Fyrstu rannsóknir innan afbrotafræði á búðaþjófnaði upp úr miðri 20. öld bentu til þess að konur væru mun meiri hnuplarar en karlar (sjá til dæmis bókina Criminology eftir Beirne og Messerschmidt). Meðal ungmenna var hlutfallið nokkuð jafnt milli kynjanna en þegar kom að fullorðnum voru konur í meirihluta. Skýringarnar eru taldar vera þær að konur sáu að mestu leyti um innkaup og höfðu því mun fleiri og betri tækifæri til þess að hnupla úr búðum en karlar. Þegar fleiri karlar fóru að kaupa inn hefur hlutfallið milli kynjanna orðið jafnara. Mary Owen Cameron hélt því fram í bókinni The Booster and the Snitch (1964) að konur væru ekki hlutfallslega fleiri í hópi hnuplara en í hópi viðskiptavina yfirleitt. Rannsóknir sem gerðar hafa verið síðar, eftir að hlutur karla í innkaupum jókst, staðfesta þessa niðurstöðu Camerons. Nýjustu rannsóknir á hnupli sýna að það virðist aukast mun hraðar meðal karla en meðal kvenna og má vafalítið rekja þessa þróun til vaxandi þátttöku karla í innkaupum. Búast má þó við því að hnupl verði enn um sinn sú tegund afbrota sem konur taka hvað virkastan þátt í. Svör sama höfundar um svipuð efni á Vísindavefnum:
- Af hverju eru afbrot kvenna sjaldgæfari en afbrot karla?
- Af hverju fremja Íslendingar afbrot?
- Hver eru sérsvið afbrotafræðinnar?