Hugmyndin á bakvið mengin hans Julia er einföld. Ef okkur er gefið eitthvað fall og punktur, þá getum við reiknað gildi fallsins í punktinum og fengið einhvern nýjan punkt. En við þurfum ekki að hætta þarna, heldur getum við reiknað gildi fallsins í nýja punktinum, fengið enn annan punkt, og haldið þannig áfram koll af kolli. Þetta ferli heitir að ítra fallið í gefna punktinum. Við að ítra fallið fáum við runu af punktum í tvinntalnaplaninu. Það sem Julia áttaði sig á var að það má flokka þessar runur á vissan hátt. Í grófum dráttum falla runurnar í þrjá flokka; í fyrsta lagi geta þær haft markgildi og stefnt að einhverjum punkti, í öðru lagi geta þær verið lotubundnar og endurtekið eitthvað mynstur að eilífu, og í þriðja lagi getur hegðun þeirra verið óreiðukennd og punktarnir hoppað villt og galið um tvinntalnaplanið án sýnilegrar reglu.
Mengi Julia fyrir gefið fall er safnið af þeim punktum sem falla í þriðja flokkinn. Í vissum skilningi er hegðun fallsins okkar óregluleg í punktunum í Julia-menginu, en hegðun þess er reglulegri í öðrum punktum. Eins og áður sagði mynda mengi Julia brotalandslag, en það eru þær rúmfræðimyndir sem má skipta í hluta sem eru hver um sig smækkað afrit upphaflegu myndarinnar. Oft má fá slíkar myndir fram með einföldum endurkvæmum aðgerðum, eða með því að ítra eitthvað ákveðið fall. Stærðfræðingurinn Benoit Mandelbrot hefur rannsakað slíkar myndir með hjálp tölva. Myndirnar þykja oft fallegar og hafa stundum tengsl við ýmis form úr náttúrunni, eins og snjókorn, strandlengjur og blóðrásir. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvað er ítrun Newtons? eftir Hildi Guðmundsdóttur.
- Er mengi rauntalna hlutmengi í mengi tvinntalna? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Ögmund Jónsson.
- Hefur tilgáta Riemanns verið sönnuð? eftir Ragnar Sigurðsson.
- Ágrip af ævi Gaston Julia.
- Julia mengi á vefsíðu Cut the Knot.
- Grein um brotamyndir á Wikipedia.
- Allar myndirnar voru fengnar af Wikipedia.