Þó Tindafjallajökull sé sennilega minnst kannaða eldfjall á Íslandi, er það einmitt sú eldstöð sem líklega hefur gosið stærsta sprengigosi sem vitað er um hér á landi. Það voru reyndar ekki jarðfræðiathuganir á landi, heldur rannsóknir á setlögum á hafsbotni suður í Atlantshafi árið 1941 sem gáfu fyrstu vísbendingar um mikið sprengigos á Atlantshafssvæðinu á ísöld. Frekari kannanir sýndu að rekja má mikla öskudreif á hafsbotni allt frá svæðinu fyrir norðan Azoreyjar og til Íslands, og hlaut hún nafnið Öskusvæði-2. Síðan var sýnt fram á að efnasamsetning glers eða tinnu í öskunni er sú sama og í gjóskuflóðsmyndun í Þórsmörk, en hún var komin úr Tindafjallajökli.[1] Gjóskuflóðsbergið í Þórsmörk var aldursgreint og reyndist vera frá sprengigosi fyrir um 54 þúsund árum. Áætlað er að heildarmagn gjósku frá þessu gosi, bæði í sjó og á landi, sé ekki innan við 20 rúmkílómetra. Þegar Tindafjallajökull gaus, var Ísland að mestu hulið jökli. Gjóskan streymdi sem gjóskuflóð yfir jökla og láglendi á haf út. Gjóskufall var mikið á hafísinn umhverfis landið. Ísinn rak til vesturs og suðurs út í Atlantshaf og bar gjóskuna frá Tindafjallajökli með sér í töluverðu magni, þar til hann bráðnaði nokkru fyrir norðan Azoreyjar. Askan féll til botns og blandaðist venjulegu sjávarseti. Nú eru form og lögun Tindafjalla helstu verksummerki eftir gosið. Eins og sést á myndinni sem fylgir svarinu er greinileg askja í fjallinu, og hún hefur sennilega myndast við þetta stórgos. Tilvísun:
- ^ Haraldur Sigurðsson, John Stix, Bruce Houghton, Stephen R. McNutt og Hazel Rymer ritstjórar, 1999. Encyclopedia of Volcanoes. Academic Press, San Diego.
Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Myndin er úr sama riti.