Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er til eitthvað sem heitir leiðrétt siðblinda?

Ritstjórn Vísindavefsins

Í hversdagslegu máli er sjaldan talað um blindu nema hún sé varanleg. Þegar blinda er tímabundin eða læknanleg er það yfirleitt tekið sérstaklega fram. Snjóblinda getur verið dæmi um slíkt. Bókmenntir og dægurmiðlar gefa oft til kynna að fólk sem er varanlega blint þjálfist í að beita öðrum skilningarvitum. Það kann töluvert að vera til í því. Til dæmis efast ekki nokkur heilvita maður um að blindir kung fu meistarar heyri grasið vaxa!

Siðblindu svipar til þeirrar sjónrænu á þann hátt að sjaldan er vísað til hennar ef aðeins er um tímabundið ástand að ræða. Hún er varanleg. Fólk kann að dorga í löstunum um stund án þess að fá þann stimpil á sig að það sé siðblint. Og siðblinda á þann þátt einnig sameiginlegan með þeirri sjónrænu að dægurmenningin vill oft gefa í skyn að siðblindinginn hafi skerpt aðra hæfni sína en þá sem felst í þroskaðri siðgæðisvitund. Hver kannast til dæmis ekki við hugmyndina um ofurgáfaða þrjótinn sem skortir algjörlega samúð og kannast ekki við samviskubit?

Þátttakandi í tilrauninni 'leiðrétt siðblinda'. Hann er með svonefndan höfuðstól til varnar grjótkasti.

Óstaðfestar fregnir hafa nýlega borist af tilraunum til að leiðrétta siðblindu víðs vegar um heiminn. Fyrir botni Miðjarðarhafs hefur til dæmis verið reynt að nota umfangsmiklar leysiaðgerðir til að auka réttsýni siðblindingja. Fregnir eru óljósar en svo virðist sem flestir þátttakendur í tilrauninni hafi slasast illa eftir að hafa kastað steinum úr glerhúsum. Einnig hefur frést af einum eða tveimur einstaklingum sem hafa endað með flís eða bjálka í augunum, eftir því hvaða heimildum er trúað. Ennfremur höfum við rekist á merka heimild sem greinir frá einstöku atviki í norðanverðri Evrópu, en þar var grjóti kastað úr steinhúsi. Það mun reyndar annað hvort hafa tengst skorti á víðsýni eða yfirgnæfandi heimssýn fremur en siðblindu. Rétt er að taka fram að heimildin er á fornu siðblindraletri og ekki víst að almenningur geti lesið hana sér til nokkurs gagns!

Þrátt fyrir að framangreind gögn taki ekki af allan vafa hefur ekkert komið fram sem bendir til að siðblinda verði leiðrétt á varanlegan máta. Hún er einfaldega talin ólæknanleg. En ekki er öll nótt úti enn. Með samstillu átaki er nú víða um heim reynt að leiðrétta þann forsendubrest sem siðblindan byggir meðal annars á. Siðferðileg rök byggja ávallt á forsendum sem geta reynst kolrangar. Hugsanatilraunir siðfræðinga hafa þannig flett ofan af lífseigum forsendum eins og þeirri að sannleikurinn sé sagna bestur. Siðblindingjar nýta sér til dæmis forsendur eins og þær að samfélagið sé ekki til og að afleiðingar athafna þeirra fyrir líf annars fólks skipti ekki máli. Slíka forsendubresti má auðveldlega leiðrétta þrátt fyrir að hegðun siðblindingjans sjálfs breytist ekki.

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að leiðréttingar á forsendubrestum, eins og þeirra sem hér hafa verið nefndir, eru ávallt sértækar og hefur það kallað á töluverða gagnrýni úr ýmsum áttum. Hafa gagnrýnendur því beitt fyrir sig af mikilli fimi réttlætisrökum, sanngirnisrökum og fáviskurökum (e. appeal to ignorance) til að kalla eftir almennum leiðréttingum þar sem öllum vel tryggðum siðferðilegum ályktunum verður kollvarpað og þær einfaldlega endurreiknaðar. Vandamálið við að ráðast í almennar leiðréttingar á siðferðilegum forsendum er að fjölmargir aðilar, sérstaklega erlendis frá, harðneita að taka þátt í slíkri aðgerð. Má þar til að mynda nefna fylgjendur páfans í Róm og stuðningsmenn enska heimspekingsins Johns Stuarts Mill. Þeir þvertaka fyrir að nokkur forsendubrestur hafi orðið í þeirra málflutningi, berja í brestina og þrjóskast við.

Rétt er að taka fram að þetta svar er föstudagssvar. Við eigum von á leiðréttu svari strax. Þeir sem nenna ekki að bíða geta fengið glýju í augun á meðan þeir lesa svar við spurningunni Ef gullið sem vitringarnir þrír gáfu Jesú Kristi hefði verið sett í banka, hversu mikils virði væri það í dag?

Mynd:

Útgáfudagur

6.12.2013

Spyrjandi

Björgvin Freyr Þorsteinsson

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Er til eitthvað sem heitir leiðrétt siðblinda?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2013, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56043.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2013, 6. desember). Er til eitthvað sem heitir leiðrétt siðblinda? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56043

Ritstjórn Vísindavefsins. „Er til eitthvað sem heitir leiðrétt siðblinda?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2013. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56043>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er til eitthvað sem heitir leiðrétt siðblinda?
Í hversdagslegu máli er sjaldan talað um blindu nema hún sé varanleg. Þegar blinda er tímabundin eða læknanleg er það yfirleitt tekið sérstaklega fram. Snjóblinda getur verið dæmi um slíkt. Bókmenntir og dægurmiðlar gefa oft til kynna að fólk sem er varanlega blint þjálfist í að beita öðrum skilningarvitum. Það kann töluvert að vera til í því. Til dæmis efast ekki nokkur heilvita maður um að blindir kung fu meistarar heyri grasið vaxa!

Siðblindu svipar til þeirrar sjónrænu á þann hátt að sjaldan er vísað til hennar ef aðeins er um tímabundið ástand að ræða. Hún er varanleg. Fólk kann að dorga í löstunum um stund án þess að fá þann stimpil á sig að það sé siðblint. Og siðblinda á þann þátt einnig sameiginlegan með þeirri sjónrænu að dægurmenningin vill oft gefa í skyn að siðblindinginn hafi skerpt aðra hæfni sína en þá sem felst í þroskaðri siðgæðisvitund. Hver kannast til dæmis ekki við hugmyndina um ofurgáfaða þrjótinn sem skortir algjörlega samúð og kannast ekki við samviskubit?

Þátttakandi í tilrauninni 'leiðrétt siðblinda'. Hann er með svonefndan höfuðstól til varnar grjótkasti.

Óstaðfestar fregnir hafa nýlega borist af tilraunum til að leiðrétta siðblindu víðs vegar um heiminn. Fyrir botni Miðjarðarhafs hefur til dæmis verið reynt að nota umfangsmiklar leysiaðgerðir til að auka réttsýni siðblindingja. Fregnir eru óljósar en svo virðist sem flestir þátttakendur í tilrauninni hafi slasast illa eftir að hafa kastað steinum úr glerhúsum. Einnig hefur frést af einum eða tveimur einstaklingum sem hafa endað með flís eða bjálka í augunum, eftir því hvaða heimildum er trúað. Ennfremur höfum við rekist á merka heimild sem greinir frá einstöku atviki í norðanverðri Evrópu, en þar var grjóti kastað úr steinhúsi. Það mun reyndar annað hvort hafa tengst skorti á víðsýni eða yfirgnæfandi heimssýn fremur en siðblindu. Rétt er að taka fram að heimildin er á fornu siðblindraletri og ekki víst að almenningur geti lesið hana sér til nokkurs gagns!

Þrátt fyrir að framangreind gögn taki ekki af allan vafa hefur ekkert komið fram sem bendir til að siðblinda verði leiðrétt á varanlegan máta. Hún er einfaldega talin ólæknanleg. En ekki er öll nótt úti enn. Með samstillu átaki er nú víða um heim reynt að leiðrétta þann forsendubrest sem siðblindan byggir meðal annars á. Siðferðileg rök byggja ávallt á forsendum sem geta reynst kolrangar. Hugsanatilraunir siðfræðinga hafa þannig flett ofan af lífseigum forsendum eins og þeirri að sannleikurinn sé sagna bestur. Siðblindingjar nýta sér til dæmis forsendur eins og þær að samfélagið sé ekki til og að afleiðingar athafna þeirra fyrir líf annars fólks skipti ekki máli. Slíka forsendubresti má auðveldlega leiðrétta þrátt fyrir að hegðun siðblindingjans sjálfs breytist ekki.

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að leiðréttingar á forsendubrestum, eins og þeirra sem hér hafa verið nefndir, eru ávallt sértækar og hefur það kallað á töluverða gagnrýni úr ýmsum áttum. Hafa gagnrýnendur því beitt fyrir sig af mikilli fimi réttlætisrökum, sanngirnisrökum og fáviskurökum (e. appeal to ignorance) til að kalla eftir almennum leiðréttingum þar sem öllum vel tryggðum siðferðilegum ályktunum verður kollvarpað og þær einfaldlega endurreiknaðar. Vandamálið við að ráðast í almennar leiðréttingar á siðferðilegum forsendum er að fjölmargir aðilar, sérstaklega erlendis frá, harðneita að taka þátt í slíkri aðgerð. Má þar til að mynda nefna fylgjendur páfans í Róm og stuðningsmenn enska heimspekingsins Johns Stuarts Mill. Þeir þvertaka fyrir að nokkur forsendubrestur hafi orðið í þeirra málflutningi, berja í brestina og þrjóskast við.

Rétt er að taka fram að þetta svar er föstudagssvar. Við eigum von á leiðréttu svari strax. Þeir sem nenna ekki að bíða geta fengið glýju í augun á meðan þeir lesa svar við spurningunni Ef gullið sem vitringarnir þrír gáfu Jesú Kristi hefði verið sett í banka, hversu mikils virði væri það í dag?

Mynd:

...