Sjáöldrin bregðast ekki aðeins við ljósi. Þau geta brugðist við sterkum tilfinningum, eins og ótta eða sorg, eða ef skyntaug er snert, til dæmis þegar maður finnur sársauka. Andleg áreynsla getur einnig haft áhrif, eins og þegar maður reynir að muna eitthvað eða þarf að einbeita sér. Sum lyf, eins og áfengi og ópíöt (til dæmis morfín, heróín og kódeín) valda minnkun sjáaldra, þar sem þau hafa áhrif á seftaugakerfið sem veldur samdrætti hringvöðvanna. Önnur lyf hafa áhrif á driftaugakerfið sem veldur samdrætti geislavöðvanna sem stuðlar að stækkun sjáaldra. Til þeirra lyfja heyra kókaín, meskalín, silocíbin (e. psilocybin) í ofskynjunarsveppum, LSD og amfetamín. Þetta er ein ástæða þess að þeir sem eru háðir þessum lyfjum bera gjarnan dökk sólgleraugu, þar sem lyfin valda útvíkkun sjáaldranna og birta verður því mjög óþægileg þegar sjáöldrin bregðast ekki eðlilega við henni. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Úr hverju er augað?
- Þegar við sjáum er allt á hvolfi en hvernig fer heilinn að snúa því við?
- Hvað er vitað um hraða sjónskynjunar?
Af hverju stækka og minnka augasteinarnir? Getur gleði, sorg, þreyta eða næringarleysi haft áhrif eða er það bara notkun lyfja sem hefur áhrif á stækkun og minnkun þeirra?Hér er einnig svarað spurningunni:
Geta augasteinar orðið mjög litlir við einhverja misnotkun lyfja eða efna?