Enn önnur ríki hafa beinlínis komist í þrot, þannig að þau hafa ekki getað staðið í skilum. Sem dæmi má nefna Rússland sem árið 1998 gat ekki staðið að fullu við skuldbindingar sínar og varð að fresta greiðslu afborgana af hluta lána ríkisins. Lánin voru þó greidd síðar. Eitt af helstu hlutverkum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að koma ríkjum til aðstoðar sem lenda í vandræðum af þessu tagi. Þá er annars vegar sett upp aðgerðaáætlun sem á að bæta stöðu ríkisins, til dæmis með því að draga úr ríkisútgjöldum, þannig að raunhæft sé að það geti staðið við skuldbindingar sínar þegar fram líða stundir, og hins vegar veitt lán til að bregðast við brýnum skammtímavanda. Séu skuldbindingar ríkja að því er virðist óviðráðanlegar getur þurft að semja um niðurfellingu hluta þeirra. Sem dæmi um þetta má nefna að árið 1996 settu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn upp áætlun sem ætlað var að taka á stöðu 33 ríkja sem voru bæði mjög fátæk og skuldug (HIPC, Heavily Indebted Poor Countries). Flest ríkjanna eru í Afríku. Í áætluninni felst meðal annars talsverð niðurfelling skulda þannig að það sem eftir stendur ætti að vera viðráðanlegt fyrir viðkomandi ríki. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað gerist þegar einstaklingur er gerður gjaldþrota og hversu lengi gildir það? eftir Sigurð Guðmundsson
- Get ég sjálf látið gera mig gjaldþrota, við hvern á ég að tala og hvað kostar það? eftir Helgu Hafliðadóttur
- Ef einstaklingur er gerður gjaldþrota á Íslandi gildir það þá um önnur lönd líka? eftir Jón Elvar Guðmundsson
- BBC. Sótt 30.12.2008.
Bjarki Már Flosason, Sonja Gunnlaugsdóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Jóhannes Karl Hauksson og Sigrún Jónsdóttir