- Gunna veit ekki og telur sig ekki vita hvernig hún eigi að túlka samhengi og aðstæður: Hér veit Gunna ekkert hvaða kött Jón er að tala um. Kannski á hann marga ketti og hún veit ekki hvern þeirra hann á við. Kannski vissi hún ekki til þess að Jón ætti kött og orð hans koma henni þannig á óvart. Í stuttu máli má segja að Gunna skilji ekki það sem Jón er að segja.
- Gunna heldur að Jón eigi við köttinn Snúð en Jón á hins vegar við köttinn Snældu. Gunna telur sig skilja Jón en heldur, eftir að hafa heyrt orð Jóns, að Snúður sé týndur þegar Jón er að reyna að segja henni að Snælda sé týnd. Þetta er það sem við köllum misskilning.
- Gunna veit nákvæmlega hvaða kött Jón á við, hvar hann á heima og hvaða dagur er. Hún þykist hins vegar ekki vita það og setur orð hans í annað samhengi en hann ætlaðist til. Þetta er það sem við köllum útúrsnúning. Útúrsnúningur er oft notaður til gamans og getur verið skemmtilegur fyrir báða aðila. Stundum er útúrsnúningur notaður sem áróðursbragð eða til að hafa einhvern undir í kappræðum. Það þykir ekki eins skemmtilegt, að minnsta kosti ekki fyrir þann sem er að reyna að koma einhverju til skila án árangurs.
- Jón lætur af ásettu ráði sem samhengi orða hans sé annað en það er. Hugsum okkur að Jón og Gunna búi saman og eigi kött. Gunna kemur heim úr ferðalagi og Jón segir „Kötturinn hefur ekki komið heim í viku“. Gunna skilur hann sem svo að kötturinn þeirra sé týndur. Hún rekur svo augun í köttinn sem liggur makindalega í uppáhaldsstólnum sínum. Jón segist þá hafa átt við allt annan kött sem hann sá að auglýst var eftir, skellir sér á lær og hlær yfir því að hafa platað Gunnu. Þarna villir sá sem talar um fyrir viðmælandanum með því að gefa til kynna annað samhengi og beitir því sem við köllum blekkingu. Erfitt er að væna hann beinlínis um lygar því hann getur haldið því fram að um misskilning hafi verið að ræða hjá viðmælandanum, að hann hafi ekki vísvitandi ætlað að villa um fyrir honum. Blekkingar eru notaðar í ýmsum tilgangi, stundum sem stríðni og stundum til að hafa einhvers konar áhrif á hegðun viðmælanda eða veita einhverjum fyrirætlunum brautargengi.
- farm6.staticflickr.com/5202/5364789258_8633819190_o.jpg. (Sótt 4.10.2013).