Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Edward W. Said og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?

Kristinn Schram

Edward W. Said var palestínsk-amerískur bókmenntafræðingur, kunnastur fyrir orðræðugreiningu sína á textum og myndmáli Vesturlandabúa um Austurlönd og Austurlandabúa. Í þekktustu bók sinni Orientalism sýndi hann fram á tengsl nútíma Austurlandafræða við heimsvaldastefnu og viðvarandi hugmynda um framandleika hins austræna.

Said fæddist í Jerúsalem 1935 þegar Palestína var undir breskum yfirráðum. Faðir hans var Bandaríkjamaður af palestínskum uppruna en móðirin af palestínskum og líbönskum uppruna. Fjölskyldur beggja voru mótmælendatrúar. Fram að unglingsárunum bjó hann bæði í Jerúsalem og Kaíró en vegna stríðsátaka var hann sendur til náms í Bandaríkjunum. Sökum uppruna síns gekk honum illa að fóta sig félagslega, hvort sem var í Egyptalandi eða Bandaríkjunum. Honum gekk þó vel í námi og stundaði framhaldsnám sitt við Princeton og síðar Harvard-háskóla þar sem hann lauk doktorsprófi í enskum bókmenntum.

Said var ráðinn til Columbia-háskóla árið 1963 og þar starfaði hann til æviloka. Hann sinnti auk þess fyrirlestrahaldi í yfir hundrað háskólum og skrifaði reglulega í blöð á borð við The Guardian, London Review of Books, Le Monde Diplomatique og arabíska dagblaðið al-Hayat. Said skrifaði meðal annars um bókmenntir, tónlist og menningu en var einnig mikilvirkur í pólitískri umræðu, ekki síst um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og málefni Miðausturlanda. Hann var ötull baráttumaður fyrir stofnun Palestínuríkis og stuðningsmaður tveggja-ríkja-lausnarinnar svokölluðu. Said var raunar leiðandi í þeirri baráttu og gegndi um tíma stöðu í löggjafarsamkundu Frelsissamtaka Palestínu (PLO).

Edward W. Said var oft umdeildur og hann sætti meðal annars eftirliti Bandarísku Alríkislögreglunnar (FBI), en gaf hvergi eftir í afstöðu sinni til ólöglegra landtökubyggða Ísraelsmanna eða réttar Palestínumanna að snúa aftur til fyrri heimkynna innan Ísraelsríkis. Þetta leiddi raunar til versnandi samskipta við palestínsk stjórnvöld. Í hvívetna nýtti hann þó fjölþætta þjóðernismynd sína til að varpa ljósi á deilumál og auka skilning á milli deiluaðila.



Edward W. Said (1935-2003).

Þekktastur er Said fyrir gagnrýni sína og greiningu á textum og myndmáli Vesturlandabúa um Austurlönd og Austurlandabúa. Þótt hann væri ekki einn um slíka gagnrýni vakti bók hans Orientalism, sem kom út árið 1978, gífurlega athygli og hafði mikil áhrif á umræðu um síðnýlendustefnu á níunda og tíunda áratug 20. aldar. Hann benti á tengsl Austurlandafræða við heimsvaldastefnu og viðvarandi hugmynda um framandleika hins austræna. Með því að gera hugmynd ítalska rithöfundarins og heimspekingsins Antonios Gramsci (1891-1937) um menningarlegt forræði (e. hegemony) að sinni og laga hana að orðræðugreiningu franska heimspekingsins Michels Foucault (1926-1984), sýndi Said fram á að nútíma Austurlandafræði væru meira en rannsóknarsvið í hinum vestræna heimi. Í hans skilningi eru Austurlandafræði eftir miðja 19. öld auðvaldsstofnun (e. corporate institution) sem byggir á alhæfingum, menningarlegum formgerðum, tengslum og textum sem í heild mynda „orðræðu“ sem skilgreinir Austurlönd og Austurlandabúa fyrir Vestrinu og setur menningu þeirra fram sem andstæðu vestrænnar menningar. Annars fjölbreyttri og innbyrðis ólíkri menningu þjóða í Austurlöndum nær og fjær væri gefin eðliseinkenni á borð við framandleika, kvenleika og órökrænu á meðan Vestrið væri skilgreint sem eðlilegt, karlmannlegt og skynsamlegt.


Kápumynd bókarinnar Orientalism eftir Edward W. Said.

Gagnrýni Said beindist ekki síst að forvígismönnum nútíma Austurlandafræða og kerfisbundinnar söfnunarhefðar þeirra. Hann taldi þessa söfnun síður en svo bundna þekkingu og kenningum, heldur hneigðust Austurlandafræðin til þess að slá eign sinni á manneskjur og landsvæði. Að endurreisa dauð eða glötuð tungumál í Austrinu fól í sér að endurreisa dauð eða vanrækt Austurlönd. Það þýddi einnig að nákvæmni vísindalegrar endurgerðar myndi varða leiðina að því sem hersveitir, ríkisstjórnir og skrifræði áttu síðar eftir að gera í Austrinu.

Said vildi meina að þótt Vestrið hafi gert sér staðalmyndir af Austrinu síðan á fornöld settu nútíma Austurlandafræðingar þær í vísindalegan og skynsaman búning. Þetta ól ekki aðeins af sér fræðileg verk heldur einnig orðaforða og hugmyndir sem nota mátti á ábyrgðarlausan hátt af hverjum sem er. Þessi göfgun Austurlandafræðinnar setti Austurlandafræðinginn einnig á stall sem aðalkennivaldið um Austrið. Það helgaði og dreifði ákveðnu heildarverki um Austrið og umræðu sem talaði fyrir Austurlönd. Said þótti óverðskulduð sú virðing sem þetta fræðasamfélag hafði áunnið sér bæði innbyrðis og út fyrir raðir sínar. Hann benti á að því meira sem Evrópa lagði undir sig af Austrinu á 19. öldinni því meira traust var almennt borið til Austurlandafræðanna. Hlutverk þeirra var þó að hans mati ekki aðeins að skilja, heldur að leggja undir sig, og í sumum tilfellum misnota, fjarlæg lönd og þjóðir. Said lagði fram ítarlega greiningu á þessu ferli og með hvaða hætti það hafi haft áhrif á pólitísk og menningarleg tengsl þessara svæða og ekki síður hvernig það mótaði sjálfsmyndir íbúanna.

Fjölmargir svöruðu fyrir Austurlandafræðingana og gagnrýndu bók Said, og önnur tengd verk, fyrir að setja ólíka fræðimenn undir sama hatt. Þeim þótt hann ekki gera nægilegan greinarmun á viðhorfum og bakgrunni þeirra sem var innbyrðis ólíkur og jafnvel ótengdur nýlendustefnu. Gagnrýnendur Said bentu margir á sögulega ónákvæmni en minna fór fyrir beinni gagnrýni á kjarnann í rannsóknum hans sem fólst í að greina orðræðu í Austurlandafræðum og formgerðir kerfisbundinnar heimsvaldastefnu þar innan. Beittasta gagnrýnin á Said er þó kannski sú kaldhæðnislega ásökun að hann hafi gert jafn einfaldaða mynd af Vestrinu og hann ásakar Austurlandafræðingana um að hafa gert af Austrinu.

Said varði kenningar sínar þó til hins ýtrasta og þær voru fræðimönnum mikil áskorun á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Umræðan í kjölfarið hefur oft verið frjó og getið af sér nýjar fræðilegar nálganir á sviðum á borð við listasögu, fjölmiðlafræði, þýðingarfræði, kynjafræði og síðnýlendufræði sem enn reyna að svara spurningum eins og: Eru Austur og Vestur til sem annað en ímyndir, hver eru tengsl fræða og valds og hvaða hlutverki gegnir persónuleg reynsla og bakgrunnur fræðimanna í tengslum við viðfangsefni þeirra?

Edward W. Said lést árið 2003 eftir langvarandi veikindi. Ævistarf hans nýtur áfram mikillar athygli og er víða áhrifamikið. Ekki verða að fullu skilin í sundur fræðistörf Said, pólitísk afskipti og persónuleg reynsla hans sjálfs. Fyrir það hefur hann þolað gagnrýni en einnig notið vinsælda. Ef til vill má rekja vinsældir verka hans til þverfaglegrar nálgunar: það er hvað hann höfðar til breiðs hóps fræðimanna. Þær má einnig rekja til þess að rannsóknir hans varpa ljósi á aðkallandi spurningar um tengsl hlutlægs og huglægs veruleika; „okkar“ og „hinna“; sýndar og reyndar. Verk hans hafa því haft viðvarandi áhrif á fræðilega og pólitíska umræðu og ná vel út fyrir málefni Austur- og Miðausturlanda. Má þar nefna umfjöllun um áhrif síðnýlendustefnu um heim allan svo og rannsóknir á ímyndum Norðursins.

Heimildir, lesefni og myndir:

  • Edward Said, Orientalism. London: Pantheon Books, 1978.
  • Orientalism: a Reader, ritstj. A.L. Macfie. Edinburgh: Edinburgh University Press, 2000.
  • Grein um Edward Said á vefsetrinu Wikipedia.org
  • Greinasafn eftir um Edward Said á netinu The Edward Said Archive
  • Um rannsóknir á ímyndum Norðursins inor.is
  • Ömür Harmansah. Sótt 1. 3. 2011.
  • Maha Muslimah. Sótt 2.3.2011.

Höfundur

forstöðumaður Þjóðfræðistofu og nýdoktor á Eddu – Öndvegissetri og ReykjavíkurAkademíunni

Útgáfudagur

2.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Kristinn Schram. „Hver var Edward W. Said og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58286.

Kristinn Schram. (2011, 2. mars). Hver var Edward W. Said og hvert var hans framlag til vísinda og fræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58286

Kristinn Schram. „Hver var Edward W. Said og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58286>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Edward W. Said og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?
Edward W. Said var palestínsk-amerískur bókmenntafræðingur, kunnastur fyrir orðræðugreiningu sína á textum og myndmáli Vesturlandabúa um Austurlönd og Austurlandabúa. Í þekktustu bók sinni Orientalism sýndi hann fram á tengsl nútíma Austurlandafræða við heimsvaldastefnu og viðvarandi hugmynda um framandleika hins austræna.

Said fæddist í Jerúsalem 1935 þegar Palestína var undir breskum yfirráðum. Faðir hans var Bandaríkjamaður af palestínskum uppruna en móðirin af palestínskum og líbönskum uppruna. Fjölskyldur beggja voru mótmælendatrúar. Fram að unglingsárunum bjó hann bæði í Jerúsalem og Kaíró en vegna stríðsátaka var hann sendur til náms í Bandaríkjunum. Sökum uppruna síns gekk honum illa að fóta sig félagslega, hvort sem var í Egyptalandi eða Bandaríkjunum. Honum gekk þó vel í námi og stundaði framhaldsnám sitt við Princeton og síðar Harvard-háskóla þar sem hann lauk doktorsprófi í enskum bókmenntum.

Said var ráðinn til Columbia-háskóla árið 1963 og þar starfaði hann til æviloka. Hann sinnti auk þess fyrirlestrahaldi í yfir hundrað háskólum og skrifaði reglulega í blöð á borð við The Guardian, London Review of Books, Le Monde Diplomatique og arabíska dagblaðið al-Hayat. Said skrifaði meðal annars um bókmenntir, tónlist og menningu en var einnig mikilvirkur í pólitískri umræðu, ekki síst um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og málefni Miðausturlanda. Hann var ötull baráttumaður fyrir stofnun Palestínuríkis og stuðningsmaður tveggja-ríkja-lausnarinnar svokölluðu. Said var raunar leiðandi í þeirri baráttu og gegndi um tíma stöðu í löggjafarsamkundu Frelsissamtaka Palestínu (PLO).

Edward W. Said var oft umdeildur og hann sætti meðal annars eftirliti Bandarísku Alríkislögreglunnar (FBI), en gaf hvergi eftir í afstöðu sinni til ólöglegra landtökubyggða Ísraelsmanna eða réttar Palestínumanna að snúa aftur til fyrri heimkynna innan Ísraelsríkis. Þetta leiddi raunar til versnandi samskipta við palestínsk stjórnvöld. Í hvívetna nýtti hann þó fjölþætta þjóðernismynd sína til að varpa ljósi á deilumál og auka skilning á milli deiluaðila.



Edward W. Said (1935-2003).

Þekktastur er Said fyrir gagnrýni sína og greiningu á textum og myndmáli Vesturlandabúa um Austurlönd og Austurlandabúa. Þótt hann væri ekki einn um slíka gagnrýni vakti bók hans Orientalism, sem kom út árið 1978, gífurlega athygli og hafði mikil áhrif á umræðu um síðnýlendustefnu á níunda og tíunda áratug 20. aldar. Hann benti á tengsl Austurlandafræða við heimsvaldastefnu og viðvarandi hugmynda um framandleika hins austræna. Með því að gera hugmynd ítalska rithöfundarins og heimspekingsins Antonios Gramsci (1891-1937) um menningarlegt forræði (e. hegemony) að sinni og laga hana að orðræðugreiningu franska heimspekingsins Michels Foucault (1926-1984), sýndi Said fram á að nútíma Austurlandafræði væru meira en rannsóknarsvið í hinum vestræna heimi. Í hans skilningi eru Austurlandafræði eftir miðja 19. öld auðvaldsstofnun (e. corporate institution) sem byggir á alhæfingum, menningarlegum formgerðum, tengslum og textum sem í heild mynda „orðræðu“ sem skilgreinir Austurlönd og Austurlandabúa fyrir Vestrinu og setur menningu þeirra fram sem andstæðu vestrænnar menningar. Annars fjölbreyttri og innbyrðis ólíkri menningu þjóða í Austurlöndum nær og fjær væri gefin eðliseinkenni á borð við framandleika, kvenleika og órökrænu á meðan Vestrið væri skilgreint sem eðlilegt, karlmannlegt og skynsamlegt.


Kápumynd bókarinnar Orientalism eftir Edward W. Said.

Gagnrýni Said beindist ekki síst að forvígismönnum nútíma Austurlandafræða og kerfisbundinnar söfnunarhefðar þeirra. Hann taldi þessa söfnun síður en svo bundna þekkingu og kenningum, heldur hneigðust Austurlandafræðin til þess að slá eign sinni á manneskjur og landsvæði. Að endurreisa dauð eða glötuð tungumál í Austrinu fól í sér að endurreisa dauð eða vanrækt Austurlönd. Það þýddi einnig að nákvæmni vísindalegrar endurgerðar myndi varða leiðina að því sem hersveitir, ríkisstjórnir og skrifræði áttu síðar eftir að gera í Austrinu.

Said vildi meina að þótt Vestrið hafi gert sér staðalmyndir af Austrinu síðan á fornöld settu nútíma Austurlandafræðingar þær í vísindalegan og skynsaman búning. Þetta ól ekki aðeins af sér fræðileg verk heldur einnig orðaforða og hugmyndir sem nota mátti á ábyrgðarlausan hátt af hverjum sem er. Þessi göfgun Austurlandafræðinnar setti Austurlandafræðinginn einnig á stall sem aðalkennivaldið um Austrið. Það helgaði og dreifði ákveðnu heildarverki um Austrið og umræðu sem talaði fyrir Austurlönd. Said þótti óverðskulduð sú virðing sem þetta fræðasamfélag hafði áunnið sér bæði innbyrðis og út fyrir raðir sínar. Hann benti á að því meira sem Evrópa lagði undir sig af Austrinu á 19. öldinni því meira traust var almennt borið til Austurlandafræðanna. Hlutverk þeirra var þó að hans mati ekki aðeins að skilja, heldur að leggja undir sig, og í sumum tilfellum misnota, fjarlæg lönd og þjóðir. Said lagði fram ítarlega greiningu á þessu ferli og með hvaða hætti það hafi haft áhrif á pólitísk og menningarleg tengsl þessara svæða og ekki síður hvernig það mótaði sjálfsmyndir íbúanna.

Fjölmargir svöruðu fyrir Austurlandafræðingana og gagnrýndu bók Said, og önnur tengd verk, fyrir að setja ólíka fræðimenn undir sama hatt. Þeim þótt hann ekki gera nægilegan greinarmun á viðhorfum og bakgrunni þeirra sem var innbyrðis ólíkur og jafnvel ótengdur nýlendustefnu. Gagnrýnendur Said bentu margir á sögulega ónákvæmni en minna fór fyrir beinni gagnrýni á kjarnann í rannsóknum hans sem fólst í að greina orðræðu í Austurlandafræðum og formgerðir kerfisbundinnar heimsvaldastefnu þar innan. Beittasta gagnrýnin á Said er þó kannski sú kaldhæðnislega ásökun að hann hafi gert jafn einfaldaða mynd af Vestrinu og hann ásakar Austurlandafræðingana um að hafa gert af Austrinu.

Said varði kenningar sínar þó til hins ýtrasta og þær voru fræðimönnum mikil áskorun á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Umræðan í kjölfarið hefur oft verið frjó og getið af sér nýjar fræðilegar nálganir á sviðum á borð við listasögu, fjölmiðlafræði, þýðingarfræði, kynjafræði og síðnýlendufræði sem enn reyna að svara spurningum eins og: Eru Austur og Vestur til sem annað en ímyndir, hver eru tengsl fræða og valds og hvaða hlutverki gegnir persónuleg reynsla og bakgrunnur fræðimanna í tengslum við viðfangsefni þeirra?

Edward W. Said lést árið 2003 eftir langvarandi veikindi. Ævistarf hans nýtur áfram mikillar athygli og er víða áhrifamikið. Ekki verða að fullu skilin í sundur fræðistörf Said, pólitísk afskipti og persónuleg reynsla hans sjálfs. Fyrir það hefur hann þolað gagnrýni en einnig notið vinsælda. Ef til vill má rekja vinsældir verka hans til þverfaglegrar nálgunar: það er hvað hann höfðar til breiðs hóps fræðimanna. Þær má einnig rekja til þess að rannsóknir hans varpa ljósi á aðkallandi spurningar um tengsl hlutlægs og huglægs veruleika; „okkar“ og „hinna“; sýndar og reyndar. Verk hans hafa því haft viðvarandi áhrif á fræðilega og pólitíska umræðu og ná vel út fyrir málefni Austur- og Miðausturlanda. Má þar nefna umfjöllun um áhrif síðnýlendustefnu um heim allan svo og rannsóknir á ímyndum Norðursins.

Heimildir, lesefni og myndir:

  • Edward Said, Orientalism. London: Pantheon Books, 1978.
  • Orientalism: a Reader, ritstj. A.L. Macfie. Edinburgh: Edinburgh University Press, 2000.
  • Grein um Edward Said á vefsetrinu Wikipedia.org
  • Greinasafn eftir um Edward Said á netinu The Edward Said Archive
  • Um rannsóknir á ímyndum Norðursins inor.is
  • Ömür Harmansah. Sótt 1. 3. 2011.
  • Maha Muslimah. Sótt 2.3.2011.
...