Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Erfitt er að fullyrða nokkuð um það hvert sé hentugasta stjórnarfyrirkomulagið sem hægt er að koma á, en greinilegt er þó að fulltrúakerfið hefur orðið órjúfanlegur þáttur í framkvæmd nútímalýðræðis einmitt vegna þess að það er afar hentugt í framkvæmd.
Því fer hins vegar fjarri að fulltrúalýðræði hafi alltaf verið talið sjálfsagt af hálfu þeirra sem vildu þó hafa lýðræðið sjálft í heiðri. Þannig var einn helsti frumkvöðull lýðræðishugsjónar á 18. öld, franski heimspekingurinn
Jean-Jacques Rousseau, svarinn andstæðingur fulltrúalýðræðis. Í bók sinni Um samfélagssáttmálann (Du contrat social) mótmælir hann því að nokkrum manni leyfist að afhenda öðrum hlutdeild sína í fullveldinu, það er að segja að hver og einn ætti að taka beinan þátt í setningu laga (þó mætti kjósa fulltrúa sem skyldi framkvæma lögin). Rousseau gerði sér grein fyrir því að í stórum ríkjum væri erfitt að koma slíku kerfi fyrir, og því taldi hann að borgríki eins og borgin Genf í Sviss, þar sem hann var sjálfur uppalinn, væru þau ríki sem best tryggðu lýðræðisréttindi og skilgreindu skyldur fólks.
Í raun hefur beint lýðræði, þar sem allir þeir sem hafa kosningarétt greiða atkvæði um öll lög, lítið verið notað í lýðræðisríkjum. Þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni eru þó dæmi um slíkt lýðræði í framkvæmd. Ástæðan fyrir því að fulltrúalýðræðið er yfirleitt tekið fram yfir beint lýðræði er sú að það fellur vel að tilhneigingu nútímasamfélaga til verkaskiptingar í stað þess að allir vasist í öllu, auk þess sem fulltrúalýðræðið er auðvelt í framkvæmd eins og áður er sagt.
Þingmenn eiga þannig að kynna sér þau flóknu mál sem þeir hafa til afgreiðslu, en erfitt er fyrir allan almenning að taka upplýsta afstöðu til alls þess sem löggjafinn tekur til umfjöllunar.
Hvað hagkvæmnina varðar er greinilegt að beint lýðræði yrði auðveldara í framkvæmd með nútímatækni en áður. Þannig væri vel hægt að nota tölvunet til að láta íbúa í stóru landi greiða atkvæði um ákveðið málefni án þess að þeir komi allir saman á einum stað. Einnig má auðveldlega koma við skipulegri umræðu um málefni sem kæmu síðan til atkvæða í sjónvarpi eða á netinu. Slíkt kerfi væri augljóslega lýðræðislegra en fulltrúalýðræði, ef lýðræði er talið merkja stjórnarform þar sem lög skuli byggja á vilja meirihluta atkvæðisbærra manna.
Hins vegar er engan veginn víst að meirihluti kjósenda hafi raunverulegan áhuga á að koma slíku kerfi á vegna þess að það krefst þess af þeim að þeir gefi sér tíma til að kynna sér öll þau mál sem þeir greiða atkvæði um. Eins er sennilegt að slíkt kerfi gerði þjóðfélögum erfitt fyrir að komast að samkomulagi um málefni þar sem verið er að rétta minnihlutahópa sem búa við greinilegt misrétti eða ójafna aðstöðu (þar má meðal annars nefna möguleika fólks í dreifbýli til menntunar, eða samgöngumál). Enn sem komið er hafa því fáar þjóðir rætt um það í nokkurri alvöru að leggja niður fulltrúalýðræðið.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Guðmundur Hálfdanarson. „Er fulltrúalýðræði hentugasta stjórnarfyrirkomulagið?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2000, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=188.
Guðmundur Hálfdanarson. (2000, 7. mars). Er fulltrúalýðræði hentugasta stjórnarfyrirkomulagið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=188
Guðmundur Hálfdanarson. „Er fulltrúalýðræði hentugasta stjórnarfyrirkomulagið?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2000. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=188>.