Í stjórnmálafræði er mikið fjallað núna um útvíkkun lýðræðisins og framsal á valdi út fyrir mörk þjóðríkisins. Margir kjósa að kalla þessa þróun lagskipt stjórnkerfi (e. multi-level governance). Eitt skýrasta dæmið um valdaframsal þjóðríkja er Evrópusambandið en einnig má líta á ýmis önnur bandalög þjóða og samstarfseiningar sem dæmi um þetta. Ríkjasambandinu, sem nú starfar undir merkjum Evrópusambandsins, var komið á fót eftir hildarleik seinni heimsstyrjaldar. Markmið þess er meðal annars að tryggja lýðræðislega stjórnarhætti innan vébanda sinna og er virkt lýðræði eitt af þeim skilyrðum sem ríki þurfa að uppfylla áður en þau geta gerst aðilar. Á vettvangi sambandsins eru mikilvægar ákvarðanir teknar í stofnunum þess og ber þar fyrst að nefna ráðherraráðið. Ráðið hefur æðsta ákvörðunarvaldið í ESB eins og lýst verður nánar hér á eftir. Þar situr einn ráðherra frá hverju ríki og sinnir hver þeirra sínum tiltekna málaflokki. Mikilvægasta hlutverk ráðsins er að setja sambandinu lög í málum er rúmast innan sáttmála þess. Lagasetningin er þó ekki alfarið í höndum ráðsins. Í flestum málaflokkum innri markaðarins eru ákvarðanir teknar með sameiginlegri ákvörðun ráðherraráðs og Evrópuþings sem kosið er til í beinni kosningu. Þingið hefur þannig umfangsmikið neitunarvald um nýja löggjöf. Atkvæðagreiðsla er sjaldgæf í ráðherraráðinu en þegar hún á sér stað ræður meirihluti samkvæmt vegnum atkvæðum. Í flestum þjóðþingum sambandsríkjanna eru starfandi Evrópunefndir sem hafa meðal annars það hlutverk að fylgjast með störfum ráðherra í ráðherraráðinu. Framkvæmdastjórnin er skipuð fulltrúum sem valdir eru af ríkisstjórnum ríkjanna að fengnu samþykki Evrópuþingsins sem jafnframt hefur eftirlit með störfum þess og er bæði framkvæmdastjórn og ráðherraráði skylt að gefa þinginu skýrslur og svara fyrirspurnum þess. Framkvæmdastjórnin tekur þátt í löggjafarstarfi ESB og leggur lagafrumvörp fyrir ráðherraráðið. Hún hefur mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna og fylgist með því að samþykktir séu framkvæmdar og eftir þeim farið. Evrópudómstóllinn dæmir í ágreiningsmálum sem til hans er vísað Samkvæmt greiningu stjórnmálafræðingsins Arend Lijpharts á stjórnkerfi ESB þá er framkvæmdavaldið á hendi framkvæmdastjórnarinnar og framkvæmdastjórarnir gegna hlutverki ráðherra. Þeir eru tilnefndir af lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum og samþykktir af lýðræðislega kjörnu þingi líkt og til dæmis í Bandaríkjunum þar sem forsetinn skipar ráðherra í ríkisstjórn. Ráðið, skipað lýðræðislega kjörnum fulltrúum ríkjanna, gegnir hlutverki efri málstofu löggjafans og þingið, kosið beinni hlutfallskosningu í ríkjunum, neðri málstofu löggjafans. Í ríkjum sem hafa deildaskiptan löggjafa er neðri deildin valdameiri, en í ESB er þessu öfugt farið. Ráðið heldur reglulega opna fundi og löggjöf þess er birt opinberlega sem og hvernig ríkin greiddu atkvæði. Fundir þingsins eru opnir sem og fundir margra þingnefnda. Hjá framkvæmdastjórninni eru öll skjöl opinber nema annað hafi verið ákveðið. Eins og áður hefur komið fram þá er hugmyndin að baki lýðræði sú að hið pólitíska vald sé í höndum hins almenna borgara. Lýðræðishugmyndin hefur hins vegar þróast með tímanum og lagað sig að þörfum samtímans. Evrópusambandið er skref í þá átt að þróa lýðræði út fyrir mörk þjóðríkisins og verður að skoða í því samhengi. Í Evrópusambandinu er lagskipt lýðræði þar sem stofnanir þess koma til viðbótar stofnunum þjóðríkja. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er lýðræði? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Hvað er rafrænt lýðræði (e-democracy)? eftir Hauk Arnþórsson
- Er fulltrúalýðræði hentugasta stjórnarfyrirkomulagið? eftir Guðmund Hálfdanarson
- Hvers vegna átti lýðræðið erfitt uppdráttar á 19. öld? eftir Gunnar Karlsson
- Af hverju þurfa Íslendingar að fara eftir reglum sem Evrópusambandið setur, þó svo að Ísland sé ekki í ESB? eftir Arndísi Önnu K. Gunnarsdóttur
- Er Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins eða innan þess? eftir Eirík Bergmann Einarsson