Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru sum ský hvít en önnur grá?

Trausti Jónsson

Ský endurkasta hluta af því ljósi sem á þau fellur, ljósið kemur ýmist beint frá sólu eða er endurkast frá himni, jörð eða öðrum skýjum. Ský, sem sólarljósið skín á, virðast oftast hvít, en önnur virðast grá.

Litir hlutar ráðast af bylgjulengd þess ljóss sem þeir endurkasta, rauðir hlutir endurkasta rauða hluta litrófsins og bláir þeim bláa. Ef hlutir endurkasta öllu litrófinu í senn virðast þeir hvítir. Sólarljósið er að mestu hvítt því þar blandast allir litir saman.

Þegar sól skín í heiði er erfitt að finna henni lit því ljós hennar er svo sterkt að það blindar alla. Þegar sólarljósið rekst á sameindir loftsins dreifist það, bláa ljósið dreifist langmest þannig að himinninn sýnist blár eins og lesa má um í svari Ara Ólafssonar við spurningunni Af hverju er himinninn blár?

Ský eru ýmist samsett úr ógrynni örsmárra vatnsdropa eða ískristalla. Þegar sólarljós hittir fyrir smáan vatnsdropa endurkastast það að hluta til á yfirborði hans, en að hluta inni í honum (lesa má um regnbogann í svari Ara Ólafssonar við spurningunni Hvernig myndast regnboginn?) Endurkastið frá skýjunum hefur þann lit sem yfirgnæfandi er í þeim geislum sem skýið „sér“. Skýin velja ekki ákveðnar bylgjulengdir fram yfir aðrar, þau taka það sem að þeim er rétt.



Litur skýja ræðst af því hvers miklu ljósi þau endurkasta og hvaðan ljósið sem á þau fellur er komið.

Talsvert sólarljós berst í gegnum flest ský, ef svo væri ekki væri alltaf niðamyrkur í alskýjuðu veðri. Efra borð skýjanna (sem við sjáum ekki) er þá búið að endurvarpa hluta sólarljóssins út í geiminn, það sem fer í gegnum skýið er miklu miklu minna, en af því að skýin velja ekki bylgjulengdir verður liturinn sem við sjáum grár.

Ský, sem endurkasta ljósi sem komið er milliliðalaust frá sólinni, virðast skjannahvít, þó er það svo að nær öll ský myndu sýnast grá í samanburði við alveg hvítan hlut. Sjáum við samtímis ský sem lýst eru beint af sól og önnur sem endurkasta ljósi frá öðrum skýjum eru sólarlýstu skýin hvít, en hin virðast vera grá (hvíti liturinn er mun daufari). Stundum sjáum við samtímis ský sem lýst eru beint af sól, en líka af ljósi frá öðrum skýjum. Þá virðast sólarlýstu skýin grárri en þau sem eru bæði lýst beint og fá viðbótarljós frá öðrum skýjum.

Þetta síðara tilvik er ekki óalengt í miklu skúraveðri, hlutar skúraklakkanna verða þá óvenjuhvítir, en aðrir hlutar þeirra óvenjudökkir, dökkgráir eða nærri því svartir að okkur finnst. Dökkgráu hlutarnir eru einnig að endurkasta hvítu ljósi en bara mun minna en hinir hvítu. Mjög bólgin þrumuský, 10 til 15 km þykk, hleypa mjög litlu ljósi í gegnum sig, þá verður nær almyrkvað um miðjan dag. Slíkt ástand er mjög sjaldgæft hér á landi, gerist helst í öskufalli.

Venjulega er ekki nema hluti þeirra skýja sem við sjáum lýstur beint upp af sólinni, heldur er sólarljósið búið að endurkastast af öðrum skýjum, jörðinni eða jafnvel af öðrum hlutum himinsins. Í geislunum frá himninum er blái liturinn yfirgnæfandi. Ský sem lýst eru eingöngu af honum geta þá sýnst gráblá. Að kvöldlagi verða ský rauðleit því þá sýnist sólarljósið rauðara og litur himinsins þar með rauðari (sjá áðurnefnt svar um bláma himinsins). Allt ljós sem á skýin fellur er því rauðleitt. Ský, sem lýst eru upp af endurköstuðu ljósi frá jörðu, eru yfirleitt dökk (þó hvít í snjó), bæði er endurkast frá gróðri eða auðri jörð ekki mikið og endurkastið ekki lengur hvítt.

Endurkast frá jörðu er oft mjög greinilegt að vetrarlagi þegar snjór hylur jörð en sjór er alauður. Skýjabotnar yfir landi eru þá hvítir, en dökkir yfir sjónum. Þegar mikill hafís nálgast Norðurland má sjá mikið endurkast af ísnum á himni, svonefnt ísblik, þótt ísinn sé enn neðan sjóndeildarhrings. Jón Sveinsson, Nonni, lýsir þessu á mjög eftirminnilegan hátt í bókum sínum um Nonna og Manna, en æskuár Nonna á Akureyri voru flest mikil ísaár. Ísblik getur einnig sést í skýjum yfir hálendinu þegar það er snævi þakið, jafnvel þegar við höfum ekki útsýn til þess.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: FreeStockPhotos.com. Sótt 5. 10. 2009.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

6.10.2009

Spyrjandi

Sara Björk Sverrisdóttir, f. 1996

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Af hverju eru sum ský hvít en önnur grá?“ Vísindavefurinn, 6. október 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53268.

Trausti Jónsson. (2009, 6. október). Af hverju eru sum ský hvít en önnur grá? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53268

Trausti Jónsson. „Af hverju eru sum ský hvít en önnur grá?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53268>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru sum ský hvít en önnur grá?
Ský endurkasta hluta af því ljósi sem á þau fellur, ljósið kemur ýmist beint frá sólu eða er endurkast frá himni, jörð eða öðrum skýjum. Ský, sem sólarljósið skín á, virðast oftast hvít, en önnur virðast grá.

Litir hlutar ráðast af bylgjulengd þess ljóss sem þeir endurkasta, rauðir hlutir endurkasta rauða hluta litrófsins og bláir þeim bláa. Ef hlutir endurkasta öllu litrófinu í senn virðast þeir hvítir. Sólarljósið er að mestu hvítt því þar blandast allir litir saman.

Þegar sól skín í heiði er erfitt að finna henni lit því ljós hennar er svo sterkt að það blindar alla. Þegar sólarljósið rekst á sameindir loftsins dreifist það, bláa ljósið dreifist langmest þannig að himinninn sýnist blár eins og lesa má um í svari Ara Ólafssonar við spurningunni Af hverju er himinninn blár?

Ský eru ýmist samsett úr ógrynni örsmárra vatnsdropa eða ískristalla. Þegar sólarljós hittir fyrir smáan vatnsdropa endurkastast það að hluta til á yfirborði hans, en að hluta inni í honum (lesa má um regnbogann í svari Ara Ólafssonar við spurningunni Hvernig myndast regnboginn?) Endurkastið frá skýjunum hefur þann lit sem yfirgnæfandi er í þeim geislum sem skýið „sér“. Skýin velja ekki ákveðnar bylgjulengdir fram yfir aðrar, þau taka það sem að þeim er rétt.



Litur skýja ræðst af því hvers miklu ljósi þau endurkasta og hvaðan ljósið sem á þau fellur er komið.

Talsvert sólarljós berst í gegnum flest ský, ef svo væri ekki væri alltaf niðamyrkur í alskýjuðu veðri. Efra borð skýjanna (sem við sjáum ekki) er þá búið að endurvarpa hluta sólarljóssins út í geiminn, það sem fer í gegnum skýið er miklu miklu minna, en af því að skýin velja ekki bylgjulengdir verður liturinn sem við sjáum grár.

Ský, sem endurkasta ljósi sem komið er milliliðalaust frá sólinni, virðast skjannahvít, þó er það svo að nær öll ský myndu sýnast grá í samanburði við alveg hvítan hlut. Sjáum við samtímis ský sem lýst eru beint af sól og önnur sem endurkasta ljósi frá öðrum skýjum eru sólarlýstu skýin hvít, en hin virðast vera grá (hvíti liturinn er mun daufari). Stundum sjáum við samtímis ský sem lýst eru beint af sól, en líka af ljósi frá öðrum skýjum. Þá virðast sólarlýstu skýin grárri en þau sem eru bæði lýst beint og fá viðbótarljós frá öðrum skýjum.

Þetta síðara tilvik er ekki óalengt í miklu skúraveðri, hlutar skúraklakkanna verða þá óvenjuhvítir, en aðrir hlutar þeirra óvenjudökkir, dökkgráir eða nærri því svartir að okkur finnst. Dökkgráu hlutarnir eru einnig að endurkasta hvítu ljósi en bara mun minna en hinir hvítu. Mjög bólgin þrumuský, 10 til 15 km þykk, hleypa mjög litlu ljósi í gegnum sig, þá verður nær almyrkvað um miðjan dag. Slíkt ástand er mjög sjaldgæft hér á landi, gerist helst í öskufalli.

Venjulega er ekki nema hluti þeirra skýja sem við sjáum lýstur beint upp af sólinni, heldur er sólarljósið búið að endurkastast af öðrum skýjum, jörðinni eða jafnvel af öðrum hlutum himinsins. Í geislunum frá himninum er blái liturinn yfirgnæfandi. Ský sem lýst eru eingöngu af honum geta þá sýnst gráblá. Að kvöldlagi verða ský rauðleit því þá sýnist sólarljósið rauðara og litur himinsins þar með rauðari (sjá áðurnefnt svar um bláma himinsins). Allt ljós sem á skýin fellur er því rauðleitt. Ský, sem lýst eru upp af endurköstuðu ljósi frá jörðu, eru yfirleitt dökk (þó hvít í snjó), bæði er endurkast frá gróðri eða auðri jörð ekki mikið og endurkastið ekki lengur hvítt.

Endurkast frá jörðu er oft mjög greinilegt að vetrarlagi þegar snjór hylur jörð en sjór er alauður. Skýjabotnar yfir landi eru þá hvítir, en dökkir yfir sjónum. Þegar mikill hafís nálgast Norðurland má sjá mikið endurkast af ísnum á himni, svonefnt ísblik, þótt ísinn sé enn neðan sjóndeildarhrings. Jón Sveinsson, Nonni, lýsir þessu á mjög eftirminnilegan hátt í bókum sínum um Nonna og Manna, en æskuár Nonna á Akureyri voru flest mikil ísaár. Ísblik getur einnig sést í skýjum yfir hálendinu þegar það er snævi þakið, jafnvel þegar við höfum ekki útsýn til þess.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: FreeStockPhotos.com. Sótt 5. 10. 2009....