Við það að breyta hverri einustu manneskju í heiminum í orku fást þá um það bil 4,22 * 1028 júl samkvæmt Einstein. Þessi gríðarlega orka verður að teljast einn helsti kostur þess að breyta öllu mannkyninu í orku! Ein og sér segir talan þó flestum lítið, svo við skulum setja hana í skynsamlegt samhengi. Þessi mikla orka dugir til að hafa kveikt á einni 60 vatta ljósaperu í um það bil 22 milljón milljón milljón ár. Til samanburðar er talið að aldur alheimsins sé um 13.000 milljón ár. Helsti kostur þess að breyta öllu mannkyninu í orku er því að geta haldið góðu lesljósi gangandi eins lengi og þörf gæti mögulega verið á. Spyrjandi vill einnig fá að vita hvaða ókostir fylgi því að breyta mannkyninu í hreina orku. Í fljótu bragði sjáum við enga galla við það. Nær allir vísindamenn sem stunda rannsóknir og mælingar á þessu sviði eru okkur sammála. Einn og einn svartur sauður hefur þó bent á að það gæti talist galli að enginn sé þá eftir til að lesa við ljósið, þar sem aðgerðin hefur óneitanlega í för með sér útrýmingu mannkynsins. Sú mótbára er þó léttvæg. Flestir telja það til dæmis ekki eftir sér að láta ljós loga heima hjá sér þótt þar sé enginn að lesa við ljósið! Við teljum þess vegna fullljóst að engir ókostir fylgi því að vísindamenn breyti mannkyninu í hreina orku. Þeir sem vilja fræðast meira um heillandi rannsóknir á þessu sviði geta skoðað vefsetur vísindamanna á rannsóknarmiðstöð við Bolognaháskóla c=mE2. Ef hlekkurinn virkar ekki þá er mjög líklegt að vísindamennirnir séu búnir að breyta sjálfum sér í hreina orku. Heimildir og mynd:
- Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein? eftir Sævar Helga Bragason.
- Meðalþyngd manna áætluð á Articleworld.
- Grein á Wikipedia um fólksfjölda í heiminum.
- Management Skills in Science
Segjum að vísindamenn gætu umbreytt mannkyninu í orku. Hverjir yrðu helstu kostir og ókostir þess?
Við bendum þeim sem enn hafa ekki kveikt á perunni að þetta svar er föstudagssvar. Lesendur sem taka eitthvað í því alvarlega gera það algjörlega á eigin ábyrgð.