Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sjónskynjun er flókið fyrirbrigði sem er erfitt að meta og mæla. Vísindamenn innan lífeðlisfræði og sálarfræði hafa unnið mikið starf á þessu sviði en ljóst er að enn er margt óljóst um hvernig mynd er unnin úr umhverfi okkar, það er að segja því sem við sjáum.
Mynd af því sem við horfum á er varpað á sjónhimnuna í gegnum hornhimnu og augastein, sem brjóta ljósið líkt og linsa á myndavél. Sjónhimnan (filman í myndavélinni) tekur við ljósinu og breytir því í taugaboð. Margar taugagerðir í sjónhimnunni umbreyta síðan boðunum og flytja þau til taugahnoðafruma (ganglion cells) sem flytja þau til svæðis í heilanum er kallast „corpus geniculatum laterale“. Þar eru boðin flutt til svæðis í hnakkablaði heilans (lobus occipitalis), sem er ýmist kallað „svæði 17“, eða sjónbörkur. Þaðan flytjast boðin til aðlægra svæða þar sem upplýsingarnar eru unnar enn frekar.
Því verður sjálfsagt aldrei unnt að svara til hlítar spurningunni um hversu langur tími líður á „milli þess að við sjáum eitthvað og heilinn túlkar það“. Þessi tími er háður mörgum breytum eins og birtustigi (fjöldi ljósskammta sem fer inn í augað), stærð þess sem við horfum á og fjarlægð frá auganu, gerð áreitis (stafir, mynd), fyrri þekking á áreiti (kunnugt/ókunnugt) og fleira og fleira.
Hins vegar er ljóst að við skynjum sum áreiti sem aðeins vara í 10 millisekúndur og bil á milli mismunandi áreita sem við skynjum getur farið allt niður í 10 millisekúndur (millisekúnda er einn þúsundasti partur úr sekúndu). Heilinn er miklu fljótari að vinna úr skynáreiti sem hann þekkir. Þar eru andlit til dæmis í sérflokki. Ef einstaklingi er sýnd röð af andlitum sem hann þekkir ekki tekur allnokkurn tíma að vinna úr þeirri sjónheild sem er samsett úr augum, nefi, munni og svo framvegis. Ef þekkt andlit er sýnt, tekur aðeins brot af þessum tíma að þekkja viðkomandi. Heilinn er leikinn við að stytta sér leiðirnar.
Ef áreitin eru mjög lík þarf heilinn lengri tíma til að greina mismuninn. Því virðast myndskeið sem við horfum á í sjónvarpi eða á breiðtjaldi samfelld, þótt myndirnar séu „aðeins“ 24 á sekúndu. Ef ein myndanna er ólík öllum hinum myndunum, getur heilinn skynjað þá mynd jafnvel þótt við verðum ekki vör við það. Það kallast neðanmarkaskynjun, eða „subliminal sensation“.
Fyrir nokkrum áratugum var mikill áhugi á því að auglýsa ýmsar vörur á þennan hátt, það er með því að sýna mynd af vörunni brot úr sekúndu, þannig að áhorfandinn varð ekki var við það en varð samt fyrir áhrifum frá auglýsingunni. Þetta var fljótlega bannað, þar sem talið var að þetta yrði hugsanlega notað í vafasömum tilgangi. Hins vegar hafa verið þróaðar aðferðir til að kenna til dæmis tungumál á þennan hátt með því að nýta hæfileika heilans til að grípa ólík endurtekin áreiti.
Leiðin frá því sem maður sér til viðbragðs tekur að meðaltali 160-170 millisekúndur. Þetta er þó ákaflega misjafnt og viðbragðsflýtir fólks er mjög mismunandi. Atvinnuíþróttamaður sýnir til dæmis miklu fljótari viðbrögð við áreiti en einstaklingur sem engar íþróttir stundar og auðvitað hafa ýmiss konar ytri aðstæður, svo sem sjúkdómar, áhrif á viðbragðsflýtinn. Hraðsjá (tachistoscope) kallast tæki sem er notað við að mæla viðbragðsflýti. Hún getur sýnt leifturmyndir með stillanlegri tímalengd. Með slíkum tækjum hefur viðbragðsflýtir atvinnumanna í íþróttum mælst allt niður í 30 millisekúndur. Atvinnuboxarinn gamli, Joe Frazier, gat rotað andstæðing sinn á 60 millisekúndum!
Spurning ritstjórnar var sem hér segir:
Hvað líður langur tími frá því að við sjáum eitthvað og þar til heilinn túlkar það?
Spurning Gylfa Ólafssonar var þessi:
Hversu oft á sekúndu uppfærir augað myndina sem það sér, eða raunar sem heilinn sér?
Jóhannes Kári Kristinsson. „Hvað er vitað um hraða sjónskynjunar?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=307.
Jóhannes Kári Kristinsson. (2000, 30. mars). Hvað er vitað um hraða sjónskynjunar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=307
Jóhannes Kári Kristinsson. „Hvað er vitað um hraða sjónskynjunar?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=307>.