Orðin tres (60) og firs (80) í dönsku eru mynduð á annan hátt en í íslensku. Tres er stytting fyrir tresindstyve og firs fyrir firsindstyve. Sinds er eignarfall nafnorðsins sinde í merkingunni ‘skipti’. Hugsunin að baki er 3 x 20 og 4 x 20 (þrisvar sinnum tuttugu, fjórum sinnum tuttugu) en ekki sex tigir og átta tigir eins og í íslensku. Frábrugðnastir eru tugirnir 50, 70 og 90 í dönsku. Halvtreds (50) er stytting úr halvtred/sinds/tyve. Hugsunin að baki er ‘hálfur þriðji sinnum tuttugu, (2 ½ sinnum tuttugu)’. Þessi háttur að telja var tekinn upp í miðdönsku en hún nær frá 1100–1525 (eldri miðdanska 1100–1350, yngri miðdanska 1350–1525). Á sama hátt er halvfjerds (70) stytting úr halvfjerd/sinds/tyve, ‘hálfur fjórði sinnum tuttugu, (3 ½ sinnum tuttugu)’, og halvfems stytting úr halvfem/sinds/tyve, ‘hálfur fimmti sinnum tuttugu (4 ½ sinnum tuttugu)’. Máti að telja er oft mismunandi milli þjóða og skapast af hefð. Danir hafa í vaxandi mæli farið að nota tugakerfi Svía og tekið upp tölurnar treti (30), firti (50), femti (50), seksti (60), syvti (70), otti (80) og niti (90). Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Ef við hefðum ekki tíu fingur væri þá tugakerfið öðruvísi, kannski byggt út frá tólf eða fimmtán ef við hefðum 12 eða 15 fingur? eftir Jón Kr. Arason og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvers vegna notum við sætiskerfi og hvaða kosti hefur það umfram önnur talnakerfi? eftir Kristínu Bjarnadóttur
- Hvað eru náttúrlegar tölur? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Fullerton College. Sótt 2.9.2009.