Árið 1934 var samningurinn endurnýjaður. Þá var Kúbverjum tryggð leið gegnum víkina þeim að kostnaðarlausu og einnig var ákveðið að Bandaríkin og Kúba þyrftu að vera sammála um að fella samninginn úr gildi. Bandaríkin vilja ekki loka stöðinni og þess vegna getur Kúba ekki lokað henni heldur. Síðan Fidel Castro tók við völdum á Kúbu í byltingunni 1959 hefur ríkisstjórnin ítrekað mótmælt herstöðinni. Castro og stjórn hans gerðu Kúbu að sósíalísku ríki og bökuðu sér þar með fjandskap margra Bandaríkjamanna. Að auki hóf Castro náið samstarf við stjórnina í Sovétríkjunum og fékk mikinn stuðning frá þeim. Til dæmis keyptu Sovétríkin vörur frá Kúbu á mjög háu verði og sáu Kúbverjum einnig fyrir hergögnum. Castro-stjórnin afnam kapítalisma í landinu og þjóðnýtti mörg fyrirtæki, þar á meðal fyrirtæki sem annaðhvort voru bandarísk eða Bandaríkjamenn höfðu fjárfest í. Þetta vakti mikla reiði hjá Bandaríkjamönnum sem tóku að draga úr verslun við Kúbu. Auk þess gerðu þeir misheppnaða tilraun til að ráðast inn í Kúbu um Svínaflóa (Bahía de Cochinos) árið 1961 og gerðu ýmsar áætlanir um að myrða Castro. Upp frá því hefur samband Bandaríkjanna og Kúbu verið mjög stirt. Eftir byltinguna reyndu mörg þúsund Kúbumenn að flýja land og komast inn á flotastöðina. Fidel Castro lét þá planta þéttu kaktusgerði kringum stöðina til að koma í veg fyrir flóttann úr landinu. Auk þess höfðu Bandaríkjamenn sett upp háa girðingu og lagt jarðsprengjur til þess að verja stöðina fyrir Kúbverjum. Því er hvorki hægt að komast inn í stöðina né út úr henni nema með leyfi. Nú orðið vinna um tíu Kúbumenn í stöðinni en í upphafi voru þeir um þúsund. Flotastöðin er nú mest notuð sem æfingastöð bandaríska hersins og til að berjast gegn eiturlyfjasmygli á svæðinu. Flotastöðin komst í heimsfréttirnar veturinn 2002 þegar Bandaríkjastjórn flutti þangað menn sem sagðir eru tilheyra hryðjuverkasamtökunum al-Kaeda. Mennirnir voru handteknir í Afganistan og bíða réttarhalda við Guantánamo-flóa. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Um hvað snerist Kúbudeilan? eftir Róbert F. Sigurðsson
- Hvað eru kommúnistaríki heimsins mörg? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Er "Area 51" til? eftir Hrannar Baldursson og Þorstein Vilhjálmsson
- The history of Guantanamo Bay. Skoðað 29.4.2002.
- The World Factbook - CIA
- www.sun-sentinel.com. Sótt 29.4.2002.