði yfir á annað. Ummyndun tröllanna verður til þess að þau hætta að vera tröll en verða að grjóti í staðinn. Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á tröll þegar menn eru á gönguferðum og eins og getur verið gaman að sjá andlit í skýjafari. Eitt þekktasta verk bókmenntasögunnar sem fjallar um ummyndanir er verkið Umbreytingar (lat. Metamorphoses) eftir rómverska silfurskáldið Óvíd (43 f.Kr. - 17 e.Kr.). Frægasta 20. aldar verkið er hins vegar Umskiptin (þ. Die Verwandlung) eftir Franz Kafka (1883-1924) en þar breytist maður í bjöllu. Frekara lesefni um tröll á Vísindvefnum:
- Hvað eru vættir? Eru þeir til í alvörunni? eftir Árna Björnsson
- Hvað var elsta tröllið gamalt þegar það dó? eftir JGÞ