Auðvitað vill almenningur frekar tala við vini sína en borða þá og því kemur kjöt ætlað til manneldis af sérstökum bóndabæjum. Þar eru grillpinnarnir aldir sérstaklega með matreiðslu í huga, svipað og hundar eru ræktaðir til eldunar víða í Asíu. Verðandi mannslundirnar lifa þar í góðu yfirlæti, án alls sambands við umheiminn sem gerði þeim ef til vill erfitt að sætta sig við hlutskipti sitt, þar til þeim er slátrað, pakkað og afurðir þeirra sendar í verslanir. Þetta sérræktaða fólk er þess vegna ómannblendið með eindæmum, nema þegar það er á boðstólum nýrra heilsustaða sem bjóða upp fyrirtaks mannblendi úr svonefndum blenderum. Nokkur kjúklingabú hér á landi hafa sýnt manneldi mikinn áhuga, en enn er eitthvað í að skipulögð mannverkun hefjist hér á landi. Landsmenn þurfa þó ekki að fara á mis við þessa sérdeilis prýðilegu mataruppsprettu, sem er sannarlega velkomin búbót á þessum síðustu og verstu tímum, heldur getur fólk einfaldlega gætt sér á villibráð þangað til að opinbert ríkiseldi kemst á laggirnar. Fróðir menn segja líka að bragðbesti maturinn sé sá sem maður veiðir sjálfur. Væna villibráð má oft finna í almenningsgörðum eða fáförnum hliðargötum síðla nætur og hraust fólk vílar varla fyrir sér að hlaupa kvöldmatinn uppi. Skósalar í betri íþróttabúðum segja að töluverð aukning sé á góðum hlaupaskóm til þessara verka. Eins er áberandi að golfkylfur hafa selst vel síðustu misseri því þær þykja duga vel til að veita náðarhöggið, en þeir sem koma af betri millistéttarheimilum og hafa lært á slaghörpu á yngri árum nota hins vegar oft píanóvír til veiðanna. Til að losna við allar bakteríur og aðra óværu er ráðlegt að elda mannakjöt vel. Sjálfu þykir starfsfólki Vísindavefsins gott að útbúa kótilettur úr veiðinni, grilla þær á hvorri hlið í fimm mínútur, og bera fram með bökuðum kartöflum og eplasósu. Namminamm. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Er jörðin flöt?
- Geta uppvakningar orðið til?
- Útskýrið í stuttu máli hverjir eru helstu kostir og gallar þess að vísindamenn breyti mannkyninu í hreina orku?
Við bendum þeim sem ekki hafa fattað það að þetta svar er föstudagssvar. Lesendur sem taka eitthvað við svarið alvarlega gera það algjörlega á eigin ábyrgð. Þeim sem finnst mannát ekkert aðhlátursefni geta skoðað svar Arnars Árnasonar við spurningunni Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær?