Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að vera með skófíkn?

Dagný Kristjánsdóttir

Hugtakið fíkn (e. addiction) er notað í lýðheilsu- og geðlæknisfræðum yfir áráttuhegðun sem fólk hefur ekki vald yfir. Í þeim skilningi er hæpið að tala um skófíkn sem oftast vísar ekki til alvarlegra ástands en þess að hafa gaman af tísku og fallegum fötum. Hins vegar leika skór stórt hlutverk í neyslumenningu samtímans og það er engin tilviljun.

Í menningu okkar og bókmenntum eru skór ekki bara hluti af fatnaði manna eins og húfa eða vettlingar. Skór hafa leikið mun stærra og oftast táknrænna hlutverk í menningunni eins og við sjáum til dæmis í ævintýrinu um Öskubusku. Það er eitt vinsælasta ævintýri heimsins og til í ótal útgáfum. Í hinni fornu kínversku útgáfu er það stúlkan sjálf sem mátar skóinn. Þar þóttu fætur kvenna nefnilega fegursti og erótískasti hluti kvenlíkamans. Því smærri þeim mun fegurri. Það hefði jaðrað við klám ef prinsinn hefði farið höndum um fætur fjölda stúlkna til að troða þeim ofan í glerskó!

Þó skófíkn sé ekki til, tengjast skór annars konar áráttu sem kallast blætisdýrkun. Karl Marx (1818-1883) sagði að gildi vörunnar ákvarðaðist af þrennu; notagildi hennar, skiptagildi og blætisgildi. Nota- og skiptagildi liggja í augum uppi. Blæti (e. fetish) er komið af sögninni „að blóta“ og vísar til hlutar sem dýrkaður er eða tilbeðinn. Blætisgildi vöru kemur skipta- og notagildi hennar ekkert við heldur felst í því hvort seljandinn getur talið kaupandanum trú um að hann „verði“ að eignast nákvæmlega þessa vöru, annars verði hann aldrei hamingjusamur.

Kenningar um kynferðislega blætishyggju (e. sexual fetisism) með rætur í bernskunreynslu komu fram undir lok nítjándu aldar. Austurríski sálgreinandinn Sigmund Freud (1856-1939) setti fram kenningar um kynferðislega blætishyggju sem hann hafði rekist á hjá mörgum sjúklinga sínum. Hið kynferðislega blæti er eitthvað sem maðurinn þarf að hafa fyrir augunum eða í huganum til að vera fær um að hafa samfarir og fá fullnægingu. Hluturinn sem fær blætisgildi getur verið hvað sem er og er raunar oftast eitthvað sem aðrir sjá ekkert kynferðislegt við. Oft verða skór slíkt blæti. Vændiskonur í stórborgum Evrópu voru oft auðkenndar á sínum rauðu skóm eða stígvélum á öldum áður. Margir muna eftir hinum gríðarlega hælaháu, háu stígvélum sem vændiskonan hjartahreina Vivian, leikin af Juliu Roberts klæddist í Öskubuskusögunni: Pretty Woman, söluhæstu mynd allra tíma.

Tvær af birtingarmyndum kynferðislegrar blætishyggju eru samkvæmt geðlæknisfræðum söfnunarárátta og stelsýki. Hið fyrrnefnda er algengara meðal gagnkynhneigðra karla sem eru meirihluti þeirra sem háðir eru kynferðislegri blætishyggju. Hið síðarnefnda er hins vegar algengara meðal þeirra kvenna sem háðar eru kynferðislegri blætishyggju samkvæmt Louise J. Kaplan. Konur stela úr búðum, eins og af þvingun eða áráttu. Þær stela hlutum sem þær halda að muni gera þær hamingjusamar og færa þeim ást þeirra sem þær vilja að elski sig. Þær reyna þannig „að stela“ ímynd einhvers sem þær eru ekki. Öskubuskusögur nútímans snúast mjög oft um verslunaráráttu eins og í Pretty Woman þar sem hápunktur myndarinnar er verslunarleiðangur í hátískubúð. Það sem í raun er verið að versla með eru vöruvæddar þrár og tilfinningar. Auglýsingarnar höfða mjög til blætishyggju beggja kynja. Sagt er að menn VERÐI að eignast hluti sem gefi þeim ást eða völd.


Carrie Bradshaw úr Sex And The City elskar skó!

Mikið hefur verið lagt upp úr blætisgildi skófatnaðar í fjöldamenningu síðustu ára eins og í hinum svokölluðu skvísubókmenntum (e. chick-lit) og í sjónvarpsþáttunum Beðmál í borginni (Sex and the City) og Aðþrengdum eiginkonum (Desperate Housewives). Sumir hafa skoðað þessa þætti sem yfirlýsingu um að þriðju-bylgju femínistar ráði því sjálfir hvort þeir hækki hælana og ýki kvenleikann eins og þeim finnst fegurst, aðrir skoða þáttaraðirnar sem hugmyndafræðilegt útspil í þágu neysluhyggju þar sem kvenlíkaminn er til sýnis og jafnvel sölu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Sigmund Freud 1977. Fetischismus í On Sexuality. London, Pelican Freud Library.
  • Louise J. Kaplan 1991. Female perversions. The temptations of Emma Bovary.
  • Dagný Kristjánsdóttir 1996. Kona verður til. Um fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, Háskólaútgáfa.
  • Dagný Kristjánsdóttir 1999. Froskur kyssir flösku. Í Guðni Elísson (ritstj.) Heimur kvikmyndanna. Reykjavík: Háskólaútgáfa.

Myndir:

Höfundur

Dagný Kristjánsdóttir

prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við HÍ

Útgáfudagur

21.5.2010

Spyrjandi

Hörður Sævar Óskarsson

Tilvísun

Dagný Kristjánsdóttir. „Er hægt að vera með skófíkn?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2010, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56283.

Dagný Kristjánsdóttir. (2010, 21. maí). Er hægt að vera með skófíkn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56283

Dagný Kristjánsdóttir. „Er hægt að vera með skófíkn?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2010. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56283>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að vera með skófíkn?
Hugtakið fíkn (e. addiction) er notað í lýðheilsu- og geðlæknisfræðum yfir áráttuhegðun sem fólk hefur ekki vald yfir. Í þeim skilningi er hæpið að tala um skófíkn sem oftast vísar ekki til alvarlegra ástands en þess að hafa gaman af tísku og fallegum fötum. Hins vegar leika skór stórt hlutverk í neyslumenningu samtímans og það er engin tilviljun.

Í menningu okkar og bókmenntum eru skór ekki bara hluti af fatnaði manna eins og húfa eða vettlingar. Skór hafa leikið mun stærra og oftast táknrænna hlutverk í menningunni eins og við sjáum til dæmis í ævintýrinu um Öskubusku. Það er eitt vinsælasta ævintýri heimsins og til í ótal útgáfum. Í hinni fornu kínversku útgáfu er það stúlkan sjálf sem mátar skóinn. Þar þóttu fætur kvenna nefnilega fegursti og erótískasti hluti kvenlíkamans. Því smærri þeim mun fegurri. Það hefði jaðrað við klám ef prinsinn hefði farið höndum um fætur fjölda stúlkna til að troða þeim ofan í glerskó!

Þó skófíkn sé ekki til, tengjast skór annars konar áráttu sem kallast blætisdýrkun. Karl Marx (1818-1883) sagði að gildi vörunnar ákvarðaðist af þrennu; notagildi hennar, skiptagildi og blætisgildi. Nota- og skiptagildi liggja í augum uppi. Blæti (e. fetish) er komið af sögninni „að blóta“ og vísar til hlutar sem dýrkaður er eða tilbeðinn. Blætisgildi vöru kemur skipta- og notagildi hennar ekkert við heldur felst í því hvort seljandinn getur talið kaupandanum trú um að hann „verði“ að eignast nákvæmlega þessa vöru, annars verði hann aldrei hamingjusamur.

Kenningar um kynferðislega blætishyggju (e. sexual fetisism) með rætur í bernskunreynslu komu fram undir lok nítjándu aldar. Austurríski sálgreinandinn Sigmund Freud (1856-1939) setti fram kenningar um kynferðislega blætishyggju sem hann hafði rekist á hjá mörgum sjúklinga sínum. Hið kynferðislega blæti er eitthvað sem maðurinn þarf að hafa fyrir augunum eða í huganum til að vera fær um að hafa samfarir og fá fullnægingu. Hluturinn sem fær blætisgildi getur verið hvað sem er og er raunar oftast eitthvað sem aðrir sjá ekkert kynferðislegt við. Oft verða skór slíkt blæti. Vændiskonur í stórborgum Evrópu voru oft auðkenndar á sínum rauðu skóm eða stígvélum á öldum áður. Margir muna eftir hinum gríðarlega hælaháu, háu stígvélum sem vændiskonan hjartahreina Vivian, leikin af Juliu Roberts klæddist í Öskubuskusögunni: Pretty Woman, söluhæstu mynd allra tíma.

Tvær af birtingarmyndum kynferðislegrar blætishyggju eru samkvæmt geðlæknisfræðum söfnunarárátta og stelsýki. Hið fyrrnefnda er algengara meðal gagnkynhneigðra karla sem eru meirihluti þeirra sem háðir eru kynferðislegri blætishyggju. Hið síðarnefnda er hins vegar algengara meðal þeirra kvenna sem háðar eru kynferðislegri blætishyggju samkvæmt Louise J. Kaplan. Konur stela úr búðum, eins og af þvingun eða áráttu. Þær stela hlutum sem þær halda að muni gera þær hamingjusamar og færa þeim ást þeirra sem þær vilja að elski sig. Þær reyna þannig „að stela“ ímynd einhvers sem þær eru ekki. Öskubuskusögur nútímans snúast mjög oft um verslunaráráttu eins og í Pretty Woman þar sem hápunktur myndarinnar er verslunarleiðangur í hátískubúð. Það sem í raun er verið að versla með eru vöruvæddar þrár og tilfinningar. Auglýsingarnar höfða mjög til blætishyggju beggja kynja. Sagt er að menn VERÐI að eignast hluti sem gefi þeim ást eða völd.


Carrie Bradshaw úr Sex And The City elskar skó!

Mikið hefur verið lagt upp úr blætisgildi skófatnaðar í fjöldamenningu síðustu ára eins og í hinum svokölluðu skvísubókmenntum (e. chick-lit) og í sjónvarpsþáttunum Beðmál í borginni (Sex and the City) og Aðþrengdum eiginkonum (Desperate Housewives). Sumir hafa skoðað þessa þætti sem yfirlýsingu um að þriðju-bylgju femínistar ráði því sjálfir hvort þeir hækki hælana og ýki kvenleikann eins og þeim finnst fegurst, aðrir skoða þáttaraðirnar sem hugmyndafræðilegt útspil í þágu neysluhyggju þar sem kvenlíkaminn er til sýnis og jafnvel sölu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Sigmund Freud 1977. Fetischismus í On Sexuality. London, Pelican Freud Library.
  • Louise J. Kaplan 1991. Female perversions. The temptations of Emma Bovary.
  • Dagný Kristjánsdóttir 1996. Kona verður til. Um fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, Háskólaútgáfa.
  • Dagný Kristjánsdóttir 1999. Froskur kyssir flösku. Í Guðni Elísson (ritstj.) Heimur kvikmyndanna. Reykjavík: Háskólaútgáfa.

Myndir:

...