Hvernig er hugtakið erfðaorð skilgreint? Eru öll orð sem landnámsmenn notuðu erfðaorð eða hvað er átt við með hugtakinu? Voru engin tökuorð í málinu þá?Með hugtakinu erfðaorð er átt við orð sem hafa verið í málinu frá upphafi og eiga sér norrænar rætur, það er hægt er að rekja þau til frumnorrænna orða. Það er því ekki þannig að öll orð sem koma fyrir í fornum textum eins og Íslendingasögum falli undir skilgreininguna erfðaorð vegna þess að á öllum tímum hafa verið í málinu tökuorð af öðrum uppruna. Vissulega virðast fremur fá tökuorð hafa verið í máli landnámsfólks en þó má nefna algeng orð eins og akkeri, kista, tafla, klæði, herbergi og vín sem mörg hver eru komin í norrænu úr vesturgermönskum málum og oft upprunalega úr latínu.

Maður, hestur, sverð eru allt dæmi um erfðaorð, það er orð sem hafa verið í málinu frá upphafi og eiga sér norrænar rætur. Fá tökuorð voru í máli landnámsfólks en algeng orð eins og klæði og herbergi eru þó dæmi um slíkt. Myndin er úr Heynesbók, handriti Jónsbókar frá 1525-1550.
- AM 147 4to - Handrit.is. (Sótt 11.02.2025).