- Hann telur það kannski borgaralega skyldu sína að mæta á kjörstað og greiða atkvæði.
- Hann kann af einhverjum ástæðum að vilja láta líta svo út sem hann hafi greitt fullgilt atkvæði í kosningunum. Þetta mátti sérstaklega sjá fyrir sér fyrr á árum þegar tilteknir stjórnmálaflokkar fylgdust grannt með því hverjir greiddu atkvæði í kosningum.
- Hann leggur þetta ef til vill á sig til að sýna andúð sína á flokkakerfi og stjórnmálamönnum. Þetta hefur fyrst og fremst tilætluð áhrif ef andrúmsloft og umhverfi er þannig að margir aðrir gera slíkt hið sama.
- Maðurinn treystir kannski sér að lokum ekki til að gera upp á milli listanna sem í boði eru.
- Hann vill ef til vill ekki greiða neinum flokki atkvæði þegar hann er kominn í kjörklefann.
Boðskapur kosningalaga um auð atkvæði er einfaldari en hér hefur verið lýst. Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis merkir það einfaldlega að atkvæðið er ógilt. Í 100. grein laga nr. 2000/24 segir þannig: "Atkvæði skal meta ógilt: a. ef kjörseðill er auður". Vegna framkominna óska hafa kjörstjórnir í alþingiskosningunum 25. apríl 2009 þó fallist á að auð atkvæði verða talin sérstaklega, aðgreind frá ógildum. Spyrjandi bendir einnig á að auð atkvæði geti hugsanlega talist veita tilteknum flokki brautargengi. Því er vitanlega hægt að halda fram ef menn gefa sér að þeir sem skila auðu hefðu ella kosið tiltekinn annan flokk. Slíkt er auðvitað erfitt að vita fyrir víst og þess konar bollaleggingar stangast jafnvel á við eðli frjálsra kosninga; sá sem skilar auðu eða situr heima hefur tjáð sig og sagt sína skoðun ekkert síður en hinn sem setur kross við tiltekinn listabókstaf. Eins vill spyrjandi fá að vita hvaða þýðingu það hefur fyrir úrslit kosninga ef margir skili auðu. Skemmst er frá því að segja að auðu atkvæðin hafa enga merkingu fyrir úrslitin - sama niðurstaða verður úr kosningunum og ef þeir sem skila auðum atkvæðum hefðu ekki mætt á kjörstað. Ef auðir seðlar í tilteknum kosningum eru hins vegar miklu fleiri en í öðrum og ljóst er af opinberum umræðum að margir eru óánægðir með stjórnmálakerfið, þá væri engu að síður eðlilegt að túlka fjölda auðra seðla sem birtingarmynd þessarar óánægju. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða viðurlög eru við kosningasvindli og hversu vel er því fylgt eftir að slíkt eigi sér ekki stað? eftir Eirík Tómasson
- Geta kjósendur gefið þingmönnum bindandi fyrirmæli? eftir Pál Hreinsson
- Mætti nota erlenda bókstafi eða tölustafi sem listabókstafi í íslenskum kosningum? eftir EÖÞ og ÞV
- Vote dimanche-09. Flickr.com. Höfundur myndar er Julie Kertesz. Myndir er birt undir Creative Commons leyfi.
Hvað þýðir það að skila auðu í kosningum?: Nú er töluvert um það að fólki líki ekki þeir kostir sem í boði eru fyrir komandi kosningar og íhugi því að skila auðum kjörseðli. Stíga þá ófáir fram sem halda því blákalt fram að það að skila auðu jafngildi því að veita einhverjum flokki brautargengi eða jafnvel að þá sé alveg eins gott að sleppa því að nýta sér sinn lýðræðislega rétt til að kjósa og sitja bara heima á kjördag. Hvað myndi það þýða fyrir úrslit kosninga ef stór hópur fólks skilar auðum kjörseðlum í stað þess að velja einhvern af þeim kostum sem í boði eru?