Í kenningunni er ekki litið svo á að þyngdarkraftar verki milli hluta heldur er þyngdaráhrifum lýst út frá rúmfræðilegum eiginleikum tíma og rúms. Í sígildri eðlisfræði er hreyfing hluta í þrívíðu evklíðsku rúmi mæld í algildum tíma, sem tifar áfram óháð öllu sem fram fer. Í afstæðiskenningunni er rúmi og tíma fléttað saman í eina heild, svonefnt tímarúm sem hefur fjögur hnit: þrjú rúmhnit og eitt tímahnit. Jöfnur Einsteins lýsa því hvernig efnið, eða réttara sagt sú orka sem fólgin er í efninu, hefur áhrif á tímarúmið.Einstein innleiddi svonefnt almennt afstæðislögmál til grundvallar þessari kenningu. Samkvæmt þessu lögmáli eru allir athugendur jafnréttháir, þótt þeir hreyfist ekki með jöfnum hraða innbyrðis og hefur það ýmsar skrýtnar afleiðingar í för með sér. Afstæðiskenningin bylti vísindunum og er í dag ómissandi hjálpartæki öllum þeim sem vinna að rannsóknum á alheiminum. Hún getur snert skilning okkar á ýmsum flötum daglegs lífs sem eru kannski ekki ofarlega í hugum okkar á hverjum degi. Þannig væri GPS-staðsetningarkerfið óhugsandi án afstæðiskenningarinnar svo dæmi sé tekið. Þú getur lesið nánar um afstæðiskenninguna í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvernig „verkar“ afstæðiskenning Einsteins? Hvernig getur hún útskýrt betur hvað er að gerast í alheiminum? Einnig bendum við á góða umfjöllun NOVA um Einstein og hugmyndir hans.
Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?
Útgáfudagur
4.5.2005
Spyrjandi
Nemendur í Laugalækjarskóla
Tilvísun
Sævar Helgi Bragason. „Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4984.
Sævar Helgi Bragason. (2005, 4. maí). Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4984
Sævar Helgi Bragason. „Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4984>.