Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í stuttu máli snerist Kúbudeilan um vígbúnaðarkapphlaup og pólitískt stolt risaveldanna. Þau áttu bágt með að gefa eftir þegar deilan hafði náð ákveðnu stigi og eins hafa ýmsir fræðimenn fullyrt að Nikita Krúséff Sovétleiðtogi hafi teflt djarfan leik til að styrkja sig í sessi eftir ýmis pólitísk vonbrigði heima og erlendis.
Heimsbyggðin rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar þegar hættuástand skapaðist í október 1962 vegna deilna Bandaríkjamanna annars vegar og Sovétmanna og Kúbverja hins vegar um meðaldrægar kjarnaflaugar á Kúbu. Litlu mátti muna að þriðja heimsstyrjöldin skylli á og kalda stríðið varð heitt í þessari deilu. Hvorki Sovétmenn né Bandaríkjamenn áttu langdrægar flaugar á þessum árum sem náðu meginlanda á milli. Þess vegna var mikilvægt fyrir Sovétmenn að fá Kúbu sem skotpall en fyrir höfðu Bandaríkjamenn skotpalla til dæmis í Tyrklandi og víðar við suðurlandamæri Sovétríkjanna.
Fidel Castro, atvinnubyltingarmaður af landeigendastétt, komst til valda á Kúbu árið 1959. Árin á undan höfðu Bandaríkjamenn lagt efnahagslíf Kúbu undir sig. Castro hófst strax handa við að þjóðnýta helstu eigur Bandaríkjamanna á eynni sem brugðust ókvæða við og komu á viðskiptabanni sem lék efnahag Kúbverja afar grátt. Sovétmenn notuðu þá tækifærið og komu skoðanabræðrum sínum á Kúbu til hjálpar, meðal annars með því að kaupa af þeim mikið af sykri langt yfir heimsmarkaðsverði, en sykur var helsta útflutningsvara eyjaskeggja.
Sovétmenn höfðu tekist harkalega á við Bandaríkin í kalda stríðinu og það kom ekki síst fram í kapphlaupi um kjarnorkuvopn. Þeir eygðu möguleika á að snúa stöðunni í vígbúnaðarkapphlaupinu sér í vil svo um munaði með því að komast til margvíslegra áhrifa á þessari hernaðarlega mikilvægu eyju sem er örskammt frá suðurodda Flórída. Castro fagnaði liðveislunni enda hafði hann ástæðu til að óttast innrás frá Bandaríkjunum eftir hina misheppnuðu Svínaflóainnrás á Kúbu árið 1961.
Krúséff fékk leyfi Castros til að koma meðaldrægum kjarnaflaugum fyrir á eynni. Bandarískar njósnaflugvélar tóku ljósmyndir af þessum sovésku flaugum og í kjölfarið má segja að allt stjórnkerfi Bandaríkjanna hafi nötrað af skelfingu og æsingi. Bandarískir ráðamenn litu svo á að flaugarnar væru óþolandi ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna og kröfðust þess að þær yrðu fjarlægðar. Vesturveldin og nær öll ríki Rómönsku Ameríku studdu kröfu Bandaríkjaforseta en Sovétmenn neituðu að fallast á hana. Þá magnaðist deilan fljótt þannig að í algert óefni stefndi.
Ljósmynd af kjarnaflaugum Sovétmanna á Kúbu. Það hefur vakið athygli fræðimanna að Sovétmenn gerðu fátt til að fela flaugarnar.
Bandaríkjamenn voru staðráðnir í koma sovésku flaugunum burt frá Kúbu, en upp kom mjög hættulegur ágreiningur bandarískra ráðamanna um vænlegustu leiðirnar að því marki.
John F. Kennedy Bandaríkjaforseti þingaði daga og nætur með helstu ráðgjöfum sínum til að finna lausn á vandanum. Ýmsar hugmyndir voru viðraðar. Ein gerði ráð fyrir að hafast ekkert að, önnur að leysa málin með viðræðum við Sovétmenn eða Castro sem var satt best að segja lítið en annað en valdalítið peð í þessari drungalegu stórveldarefskák. Sumir ráðgjafarnir mæltu með tafarlausum loftárásum á eldflaugaskotpallana á Kúbu og um tíma leit út fyrir að sú ráðagerð yrði ofan á. Enn önnur hugmynd gerði ráð fyrir hafnbanni á Kúbu sem kom svo til framkvæmda miðvikudaginn 24. október. Gríðarleg spenna skapaðist þegar sovésk flutningaskip nálguðust hafnbannslínuna. Heimurinn stóð á öndinni. Ragnarök blöstu við. Á síðustu stundu ákváðu Sovétmenn að stöðva vopnaflutningaskip sín rétt utan við hafnbannslínuna.
Skömmu síðar fékk Kennedy einkabréf frá Krúséff þar þar sem lesa mátti á milli línanna að Sovétleiðtoginn væri reiðubúinn að fjarlægja eldflaugarnar gegn því að Bandaríkjamenn létu af hafnbanninu og lofuðu því opinberlega að ráðast ekki á Kúbu. Kennedy var ekki búinn að svara þessu bréfi þegar honum barst annað bréf þar sem fyrra tilboðið var ítrekað, en Sovétmenn bættu þeirri kröfu við að Bandaríkjamenn fjarlægðu flaugar sínar í Tyrklandi. Kennedy fannst of mikil pólitísk eftirgjöf felast í því að fallast á síðarnefndu kröfuna þótt flaugarnar í Tyrklandi væru orðnar úreltar og til stæði að skipta þeim út. Á meðan ráðamenn í Washington veltu vöngum yfir þessu bárust fréttir frá Kúbu af því að bandarísk njósnavél hefði verið skotin niður. Mikill glímuskjálfti hljóp nú í ýmsa hernaðarráðgjafa forsetans sem fóru fram á að loftvarnarbyssur Kúbverja yrðu sprengdar til að tryggja öryggi U2 njósnavéla Bandaríkjamanna. Forsetinn vísaði þessari glannalegu ráðagerð á bug með þeim rökum að hún fæli í sér of mikla styrjaldarhættu.
Skopmynd af átökum Krúséffs og Kennedys í Kúbudeilunni.
Eftir mikla rekistefnu ákvað Kennedy að fallast á tilboð Krúséffs í fyrra bréfinu. Bróður Kennedys, Robert dómsmálaráðherra, heppnaðist að koma þeim skilaboðum til sovéskra stjórnvalda að Bandaríkjamenn hefðu ákveðið að fjarlægja flaugarnar í Tyrklandi. Bandaríkjastjórn gaf reyndar ekki formlegt loforð um að ráðast ekki á Kúbu, en Sovétmenn töldu sig samt fá tryggingu fyrir þeirri kröfu með öðru móti sem dugði þeim til samkomulags. Þann 28. október lýstu Sovétmenn því yfir að þeir ætluðu að fjarlægja flaugarnar á Kúbu og það gerðu þeir tæplega mánuði síðar.
Endalok Kúbudeilunnar juku mjög hróður Kennedys Bandaríkjaforseta. Hann setti Sovétmönnum úrslitakosti og hafði betur í áróðursstríði. Þau veiktu að sama skapi stöðu Krúséffs Sovétleiðtoga sem hrökklaðist úr embætti árið 1964. Báðir deiluaðilar hrósuðu samt sigri í deilunni og það með réttu að vissu leyti því þeim lánaðist að halda aftur af sér og semja um málamiðlun sem tók umtalsvert mið af óskum beggja. Þannig tókst þeim á síðustu stundu að koma í veg fyrir gereyðingarstríð. Sambúð risaveldanna batnaði í kjölfar Kúbudeilunnar og ekki veitti af.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Róbert F. Sigurðsson. „Um hvað snerist Kúbudeilan?“ Vísindavefurinn, 16. september 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51907.
Róbert F. Sigurðsson. (2009, 16. september). Um hvað snerist Kúbudeilan? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51907
Róbert F. Sigurðsson. „Um hvað snerist Kúbudeilan?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51907>.