Hversu oft fer ljósið í kringum jörðina á mánuði?Ljóshraði er nálægt því 300.000 km/s. Það tekur ljós því ekki nema um 0,13 sekúndur að fara 40.000 km sem jafngildir um það bil ummáli jarðar um miðbaug. Að fara 80 hringi tekur rétt rúmlega 10 sekúndur. Á einum mánuði kemst ljósið ansi langt. Ef reiknað er með að mánuðurinn séu 30 dagar, þá gerir það 30 (sólahringar) x 24 (klukkustundir í sólarhring) x 60 (mínútur í klukkustund) x 60 (sekúndur í mínútu) = 2.592.000 sekúndur. Á þessum tíma ferðast ljósið 777.600.000.000 km sem jafngildir 19.440.000 hringjum umhverfis jörðina.
Í rauninni fer ljósið svo hratt að við getum yfirleitt ekki greint eða mælt tímann sem það tekur ljósið að fara milli tveggja staða á jörðinni. Í svari við spurningunni Hversu hratt kemst ljósið? er til að mynda tekið sem dæmi að það tekur ljósið ekki nema einn þúsundasta úr sekúndu að fara á milli tveggja staða á jörðinni sem eru í 300 km fjarlægð hvor frá öðrum. Fleiri dæmi um hve langan tíma það tekur ljósið að ferðast ýmsar vegalengdir má sjá í eftirfarandi töflu sem fengin er úr svari við spurningunni Ef flugvél flýgur á ljóshraða, hversu lengi er hún þá að fljúga yfir Ísland frá austri til vesturs?
Leið | Vegalengd | Tími |
Sól – jörð (meðalfjarlægð) | 149.476.000 km | 489 s eða 8 mín og 18 s |
Tungl – jörð (meðalfjarlægð) | 384.401 km | 1,3 s |
Umhverfis jörðina (við miðbaug) | 40.075 km | 0,13 s |
Meðfram strandlengju Íslands | 4.970 km | 0,017 s |
Þvert yfir Ísland | 500 km | 0,0017 s |
- Hvers vegna er ekki hægt að ferðast á ljóshraða, til dæmis að búa til vél sem getur það? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Er ljóshraðinn mesti hraði í heimi? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Ef ljóshraði er eins fljótur og maður smellir verður þá einhvern tímann hægt að hlaupa á ljóshraða? eftir JGÞ
- Hversu lengi er ljósið á leiðinni til næstu stjörnu? eftir JGÞ
- Ef maður kæmist á ljóshraða hvað væri maður lengi frá sólinni til Plútó? eftir EDS
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.