Þó Tindafjallajökull sé sennilega minnst kannaða eldfjall á Íslandi, er það einmitt sú eldstöð sem líklega hefur gosið stærsta sprengigosi sem vitað er um hér á landi. Það voru reyndar ekki jarðfræðiathuganir á landi, heldur rannsóknir á setlögum á hafsbotni suður í Atlantshafi árið 1941 sem gáfu fyrstu vísbendingar um mikið sprengigos á Atlantshafssvæðinu á ísöld. Frekari kannanir sýndu að rekja má mikla öskudreif á hafsbotni allt frá svæðinu fyrir norðan Azoreyjar og til Íslands, og hlaut hún nafnið Öskusvæði-2. Síðan var sýnt fram á að efnasamsetning glers eða tinnu í öskunni er sú sama og í gjóskuflóðsmyndun í Þórsmörk, en hún var komin úr Tindafjallajökli.[1]

Tindafjallajökull ber þess merki að þar hefur orðið stórgos. Hringlaga myndun fjallsins er eftir öskjusig í kjölfar mikils sprengigoss.
- ^ Haraldur Sigurðsson, John Stix, Bruce Houghton, Stephen R. McNutt og Hazel Rymer ritstjórar, 1999. Encyclopedia of Volcanoes. Academic Press, San Diego.
Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Myndin er úr sama riti.