Eftir því sem fleiri starfsmenn Raunvísindastofnunar tóku þátt í umræðunni kom betur og betur í ljós að enginn vissi í raun og veru hvernig jörðin var í laginu. Þetta var með öllu ótækt ástand og Vísindavefurinn gekk í málið. Fyrsta skrefið var það sama og alltaf þegar að okkur vantar að vita eitthvað: við hringdum í mömmu. Eftir símtalið vissum við að Stína frænka er enn að jafna sig eftir slæma flensu, að við komum ekki nógu oft í heimsókn, og að við ættum að fara að finna okkur góðan mann eða konu (breytilegt eftir kyni og kynhneigð starfsmanna) því að mamma verður jú ekki yngri og hana langar í barnabörn eins og Gunna vinkona hennar á. Við vissum hins vegar ekkert meira um lögun jarðarinnar og rökræður um það héldu því áfram. Stök skynsemisrödd barst nú yfir kliðinn og benti á að ef maður horfir út um gluggann þá lítur jörðin út fyrir að vera flöt. Eftir að hugrakkur starfsmaður bauðst til að fara út og gá komumst við að því að það sama gildir alveg sama í hvaða átt maður horfir. Í kjölfar þess smíðuðum við þá vísindalegu tilgátu að jörðin sé í raun og veru flöt. Það eina sem var eftir að gera var að prófa þessa tilgátu með tilraunum.
- Hver er þessi frú í Hamborg og af hverju er hún að gefa okkur peninga?
- Er rauðhært fólk með gleraugu gáfaðra en annað fólk?
- Hvernig finnur maður draumaprinsessuna sína?
Við bendum þeim sem ekki hafa áttað sig á því að þetta svar er föstudagssvar. Lesendur sem taka eitthvað í svarinu alvarlega gera það algjörlega á eigin ábyrgð. Þeir sem vilja meiri alvöru í umfjöllun um lögun jarðar ættu að skoða svar við spurningunni Er búið að sanna að jörðin sé ekki flöt? Er það yfir höfuð hægt?