Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skynjun er gífurlega flókið og viðamikið ferli, svo flókið að ómögulegt er að gera grein fyrir því öllu í litlu svari sem þessu. Hér verður því aðallega fyrsta skrefinu, það er hvernig skynfærin taka við umhverfisáreitum, lýst í stuttu máli.
Sjónskyn
Flestir geta verið sammála um að sjónskynið sé mikilvægasta skilningarvit manna. Á grundvelli þess getum við greint liti, dýpt, stærð og hreyfingu hluta í umhverfinu. Augun eru yfirleitt talin skynfæri sjónar, en ljósnemarnir innan augans eru þó ekki allir eins. Keilurnar (cones) eru þeir ljósnemar sem fólk notar mest í dagsbirtu. Þær eru forsenda litasjónar og eru mikilvægar þegar greina á smáatriði. Stafirnir (rods) eru aftur á móti mikilvægir fyrir rökkursjón og hreyfiskynjun en eru að sama skapi ónothæfir til litasjónar, og upplausn þeirra er ekki sérlega góð.
1) Ljós skín á hluti sem 2) endurkasta tilteknum bylgjulengdum þess. 3) Ljósið berst augunum og öfug mynd af hlutnum lendir á sjónhimnu augans. 4) Þar eru ljósnemarnir, keilur (bláar) og stafir (gráir) sem nema ljósið og breyta því í rafboð. 5) Rafboðin berast eftir sjóntauginni upp til frumsjónsvæða heilans (appelsínugul) þar sem unnið er úr þeim.
Ólíkt okkur mönnunum eru ýmis næturdýr oft með fleiri stafi en keilur. Þetta á til að mynda við um ketti, en þeim er mikilvægara að greina hreyfingu bráðarinnar í rökkrinu en að sjá til að mynda nákvæmlega hvernig hún er á litinn. Um þetta má lesa í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Hvernig sjá kettir?Heyrnarskyn
Ef sjónskynið er mikilvægasta skynfæri manna er heyrnarskynið líklega það sem næst kemur á eftir, því án þess væru samskipti manna á milli ýmsum erfiðleikum bundin. Vissulega er hægt að hafa tjáskipti án tals eins og sést best á tungumáli heyrnarlausra, táknmálinu, sem hægt er að lesa um í svarinu Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt mál fyrir heyrnarlausa? eftir Svandísi Svavarsdóttur. Táknmál er samt ekki jafn skilvirkt og tal við ýmsar aðstæður, svo sem þegar hendurnar eru uppteknar eða reynt er að vekja athygli einhvers sem snýr baki í mann.
Þegar hljóðbylgjur skella á hljóðhimnu (tympanic membrane, eardrum) eyrans tekur hún að titra. Titringurinn berst svo áfram eftir smábeinunum (ossicles) til kuðungsins (cochlea) í innsta hluta eyrans. Örsmá bifhár (cilia) í kuðungnum, hin eiginlegu skynfæri heyrnar, nema svo hreyfingar í grunnhimnu (basilar membrane) kuðungsins og senda boð upp til heila sem túlkar þau sem tiltekin hljóð.
Snertiskyn
Í húðinni eru margs konar snertinemar eða aflnemar (mechanoreceptors) sem svara við mismunandi áreitni. Snertiskífur (Merkel receptors) svara best við þrýstingi, endalíffæri Ruffinis (Ruffini cylinders) við strekkingu húðar, snertihnökrar (Meissner corpuscles) við hægum titringi og flöguhnökrar (Pacinian corpuscles) við hröðum titringi. Í svari sínu við spurningunni Hvað er snertiskyn? nefnir Þuríður Þorbjarnardóttir svo fimmtu tegundina, svokallaðar hárrótarflækjur (hair root plexus), sem skynja grófa snertingu.
Þessi mannlingur (homunculus) sýnir hlutfallslega hversu stóru svæði heilabarkarins er varið í að vinna úr skynupplýsingum frá hinum ýmsu líkamshlutum. Mest er unnið úr upplýsingum frá þeim líkamshlutum sem eru sýndir stærstir, svo sem vörum og fingrum. Þessir líkamshlutar eru að sama skapi næmastir fyrir snertingu.
Efnaskyn
Bragðskyn og lyktarskyn ganga stundum saman undir nafninu efnaskyn (chemical senses), þar sem í báðum tilvikum er um að ræða skynjun á tilteknum efnum. Fólk finnur bragð af efnum sem leysast upp í munnvatninu og skynjar lykt af ýmiss konar efnum í loftkenndu formi. Auk þess vinna þessi skilningarvit mikið saman, eins og finnst vel á hversu matur virðist bragðlaus þegar nefið er stíflað af kvefi. Um þetta má lesa í svari Friðriks Páls Jónssonar við spurningunni Getur verið að einstaklingur með eðlilegt bragðskyn finni enga lykt?Bragðlaukar (taste buds) tungunnar eru samsettir úr mörgum bragðfrumum (taste cells) sem eru misnæmar fyrir sætu, súru, beisku og söltu bragði. Margt bendir til þess að til séu frumur sem svari við enn einni bragðtegundinni sem kallast umami, en það er hið sérstaka bragð sem til að mynda finnst af hinu alræmda þriðja kryddi, eða MSG (mónósódíumglútamati).
Lyktarnemarnir (olfactory receptors) eru á bifhárum sérstakra lyktarfrumna (olfactory receptor neurons) á lyktarhimnunni (olfactory epithelium) í ofanverðu nefholinu. Hver lyktarnemi binst aðeins tilteknum efnum, en til eru um 1000 mismunandi tegundir lyktarnema. Þeir senda svo skilaboð til svokallaðrar lyktarklumbu (olfactory bulb) heilans sem vinnur úr upplýsingunum og sendir áfram til ýmissa annarra heilasvæða. Meira um lykt og lyktarskyn má svo lesa í svörum Einars Karls Friðrikssonar við spurningunni Hvað er lykt? og Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Ef sjón og heyrn eru bylgjur, hvað er lykt þá?
Að lokum má benda á að til eru önnur skilningarvit en þau sem hér eru nefnd, bæði meðal manna og dýra. Um þau má lesa í svari höfundar við spurningunni Er jafnvægisskynið ef til vill sjötta skilningarvitið?Heimildir og myndir
Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon.
Goldstein, E. B. (2002). Sensation and perception. Pacific Grove, CA: Wadsworth.
Mynd af ferli sjónskynjunar er af How the eye works. Jessica Maloney.
Heiða María Sigurðardóttir. „Hvernig verka skilningarvitin fimm (sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt)?“ Vísindavefurinn, 12. september 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5259.
Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 12. september). Hvernig verka skilningarvitin fimm (sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt)? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5259
Heiða María Sigurðardóttir. „Hvernig verka skilningarvitin fimm (sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt)?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5259>.