Eftir að hafa reynt að lagfæra sönnunina í heilt ár þá segir Wiles sjálfur svo frá að hann hafi verið að því kominn að gefast upp þegar hann fékk skyndilega hugljómun og sá hvernig hann gat lagfært sönnunina. Hann naut liðsinnis gamals nemanda síns, Richards Taylors, við að hnýta síðustu lausu endana og árið 1995 birtist svo í tímaritinu Annals of Mathematics rúmlega 100 síðna grein eftir Wiles og 20 síðna grein eftir Taylor og Wiles. Þó síðasta setning Fermats hafi verið sönnuð þá er sögunni ekki enn lokið. Niðurstaðan sjálf skiptir sem slík litlu máli fyrir stærðfræði sem fræðigrein. Hið mikilvæga er sú fyrsta flokks stærðfræði sem hefur orðið til í glímunni við síðustu setningu Fermats. Heil fræðigrein, algebruleg talnafræði, er að verulegum hluta sprottin upp úr tilraunum manna við að sanna síðustu setningu Fermats. Sönnun Wiles markaði vissulega lokin á glímu mannkyns við síðustu setningu Fermats en hinar djúpu hugmyndir sem Wiles notaði í sönnun sinni munu um ókomin ár gefa af sér ný verkefni og nýjar niðurstöður í talnafræði. Ólíkt síðustu setningu Fermats þá má því miður búast við að þessi nýju verkefni verði aðeins skiljanleg sérfræðingum í talnafræði. Sönnunin sjálf mun líka verða til umfjöllunar og í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að hún verði stytt og einfölduð á ýmsan hátt en eflaust finnst ekki „einföld“ sönnun á síðustu setningu Fermats. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver var síðasta setning Fermats? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hvernig er sagan af því þegar Perelman leysti Poincaré-tilgátuna? eftir Robert Magnus og Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Getið þið sannað Goldbach-tilgátuna? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hefur tilgáta Riemanns verið sönnuð? eftir Ragnar Sigurðsson
- Hver var Vilhjálmur Ögmundsson og hvert var hans framlag til stærðfræðinnar? eftir Kristínu Bjarnadóttur
- Hver var Andrei Kolmogorov og hvert var framlag hans til stærðfræðinnar? eftir Hermann Þórisson
- Hver var Gaston Julia? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Wikipedia.com - Pierre de Fermat. Sótt 27.1.2011.
- Wikipedia.com - Andrew John Wiles. Sótt 27.1.2011.