Folketingsmedlemmerne er ene bundet ved deres overbevisning og ikke ved nogen forskrift af deres vælgere.1Þetta ákvæði hefur staðið óbreytt allt frá því að það var fyrst tekið upp í 60. grein júnístjórnarskrárinnar frá 1849. Ákvæðið er upprunnið úr tilskipunum um stéttarþingin frá 1834 en fyrirmynd ákvæðisins þar var af frönskum uppruna. Þegar gjaldþrot franska ríkisins blasti við árið 1789 var konungur tilneyddur að kalla saman stéttarþingin en það hafði ekki verið gert frá árinu 1614. Á stéttarþingin mættu margir fulltrúar stéttanna með skrifleg bindandi fyrirmæli um það hvaða afstöðu skyldi taka til þeirra málefna sem afgreiða átti. Ekki var því neitt svigrúm til þess að ræða um málin og sætta ólík sjónarmið. Af þessum sökum gaf Lúðvík XVI. Frakkakonungur út tilskipun hinn 23. júní 1789 um að slík bindandi fyrirmæli stéttanna væru ógild þar sem þau stríddu gegn hagsmunum ríkisins. Tilskipunin var síðan samþykkt á fyrsta sameiginlega þingi stéttanna. Í frönsku stjórnarskrána frá 1791 var síðan tekið upp ákvæði sem mælti svo fyrir að þingmenn skyldu ekki vera fulltrúar ákveðinna umdæma heldur þjóðarinnar allrar og að kjósendur gætu ekki gefið þeim bindandi fyrirmæli.
Árið 1789 gaf Lúðvík XVI Frakkakonungur út þá tilskipun að ógilda skyldi bindandi fyrirmæli stétta til fulltrúa sinna.
Hver rigsdagsmand repræsenterer – ikke sine vælgere eller sin egn eller sin stand – men hele det danske folk. Han er kun bundet ved sin samvittighedsfulde overbevisning om, hvad der er Ret eller gavnligt for staten, men ikke ved nogen forskrift fra sine vælgere.2Með þeirri breytingu sem gerð var á ákvæðinu breyttist efni þess frá því að vera bundið við sannfæringu þingmannsins um hverjar þarfir ríkisins, það er almannahagsmunir, væru, yfir í það að einskorðast við sannfæringu þingmannsins án tilvísunar til neinna málefna. Með vísan til uppruna og orðalags 48. greinar stjórnarskrárinnar hefur ákvæðið verið skýrt svo að kjósendur geti ekki gefið þingmönnum bindandi fyrirmæli; þeir geti sömuleiðis ekki afturkallað það umboð sem þeir veita þingmönnum við kosningu verði kjósendur síðar óánægðir með framgöngu þingmannanna. Þingmenn eru á hinn bóginn háðir kjósendum sínum um framhald á þingmennsku sinni þar sem kjörtímabil þeirra getur lengst orðið fjögur ár sé þingrofsrétti ekki beitt samkvæmt 24. grein stjórnarskrárinnar. Vegna ákvæða 48. greinar stjórnarskrárinnar er heldur ekki heimilt að mæla svo fyrir í lögum að umboð þingmanns verði að tilheyra þeim stjórnmálaflokki sem hann var kjörinn fyrir. Þingmaður þarf því ekki að láta af störfum segi hann sig úr stjórnmálaflokki eða sé úr honum rekinn. Samningur sama efnis sem þingmaður gerði við stjórnmálaflokk væri heldur ekki bindandi fyrir hann vegna ákvæða 48. greinar stjórnarskrárinnar. Af ákvæðinu er á hinn bóginn ekki talið leiða að þingmönnum sé óheimilt að bindast samtökum og lúta eftir atvikum flokksaga svo lengi sem samfæring þeirra býður.
1Þingmenn á þjóðþinginu eru einungis bundnir sannfæringu sinni og ekki neinum fyrirmælum frá kjósendum sínum. 2 Hver þingmaður er hvorki fulltrúi kjósenda sinna, byggðarlags né stéttar, heldur er hann fulltrúi allrar dönsku þjóðarinnar. Hann er einungis bundinn samvisku sinni og sannfæringu um hvað sé rétt eða gagnlegt ríkinu, en ekki neinum fyrirmælum frá kjósendum sínum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Er fulltrúalýðræði hentugasta stjórnarfyrirkomulagið? eftir Guðmund Hálfdanarson.
- Hvað gerist ef Alþingi setur lög sem stangast á við stjórnarskrána? eftir Sigurð Guðmundsson.
- Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum? eftir Árna Helgason.
- Andersen, Poul: Dansk Statsforfatningsret. Kaupmannahöfn 1954.
- Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. 1. útg. Reykjavík 1997.
- Møller, Jens: Grundlovens § 56 i historiens lys. Juristen 1965, bls. 379-389.
- Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands. 2. útgáfa. Gunnar G. Schram annaðist útgáfuna. Reykjavík 1978.
- Ross, Alf: Dansk Statsforfatningsret 1. 3. útgáfa. Ole Espersen annaðist útgáfuna. Kaupmannahöfn 1980.
- Sørensen, Max: Statsforfatningsret. 2. útgáfa. Peter Germer annaðist útgáfuna. Kaupmannahöfn 1977.
- Zahle, Henrik, ritsj.: Danmarks riges grundlov med kommentarer. Kaupmannahöfn 1999.
- Mynd: Image:Louis xvi.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.