Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jan Mayen er lítil eyja um 600 km norðaustur af Íslandi, 500 km austur af Grænlandi og um 1000 km í vestur frá Noregi. Eyjan er aflöng, um 55 km löng frá suðvestri til norðausturs og er flatarmál hennar um 373 km2. Jan Mayen skiptist í tvennt og eru hlutarnir tengdir saman með mjóu eiði. Norðaustur hlutinn kallast Nord-Jan. Helsta og mesta kennileitið þar er fjallið Beerenberg, 2277 m há eldkeila með jökulhettu efst. Fjallið er nyrsta virka eldfjall jarðar og gaus síðast árið 1985. Suðvestur hlutinn kallast Sør-Jan og er sá hluti mun lægri, flatlendari og án jökla.
Öldum saman var Jan Mayen einskismannsland. Norðmenn gerðu tilkall til eyjarinnar í upphafi 3. áratugar síðustu aldar þegar þeir reistu þar veðurathugunarstöð. Árið 1930 varð eyjan svo formlega hluti af Noregi.
Ekki er ljóst hvenær menn vissu fyrst af Jan Mayen en til eru þeir sem telja að írskir munkar hafi séð til eyjarinnar á 6. öld þótt engar sannanir séu fyrir því. Þá er talið að víkingar hafi þekkt til eyjarinnar en þeir skildu ekki eftir sig nein ummerki þar.
Fyrstur skráðu heimildir um heimsóknir manna til Jan Mayen eru frá því snemma á 17. öld þegar enskir og hollenskir hvalfangarar sigldu um norðurslóðir í leit að nýjum miðum. Til að byrja með gekk eyjan undir ýmsum heitum en fljótlega festist nafnið Jan Mayen við hana, eftir Jan Jacobszoon May, einum af fyrstu hollensku skipstjórunum sem þangað komu árið 1614.
Í nokkra áratugi eftir að hvalfangarar uppgötvuðu Jan Mayen voru stundaðar miklar hvalveiðar þar í kring. Hollendingar komu sér upp bækistöðvum í landi þar sem hægt var að bræða hvalspikið og komu hundruðir manna að þessari starfsemi þegar mest var. Veiðar og vinnsla voru aðeins yfir sumartímann en veturinn 1633-1634 héldu þó sjö menn til þar. Þeir áttu að gæta búðanna þar sem baskneskir hvalfangarar höfðu eyðilagt yfirgefnar bækistöðvar Hollendinga veturinn áður. Þeir lifðu hins vegar ekki af veturinn, dóu líklega úr skyrbjúg. Um þetta leyti var tekið að draga úr veiðunum sökum álags á stofna og fór svo að hvalveiðarnar lögðust alveg af 1642.
Legstaður þeirra Hollendinga sem fyrstir manna höfðu vetursetu á Jan Mayen.
Í rúmar tvær aldir frá því að hvalveiðum lauk heimsóttu fáir Jan Mayen. Fyrsta alþjóðaár heimskautasvæðanna (International Polar Year) 1882-1883 dvaldi austurrískur rannsóknarleiðangur í ár á Jan Mayen, kortlagði eyjuna og rannsakaði náttúru hennar. Þetta var fyrsta vetursetan frá því að Hollendingarnir sjö báru þar beinin. Eftir aldamótin 1900 hófu Norðmenn refaveiðar á Jan Mayen og höfðu þá þrír til sex veiðimenn þar vetursetu. Auk refa veiddu þeir hvítabirni þegar tækifæri gafst. Þegar best lét veiddust allt að 300 refir á ári en stofninn þoldi ekki þetta álag og lögðust þessar miklu veiðar af á þriðja áratugi aldarinnar.
Norðmenn reistu veðurathugunarstöð á Jan Mayen árið 1921 og hefur sú starfsemi verið óslitin síðan, ef undan er skilinn veturinn 1940-1941 þegar stöðin var yfirgefin vegna styrjaldarástands. Um áratuga skeið var rekin þar strandstöð (loftskeytastöð) og frá 1959 til 2015 var þar lóranstöð á vegum NATÓ.
Byggðin (sem kannski ætti frekar að kalla búðir) á Jan Mayen kallast Olonkinbyen. Yfir vetrartímann dvelja þar 18 manns, allt starfsfólk veðurstöðvarinnar eða norska hersins. Þessir starfsmenn eru ekki með varanlega búsetu á eyjunni heldur dvelja þar ýmist í hálft eða eitt ár. Yfir sumarið fjölgar í eyjunni og þar dvelja allt að 35-40 manns sem sinna ýmiskonar viðhaldi.
Olonkinbyen á Jan Mayen.
Samgöngur á milli lands og eyjar eru ekki mjög greiðar. Á Jan Mayen er flugbraut án bundins slitlags og sér norski herinn um flug þangað átta sinnum á ári. Flugbrautin er ekki opin fyrir almennt áætlunarflug. Engin höfn er á Jan Mayen heldur þarf að flytja allt sem kemur sjóleiðina, hvort sem það er fólk eða varningur, á léttabátum í land.
Jan Mayen er að mestu leyti náttúruverndarsvæði. Norðmenn mega heimsækja eyjuna án leyfis en aðrir sem hafa áhuga á að heimsækja og jafnvel dvelja þar þurfa sérstakt leyfi.
Heimildir og myndir:
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Jan Mayen?“ Vísindavefurinn, 29. janúar 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53898.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2019, 29. janúar). Hvað getið þið sagt mér um Jan Mayen? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53898
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Jan Mayen?“ Vísindavefurinn. 29. jan. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53898>.