Í baðhúsunum hittust menn og ræddu saman, ef til vill ekki ósvipað og margir Íslendingar í almenningssundlaugum. Upphaflega voru baðhúsin einungis ætluð körlum en síðar meir var konum einnig heimill aðgangur að baðhúsunum. Oftast voru þó baðhúsin ekki opin körlum og konum samtímis. Stundum voru þau opin konum frá dögun til klukkan eitt um eftirmiðdag en körlum frá klukkan tvö til átta að kvöldi. Þó kom einnig fyrir að baðhúsin væru opin báðum kynjum samtímis. Svo virðist einnig sem sum baðhúsin hafi verið opin á kvöldin. Aðgangur að baðhúsi var gegn vægu gjaldi, aðgangseyrir kvenna gat verið lægri en karla en börn og hermenn þurftu alla jafna ekki að borga. Baðhúsin voru afar glæsilegar byggingar og vel skreyttar. Þar voru búningsklefar, sundlaugar og heitir pottar, eins og við þekkjum úr almenningssundlaugum okkar. Vatnsveitubrýr veittu vatni í baðhúsin en einnig var regnvatni safnað. En þar var einnig hægt að stunda líkamsrækt og jafnvel sólböð og fara í nudd. Í baðhúsunum hafði almenningur líka aðgang að salerni en fæst heimili höfðu þau. Í baðhúsunum var enn fremur hægt að spila ýmiss konar spil og hlýða á fyrirlestra svo að þar fór fram ákveðinn hluti af félagslífi Rómverja. Ef til vill má segja að baðhús Rómverja samsvari að einhverju leyti íþróttahúsum (gymnasion) Grikkja eða hafi gegnt áþekku félagslegu hlutverki. Áætlað er að í Róm hafi verið um 170 baðhús á 1. öld f.Kr. og þeim fjölgaði mjög. Keisararnir Neró, Títus og Trajanus, Caracalla, Diocletianus og Konstantínus mikli létu allir byggja stórfengleg baðhús. Stærstu baðhúsin gátu tekið á móti allt að 4000 gestum í einu. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær ríktu Rómverjar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Úr hverju voru vatnslagnir Rómverja til forna og af hverju drógu þau menn til dauða? eftir Sverri Jakobsson
- Balsdon, L.P.V.D., Life and Leisure in Ancient Rome (The Bodley Head, 1969).
- Cowell, F.R., Everyday Life in Ancient Rome (B.T. Batsford, 1961).
- Wikipedia.org. Sótt 13.3.2009.