Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Lög nr. 21/1991 fjalla um gjaldþrotaskipti.
Við úrskurð um gjaldþrotaskipti verður til sérstakur lögaðili, þrotabú, sem tekur við öllum skuldum og eignum skuldara. Allar kröfur á hendur þrotabúi falla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðarins. Skipaður er skiptastjóri sem fer með forræði búsins en skiptameðferð tekur alla jafna nokkra mánuði þegar gjaldþrotaskiptin reynast ekki flókin. Hlutverk skiptastjóra er meðal annars að taka ákvarðanir um hvernig eignum og réttindum búsins verður ráðstafað. Þá kannar skiptastjóri hvort riftanlegar ráðstafanir hafi átt sér stað í aðdraganda gjaldþrots, til dæmis undanskot eigna. Skuldara ber að mæta á fund sem skiptastjóri boðar hann á og veita þær upplýsingar sem skiptastjóri krefst. Þá ber skuldara að afhenda eignir sem tilheyra þrotabúinu.
Strax í kjölfar úrskurðar um gjaldþrotaskipti mun skiptastjóri óska eftir að öllum reikningum og greiðslukortum skuldara sé lokað. Skuldari getur alla jafna stofnað nýjan innlánsreikning án heimildar eða fengið fyrirframgreitt kreditkort.
Vinnulaun sem skuldari vinnur sé inn meðan á gjaldþrotaskiptum stendur renna til hans sjálfs. Skuldari fær að halda eftir þeim eignum sem ekki er gert fjárnám í, til dæmis lausafjármunum til að halda látlaust heimili og nauðsynlegum lausafjármunum vegna örorku eða heilsubrests. Skiptastjóri getur óskað eftir því að skuldari verði tekinn af launagreiðendaskrá og að virðisaukaskattsnúmeri hans verði lokað. Þá getur skiptastjóri sagt upp samningi um leigu.
Strax í kjölfar úrskurðar um gjaldþrotaskipti mun skiptastjóri óska eftir að öllum reikningum og greiðslukortum skuldara sé lokað. Skuldari getur alla jafna stofnað nýjan innlánsreikning án heimildar eða fengið fyrirframgreitt kreditkort.
Gjaldþrotaskiptum getur lokið með úthlutun fjármuna til kröfuhafa ef eignir eru í búinu eða án úthlutunar ef engar eignir eru fyrir hendi.
Skuldari ber áfram ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Skuldir sem ekki fást greiddar við skiptin fyrnast (falla niður) þegar tvö ár eru liðin frá lokum skiptanna, nema fyrningu sé slitið. Með fyrningarslitum er átt við að það hefjist nýr fyrningarfrestur samkvæmt reglum laga. Kröfuhafi getur aðeins slitið fyrningu með því að fá dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum. Ströng skilyrði eru fyrir því að fá slíkan dóm. Hafi kröfuhafi hins vegar fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en tveggja ára fresturinn var á enda, fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda.
Vakin skal athygli á því að tveggja ára fyrningarfrestur og sérreglur um slit fyrningar við gjaldþrot, gilda ekki um kröfur Menntasjóðs námsmanna en um þær kröfur gilda ákvæði laga um fyrningu kröfuréttinda. Kröfur Menntasjóðs námsmanna fyrnast því á 10 árum. Þetta á við um þá sem voru úrskurðaðir gjaldþrota eftir 26. júní 2020.
Skuldari getur sjálfur slitið fyrningu á þessum tveimur árum með því að greiða af eða viðurkenna skuld. Launaafdráttur slítur ekki fyrningu. Kröfuhafar geta haldið áfram innheimtu á fyrningartíma eftir gjaldþrot. Þá skal vakin athygli á því að ábyrgðarskuldbindingar verða virkar í kjölfar gjaldþrots.
Gjaldþrotaskipti hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat hjá Creditinfo hf. og lánastofnunum. Þá eru upplýsingar um gjaldþrot skuldara á vanskilaskrá í tvö ár samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo.
Mynd:
Svar við þessari spurningu birtist fyrst á Vísindavefnum 27.10.2005 en nýtt svar var skrifað 11.5.2021. Vísindavefurinn þakkar Guðmundi Ásgeirssyni fyrir ábendingu um eldra svarið.
Svarið var lítillega lagfært 9.9.2021.
Lovísa Ósk Þrastardóttir. „Hvað gerist þegar einstaklingur er gerður gjaldþrota og hversu lengi gildir það?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2021, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5358.
Lovísa Ósk Þrastardóttir. (2021, 11. maí). Hvað gerist þegar einstaklingur er gerður gjaldþrota og hversu lengi gildir það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5358
Lovísa Ósk Þrastardóttir. „Hvað gerist þegar einstaklingur er gerður gjaldþrota og hversu lengi gildir það?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2021. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5358>.