Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaVísindavefurFöstudagssvarEf gullið sem vitringarnir þrír gáfu Jesú Kristi hefði verið sett í banka, hversu mikils virði væri það í dag?
Ýmis vandkvæði eru á að svara þessari spurningu. Einn vandinn liggur í því að ekki er ljóst hve mikið gull vitringarnir þrír færðu Jesú. Annar vandi liggur í því að ekki er augljóst hvaða vexti ætti að miða við til að reikna út hvernig gullið hefði ávaxtast í 2000 ár.
Engu að síður er vandalaust að leika sér með tölur. Útkoman verður þá alltaf sú að litlu skiptir hve lítið hefði verið lagt til hliðar fyrir 2000 árum og hve lágir vextir hefðu verið, hefðu þeir á annað borð verið jákvæðir; innstæðan væri núna orðin óheyrilega há upphæð. Skýringin er einfaldlega sú að uppsafnaðir vextir á 2000 árum verða alltaf mjög háir í hlutfalli við upphaflegu töluna. Upphæð sem liggur á reikningi sem ber fasta (og jákvæða) vexti, hækkar samkvæmt svokölluðum veldisvexti og á 2000 árum skilar það alltaf mikilli hækkun, nema vextirnir séu hverfandi, það er að segja nálægt núlli.
Gullforði í banka, ekki þó í eigu Jesú Krists.
Svo að dæmi sé tekið þá verður ein króna sem ávöxtuð er með 1% vöxtum að 440 milljónum króna á 2000 árum. Ef vextirnir eru 2% verður krónan að um 160 milljónum milljarða króna eða nánar tiltekið 158.614.732.760.369.000 krónum. Þjóðarframleiðsla Íslendinga er um 800 milljarðar króna á ári svo að þetta er um 200-þúsundföld sú upphæð.
Þess má einnig geta að talið er líklegt að silfurpeningarnir sem Júdas fékk fyrir svik sín hafi vegið rúm 14 grömm hver. Peningarnir voru 30 og hafa því vegið samtals rúm 400 grömm. Hefði það magn vaxið um 1% á ári í 2000 ár væri það nú hátt í 200 þúsund tonn. Það er álíka mikið og allur þorskafli Íslendinga árið 2002. Hefði vöxturinn verið 2% á ári væri silfrið nú hátt í 70 þúsund milljarðar tonna. Ef vextirnir hefðu verið 3% væri silfrið orðið þyngra en jörðin öll.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gylfi Magnússon. „Ef gullið sem vitringarnir þrír gáfu Jesú Kristi hefði verið sett í banka, hversu mikils virði væri það í dag?“ Vísindavefurinn, 31. október 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3828.
Gylfi Magnússon. (2003, 31. október). Ef gullið sem vitringarnir þrír gáfu Jesú Kristi hefði verið sett í banka, hversu mikils virði væri það í dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3828
Gylfi Magnússon. „Ef gullið sem vitringarnir þrír gáfu Jesú Kristi hefði verið sett í banka, hversu mikils virði væri það í dag?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3828>.