Í ópíumi eru mörg efnasambönd og meðal þeirra eru svokölluð ópíöt (e. opiates) sem hafa mikla lyfjaverkun. Til þeirra teljast morfín, kódeín og petidín. Öll þessi efnasambönd hafa sterk verkjastillandi áhrif og eru mest notuð í læknisfræðilegum tilgangi. Efni skyld morfíni eru mynduð í heila okkar. Þau kallast endorfín (e. endorphines) en það er stytting á „endogenous morphines“ sem þýðir innræn morfín. Lesa má meira um endorfín í svari sama höfundar við spurningunni Hefur endorfín sömu áhrif og vímuefni á líkamann? Eins og öll önnur ópíöt hefur morfín bein áhrif á miðtaugakerfið og eru þau helstu að lina sársauka eins og áður sagði. Aukaverkanir eru sljóvgun, sælutilfinning, svefnhöfgi og óskýr sjón. Það deyfir einnig hungurtilfinningu, stillir hóstaviðbragðið og veldur hægðatregðu. Þegar morfín er ekki notað í læknisfræðilegum tilgangi sem verkjastillandi lyf er það mjög ávanabindandi og þol gagnvart efninu og fíkn í það myndast fljótt, bæði líkamleg og andleg. Morfín er til í ýmsum formum. Það er gefið í æð, undir húð eða í mænu. Ef það er gefið inn um munn er það á formi safts eða í töflum, þótt slík notkun sé sjaldgæf þar sem kódeín er virkara á því formi. Þess vegna er kódeín í hóstasöftum en ekki morfín. Notkun morfíns er lögleg til að lina mikinn, gnístandi sársauka, til dæmis eftir skurðaðgerð eða bruna, og til að lina þrálátan sársauka sem getur fylgt ýmsum sjúkdómum til dæmis krabbameinum á lokastigum. Einnig er notkun þess leyfð sem hjálparefni við svæfingar, í mænudeyfingum og í líknarmeðferð.
Morfín var fyrst einangrað úr ópíumi í byrjun 19. aldar af þýska lyfjafræðingnum Friedrich Wilhelm Adam Serturner. Hann nefndi efnið morfín eftir Morfeusi, guði drauma í grískri goðafræði. Morfínnotkun náði ekki útbreiðslu fyrr en eftir miðja 19. öld þegar sprautunálin kom fram. Í fyrstu var efnið notað í verkjastillandi tilgangi og, eins kaldhæðnislegt og það nú er, sem „lækning“ við alkóhól- og ópíumfíkn. Það var mikið notað í þrælastríðinu í Bandaríkjunum sem leiddi til þess að 400.000 einstaklingar fengu „hermannaveiki“ sem var í raun morfínfíkn. Heróín var myndað úr morfíni í fyrsta sinn árið 1874. Tilgangurinn var að mynda afleiðu af morfíni sem væri jafn góður verkjastillir, ef ekki betri, en ekki eins ávanabindandi. Efnið reyndist hins vegar slá morfínið út hvað báða eiginleika varðar. Vegna þessara ávanabindandi eiginleika hefur heróín ekki mikið verið notað í læknisfræðilegum tilgangi. Það er þó til dæmis notað í Bretlandi sem lyf við mjög sterkum verkjum líkt og morfín, og gengur þá undir heitinu diamorphine. Heimildir og myndir: