Þrýstingur er skynjaður dýpra í húðinni en létt snerting. Í samanburði við snertingu skynjast þrýstingur lengur, er minna breytilegur hvað styrkleika varðar og skynjast á stærra svæði. Segja má að þrýstingur sé í raun framlengd snerting. Þrýstinemar eru tvenns konar. Annars vegar eru aflnemar í húð af gerð II sem einnig kallast endalíffæri Ruffinis. Þessir skynjarar eru staðsettir djúpt í leðurhúðinni og í djúplægari vefjum og skynja þunga samfellda snertingu. Hins vegar eru flöguhnökrar (e. Pacinian corpuscle) sem eru í undirhúð og í kringum liði, sinar og vöðva og líta út eins og margblaða laukar. Þeir eiga þátt í stöðu- og hreyfiskynjun þessara líffæra. Snertiskyn er um margt mjög áhugavert og hafa til dæmis verið gerðar ýmsar rannsóknir á mikilvægi snertingar fyrir ungbörn. Sem dæmi má nefna að niðurstöður rannsókna benda til þess að fyrirburum, nýburum og ungbörnum sem eru snert og tekin upp reglulega gangi miklu betur en hinum sem fá litla snertingu. Þau sem eru tekin upp, knúsuð, föðmuð, ruggað, klappað og strokið vaxa hraðar og byrja fyrr að skríða, ganga og hrifsa. Þau eru einnig betur vakandi og virkari, sofa betur, þróa sterkara ónæmiskerfi og hafa hærri greindarvísitölu en þau sem eru skilin eftir í rúmum sínum langtímum saman. Rannsóknir hafa sýnt að snerting sé jafnvel ámóta mikilvæg fyrir líkamlegan, félagslegan og andlegan þroska ungbarns og svefn og næring. Rannsakendur frá læknadeild Harvard háskóla komust að því að ungbörn á alltof fjölmennu munaðarleysingjahæli í Rúmeníu sem lágu klukkutímum saman án mannlegrar snertingar þjáðust af skertum vexti og óeðlilega háu magni af streituhormóninu kortisól. Hugsanleg ástæða fyrir því að ungbörn vilja vera snert er sú að þau venjast stöðugri snertingu legvatnsins í móðurkviði. Þetta kann að skýra hvers vegna þau róast gjarnan við það að vera pakkað inn í hlý og mjúk teppi eða þegar þau eru sett í heitt bað. Heimildir og mynd:
- Tortora, Gerard J. (1997): Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
- Mystery of Sense of Touch Is within Scientist's Reach - Columbia University Record
- The Sense of Touch - Communication With Infants
- Somatic and other senses - Dr. Paul Patton