Í lífríkinu er hægt að greina tvo meginflokka æxlunar, annars vegar kynæxlun og hins vegar kynlausa æxlun. Meginmunurinn á þessum æxlunargerðum er sá að við kynæxlun makast einstaklingar af gagnkvæmu kyni, þar sem karldýrið myndar sáðfrumur og kvendýrið egg, en í kynlausri æxlun fjölgar lífvera sér sjálf án aðstoðar einstaklings af gagnstæðu kyni.Þegar kynæxlun hefur átt sér stað, sáðfruman hefur frjóvgað eggið, verður til fóstur sem þroskast í nýjan einstakling. Stundum fer frjóvgunin fram utan líkama dýranna, til dæmis hjá froskum og fiskum, þar sem frjóvgun verður í vatni eftir að bæði kynin hafa losað kynfrumur sínar. Um slíka æxlun má lesa í svari við spurningunni: Hvernig æxlast froskar? Í öðrum tilfellum verður frjóvgun innan líkama kvendýrsins en varla er hægt að segja að kvendýrið verði „ólétt“ þar sem fóstrið þroskast að mestu leyti utan líkamans. Þetta á bæði við um skriðdýr og fugla en lesa má um æxlun fugla í svari við spurningunni: Hvernig fjölga fuglar sér? Spendýr eru hins vegar þannig gerð frá náttúrunnar hendi að í langflestum tilfellum fer bæði frjóvgun og þroski fóstursins fram innan líkama kvendýrsins – kvendýrið verður „ólétt“. Þetta á við um menn jafnt sem önnur spendýr að nefdýrum undanskildum en þau verpa eggjum. Hægt er að lesa um tilurð nýrra einstaklinga, með áherslu á manninn, í svari við spurningunni: Hvernig verðum við til? Þrátt fyrir að tæknin geri það nú kleift að frjóvga egg utan líkamans, þá hafa karldýr, og þar með taldir karlmenn, ekki þau líffæri og þá líkamsgerð sem þarf til þess að fóstur geti vaxið þar og dafnað. Hvort það verður einhvern tíma framtíðinni tæknilega mögulegt að græða leg í karlmann þannig að hann geti gengið með barn er svo annað mál sem ekki verður fjallað um hér. Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg svör sem fjalla um æxlun tiltekinna lífvera. Sem dæmi má nefna:
- Hvernig æxlast smokkfiskar?
- Hvað geta krókódílar orðið stórir og hvernig æxlast þeir?
- Hvernig fjölga flugur sér?
- Hvernig fjölga hvalir sér?
- Hvað eru sæfíflar?
- Hvernig fjölga ljón sér?
- Hvernig fjölga ánamaðkar sér?
- Hvað eru kólfsveppir og hvernig er lífsferill þeirra?
Þetta svar er í flokknum „bekkirnir spyrja“ þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.