- Hvernig fjölga ljón sér? (Katrín Sigurðardóttir)
- Á hvaða tíma árs og hvernig fjölga ljón sér? (Svanbjörg Sigmarsdóttir)
- Getið þið frætt mig um ríki, flokk, ætt, ættbálk, tegund og tengsl ljóna? (Ragnhildur Björk Theodórsdóttir)
Þegar karlljón hefur fundið ljónynju í mökunarham, nálgast það hana og þau þefa hvort af öðru. Atferlisfræðingar sem hafa skoðað ástarlíf ljóna, hafa tekið eftir því að í framhaldinu gerist annað tveggja. Annað hvort kemur ljónynjan sér fyrir strax í mökunarstellingu, eða hún lætur karlinn ganga á eftir sér og skokkar með rófuna upp í loftið meðan karlinn eltir hana. Þegar allt er til reiðu kemur ljónynjan sér fyrir í mökunarstellingu, leggst niður, þrýstir kviðnum við jörðina og færir rófuna til hliðar svo aðgengi karlsins að legopinu sé sem greiðast. Hann kemur sér fyrir ofan á henni og hefur mök við hana, um leið bítur hann laust í hnakkadrampið á henni. Við fyrstu sýn virðist kynlíf ljóna vera frekar hörkulegt og í raun er það ekki sársaukalaust, því fremst á getnaðarlim karlsins er broddur sem meiðir kvendýrið aðeins. Kynmök taka ekki langan tíma en kvendýrið hefur mök að meðaltali á 15 mínútna fresti meðan á eðlunartíma stendur. Þess á milli halda karldýrið og kvendýrið sig nærri hvort öðru. Ljónynjur halda yfirleitt tryggð við eitt karldýr á þessum tíma en karlarnir eru líklegri til að leita annað enda samanstendur ljónahópurinn af einu eða tveimur karldýrum en mun fleiri kvendýrum. Í einni rannsókn kom fram að ljónapar stundaði mök 157 sinnum á 55 klst tímabili. Æxlun verður með sama hætti og hjá öðrum spendýrum, innvortis þar sem sáðfrumur frjóvga egg í leginu. Eftir 108 daga meðgöngu (að meðaltali) gýtur ljónynjan frá 2 til 4 hvolpum (reyndar er það vel þekkt að ljónynja gjóti allt að 6 hvolpum). Í náttúrunni er algengast að ljónynjur eignist hvolpa á tveggja ára fresti en í dýragörðum getur það gerst á hverju ári. Nýfæddir hvolparnir eru hjálparvana og blindir. Feldur þeirra er með greinilegum, dökkbrúnum flekkjum sem hverfa við kynþroska. Hvolparnir nærast eingöngu á móðurmjólk fyrstu 6-7 mánuðina en byrja þá að neyta kjöts í vaxandi mæli og taka þátt í veiðum frá 11 mánuða aldri.
Flokkun ljónsins er með eftirfarandi hætti:
- Ríki - Dýr (Animalia): Ljón er fyrst flokkað sem dýr!
- Fylking - Seildýr (Chordata): Ljónið er með baklæga stoðgrind.
- Hópur - Spendýr (Mammalia): Ljón er spendýr.
- Ættbálkur - Rándýr (Carnivora): Öll rándýr eru í þessum ættbálk.
- Ætt - Kattardýr (Felidaea): Öll kattardýr eru í þessari ætt.
- Ættkvísl - Stórkettir (Panthera): Allir stórir kettir eru í þessari ættkvísl, svo sem ljón, tígrisdýr og hlébarðar.
- Tegund - Ljón (leo): Tegundaheitið er því Panthera leo á latinu.
- berbaljónið (Panthera leo leo) (útdautt)
- asíska ljónið (Panthera leo persica)
- hellaljónið (Panthera leo melanochaita) (útdautt)
- vestur-afríska ljónið (Panthera leo senegalensis)
- norð-austur kongó ljónið (Panthera leo azandica)
- austur-afríska ljónið (núbíuljónið) (Panthera leo nubica)
- katanga- ljónið (Panthera leo bleyenberghi)
- suður-afríska ljónið (Panthera leo krugeri)
- Hverjir eru vinir og óvinir ljónsins? eftir Jón Má Halldórsson
- Benyus, Janine M. (1998). The Secret Language and Remarkable Behavior of Animals. New York. Black Dog & Leventhal Publishers
- Study of Animal Behaviour
- Encyclopædia Britannica
- Afrigalah's wildlife photos