Þótt Fjósakonurnar séu áberandi komast þær ekki í hálfkvisti við Rígel og Betelgás sem eru meðal björtustu stjarna á himinhvelfingunni. Betelgás virðist appelsínugul og er ein af fáum stjörnum sem sýna annan lit en hvítan. Þar fer saman að hún er rauður ofurrisi og svo björt á himninum að hún nær að virkja litfrumur augans sem liggja yfirleitt í dvala í náttmyrkrinu. Þótt Rígel sé bjartari en Betelgás er hún hvít að lit og sker sig ekki úr meðal stjarnanna. Fjósakonurnar í belti Óríons benda niður á við í átt til Síríusar í stjörnumerkinu Stórahundi. Hún er bjartasta sólstjarnan á næturhimninum en tindrar oft með ýmsum litbrigðum vegna þess að ljósið frá henni þarf að fara langa leið í gegnum lofthjúpinn. Síríus myndar svonefndan Vetrarþríhyrning með Betelgás í Óríon og stjörnunni Prókýon í stjörnumerkinu Litlahundi. Ef dregin er lína upp á við frá Fjósakonunum þá liggur hún í átt að stjörnuþyrpingunni Sjöstirninu í Nautsmerkinu. Þyrpingin er auðþekkt sem glitrandi ský og yfirleitt sér fólk að minnsta kosti sex stjörnur með berum augum sem raða sér upp í lítinn Karlsvagn. Í handsjónauka eða stjörnusjónauka koma strax í ljós tugir stjarna sem eru í þyrpingunni en í henni eru yfir þúsund stjörnur þótt stór hluti þeirra sjáist ekki í sjónpípum áhugamanna. Sjöstirnið er prýðilegur byrjunarreitur fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í stjörnuskoðun á þessum árstíma, hvort sem það er með berum augum eða sjóntækjum. Gaman er að geta þess hér að Sjöstirnið nefnist Subaru á japönsku enda birtast sex björtustu stjörnurnar í merki bifreiðaframleiðandans. Nokkru neðan við Sjöstirnið er appelsínugul stjarnan sem nefnist Aldebaran. Hún er bjartasta stjarnan í Nautsmerkinu og líkt og Betelgás í Óríon er hún nægilega björt til þess að örva litfrumur augans. Nokkrar daufari stjörnur í kringum Aldebaran tilheyra stjörnuþyrpingu sem nefnist Regnstirnið. Það er auðþekkt á því að björtustu stjörnurnar mynda v-laga mynstur. Þótt Aldebaran sé í sömu sjónlínu þá er hún miklu nær okkur en þyrpingin og ekki hluti af henni. Regnstirnið er næsta stjörnuþyrpingin við sólina okkar og nær yfir myndarlegt svæði á himninum. Gaman er að bera stærð Regnstirnisins á himninum saman við stærð Sjöstirnisins sem er þrisvar sinnum lengra í burtu. Margt fleira er að sjá á þessum árstíma og má þar nefna aðalstjörnurnar í Tvíburunum, Kastor og Pollux sem eru hátt á himni. Það hefur oft gerst að stjörnuáhugamenn hafi ruglað þeim saman við stjörnurnar í Litlahundi, Prókýon og Gómeisu en það er meira jafnræði í ljósstyrk á milli Tvíburanna en hjá stjörnunum í Litlahundi. Í Tvíburamerkinu og Ökumanninum er að finna nokkrar þyrpingar úr Messier-skránni sem eru tilvaldar fyrir skoðun í stjörnusjónauka. Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um stjörnufræði sem fróðlegt er að skoða, til dæmis við spurningunum:
- Hversu stóran kíki þarf ég til að geta skoðað stjörnurnar?
- Hvað eru til mörg stjörnumerki í himinhvolfinu?
- Hvar er best að sjá norðurljós nálægt höfuðborgarsvæðinu og hvernig er hægt að vita hvenær þau eru á lofti?
- Stjörnufræðivefurinn. Sótt 22. 10. 2009.