Rómverjar virðast sjálfir hafa haft litlar áhyggjur af blýeitrun þótt þeir hafi vissulega verið meðvitaðir um hættuna af því að nota blýrör í veitukerfinu. Arkítektinn Marcus Vitruvius Pollio, sem var uppi á 1. öld f.Kr., ræddi þetta vandamál í ritinu De architectura og benti á að betra væri að nota leiðslur úr terracotta-leir en blýi. Ekki er samt líklegt að drykkjarvatn í Róm hafi innihaldið mikið blý. Í fyrsta lagi skildist ekki mikið blý út í drykkjarvatnið ef straumurinn um pípurnar var jafn og stöðugur. Í öðru lagi voru ýmis efni (svo sem kalsíumkarbónat) í jarðvegi í grennd við Róm sem ættu að hafa komið í veg fyrir ætingu á leiðslunum. Rómverjum hefur líklega stafað meiri hætti af pottum úr blýi sem notaðir voru til að sjóða ávexti, til dæmis greip, sem blandaðir voru við vín til að gera vínið sætara og bragðbetra. Til þess að slík neysla ylli blýeitrun hefðu Rómverjar þó þurft að drekka vín í miklu magni, svo miklu raunar að slík neysla hefði verið ærið vandamál í sjálfri sér. Kenningin um að blýeitrun hafi orðið rómverska heimsveldinu að falli er snjöll en virðist samt sem áður ekki vera á rökum reist. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvað er blýeitrun? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Úr hverju er blý? eftir JGÞ.
- Seabury Colum Gilfillan, „Lead poisoning and the fall of Rome“, Journal of Occupational Medicine, 7 (1965), 53-60.
- H. A. Waldron, „Lead poisoning in the ancient world“, Medical History, 17 (1973), 391-99.
- A. Treavor Hodge, „Vitruvius, lead pipes, and lead poisoning“, American Journal of Archaeology, 85 (1981), 486-91.
- Jerome O. Nriagu, Lead and lead poisoning in antiquity, New York, 1983.
- John Scarborough, „The myth of lead poisoning among the Romans: An essay review“, Journal of the History of Medicine, 39 (1984), 469-75.
- Lionel & Diane Needleman, „Lead poisoning and the decline of the Roman aristocracy“, Classical Views, 4/1 (1985), 63-94.
- Wikipedia.com - Pont du Gard