Ef hlutur drekkur ekki í sig ljós heldur endurkastar því öllu sjáum við hann sem hvítan því hvítur er blanda af öllum bylgjulengdum hins sýnilega litrófs. Þetta er skýringin á hvíta lit snjósins eins og Ari Ólafsson fjallar um í svari við spurningunni Af hverju er snjórinn hvítur? Þar segir:
Snjór er samsettur úr örsmáum ískristöllum með fjölbreytta lögun. Hver stakur kristall er gegnsær en speglar nokkrum prósentum af þeirri ljósorku sem á hann fellur, líkt og gler. Hann drekkur sáralítið í sig af geislun. Þar sem kristallarnir snúa á ýmsa vegu dreifist þessi speglun í allar áttir, og það sem ekki speglast á fyrsta snjókorni sem geislinn mætir speglast á þeim næstu. Snjórinn endurvarpar þess vegna því sem næst allri geislun sem á hann fellur með dreifðu endurkasti, óháð öldulengd, og fær þess vegna hvíta áferð í dagsbirtu.Á Vísindavefnum eru mörg önnur svör um liti, til dæmis:
- Hvað eru litir?
- Af hverju er himinninn blár?
- Hvað verður um hvíta litinn þegar snjórinn bráðnar?
- Hvers vegna er sólin gul og grasið grænt?
- Eru til litir sem mannsaugað greinir ekki?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.