Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar þekking er öruggust?

Geir Þ. Þórarinsson

Eins og fram kemur í svar Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Hvað er þekking? er orðið „þekking“ margrætt og þar að auki er umdeilt meðal þekkingarfræðinga (það er heimspekinga sem fjalla um eðli og uppsprettur þekkingar) hvernig eigi að skilgreina hugtakið og hversu margar gerðir þekkingar eru.

Sumir heimspekingar hafa viljað skilgreina þekkingu sem sanna, rökstudda skoðun eða hafa haldið því fram að þetta séu að minnsta kosti nauðsynleg skilyrði þekkingar. Um þetta má lesa nánar í ofannefndu svari Eyju. En þar með telst ekkert vera þekking ef það er ósatt. Ég gæti því ekki búið yfir þeirri þekkingu að Belgía sé stærri en Þýskaland eða að sólin sé á braut um jörðina því að hvort tveggja er ósatt – ég gæti að vísu haldið að ég byggi yfir þessari þekkingu en það væri ekki rétt. Í þessum skilningi er því öll réttnefnd þekking örugglega sönn. En þegar spurt er hvers konar þekking er öruggust skiptir miklu máli að huga að því hvernig þekkingarinnar er aflað; sumar leiðir til þess að afla þekkingar eru árangursríkari en aðrar. Það getur líka skipt máli hvert viðfang þekkingarinnar er.


Að halda því fram að sólin sé á braut um jörðu er ekki sönn þekking. Myndin er samsett.

En hvaða leiðir til að afla þekkingar eru þá árangursríkar og öruggar? Nú getur verið að spyrjandi eigi annaðhvort við þekkingu einstaklings eða þá uppsafnaða þekkingu mannkyns, sem enginn einn einstaklingur býr yfir. Ef við byrjum á uppsafnaðri þekkingu mannkyns, þá hlýtur vísindaleg þekking að koma helst til greina sem öruggasta þekkingin. Hennar hefur verið aflað á skipulegan og kerfisbundinn hátt með aðferðum sem mótast hafa á löngum tíma og sem hafa reynst okkur best, oft með afar nákvæmum mælingum og ítrekuðum tilraunum. Önnur uppsöfnuð þekking, eins og til dæmis ýmis húsráð sem hafa varðveist frá einni kynslóð til annarrar, hefur ekki verið sannreynd með sama hætti. Það er ekkert víst að einstök húsráð eigi við nein rök að styðjast þótt þau hafi varðveist kynslóð fram af kynslóð. En vísindin eru að sjálfsögðu ekki heldur óskeikul. Þetta má meðal annars sjá af því að þegar nýjar vísindalegar uppgötvanir eru gerðar kemur gjarnan í ljós um leið að fyrri kenningar voru rangar eða að minnsta kosti ófullnægjandi og í þeirra stað eru settar fram nýjar kenningar.

Á síðari hluta 20. aldar gagnrýndu ýmsir þá hugmynd að vísindin hefðu sérstakan aðgang að þekkingu á raunveruleikanum. Um þetta má lesa nánar í svari Jóns Ólafssonar við spurningunni Hvað eru vísindi?. En þar segir líka meðal annars:
Eitt höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar er sífelld endurskoðun vísindalegra niðurstaðna. Það er einnig einkenni vísindalegrar aðferðar að afmarka viðfangsefni þannig að alltaf sé ljóst með hvaða hætti megi hrekja kenningu eða tilgátu sem sett er fram. Þessi einkenni vísinda benda til að sá valdi ekki alltaf sem á heldur.
Þessi höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar eru einmitt meðal þess sem vekur traust á vísindunum, enda þótt niðurstöðurnar geti auðvitað reynst rangar síðar meir. Skýr afmörkun viðfangsefnisins, nákvæmar mælingar, ítrekaðar tilraunir og sífelld endurskoðun niðurstaðna gera að verkum að vísindaleg aðferð er árangursríkari en flestar aðrar aðferðir.

En hvað með þekkingu einstaklinga? Sá sem ætlar að afla sér þekkingar getur í grófum dráttum gert það með þrennum hætti: af eigin reynslu, með rökhugsun og með því að læra af öðrum. Allar þessar leiðir eru misáreiðanlegar. Þegar maður lærir af öðrum, til dæmis með því að lesa bók eða spyrja einhvern, er vitneskjan einungis jafn áreiðanleg og heimildin eða heimildarmaðurinn. Ef ég vil vita hverjar voru orsakir fjármálakreppunnar og spyr einhvern um þær eða les mér til um þær á vefsíðu, þá er upplýsingunum sem ég fæ einungis treystandi ef sá sem ég spyr eða sá sem setti upp vefsíðuna sem ég las býr raunverulega yfir þekkingu á orsökum fjármálakreppunnar. Þegar maður beitir rökhugsun til að afla sér þekkingar (og við gefum okkur að í röksemdafærslunni gerist maður ekki sekur um neinar rökvillur), þá er þekkingin sem leidd er út einungis jafn áreiðanleg og forsendurnar sem maður gefur sér. Þessu sama marki er stærðfræðileg þekking brennd, hún er einungis eins örugg og frumsendurnar sem maður gefur sér. Það eru ekki allar röksemdafærslur afleiðslur heldur geta þær einnig verið tilleiðslur en tilleiðslur geta verið misskynsamlegar. Um þetta má lesa í svari Erlends Jónssonar við spurningunni Hvað eru skynsamleg rök?

Bein reynsla er einnig misáreiðanleg. Þótt við séum allsgáð og í góðu líkamlegu og andlegu ástandi, ekki veik og þar fram eftir götunum getur okkur samt missést eða við misheyrt eitthvað. Sumt er líka erfiðara að þekkja af reynslu en annað, ef til vill af því að það er of lítið til þess að við getum séð það jafnvel með smásjá eða af því að það er of langt í burtu til þess að við getum séð það almennilega jafnvel með öflugum stjörnusjónauka. Þar að auki er minnið brigðult þannig að það er ekki víst að við munum rétt það sem við sáum skýrt og greinilega með eigin augum í gær eða jafnvel rétt áðan. Enda er vel þekkt að vitnisburður sjónarvotta, til dæmis að árekstri eða ráni, getur verið afar ólíkur.

En hvað með okkar eigin upplifanir? Ætli manni geti skjátlast um hvort maður finni til þegar maður finnur til eða sjái eitthvað rautt þegar maður sér rautt? Það getur vel verið að manni skjátlist um að hlutur sem maður sér sé rauður, þegar betur er að gáð gæti hann til dæmis reynst vera brúnn. En getur manni skjátlast um að það sem maður upplifir sem rautt upplifi maður einmitt sem rautt? Og eins má spyrja hvort maður viti ekki einfaldlega beint og milliliðalaust hvort maður er með tannpínu eða ekki. Að sjálfsögðu má vera að það sé ekki tannskemmd sem veldur sársaukanum en ef maður finnur til, þá veit maður örugglega að maður finni til meðan verkurinn er til staðar. Þekking af þessu tagi – þekking á eigin hugarferlum, skynjunum og svo framvegis – er stundum nefnd sjálfsþekking og er oft talin vera sérstaklega örugg þekking. Þess háttar hugmyndum hafa heimspekingar á borð við René Descartes og John Locke haldið fram. En hugmyndir um sjálfsþekkingu hafa einnig sætt gagnrýni úr ýmsum áttum, til dæmis frá Ludwig Wittgenstein og Gilbert Ryle.

Franski heimspekingurinn René Descartes taldi sig hafa aflað sér ákveðinnar þekkingar sem væri algerlega örugg. Hann taldi sig geta efast um hvaðeina, að hinn ytri heimur væri til, að hann hefði líkama og svo framvegis, allt gæti þetta verið blekking einhvers ills anda; en hann taldi sig ekki geta efast um sína eigin tilvist. Sá sem er blekktur og efast er að hugsa og sá sem hugsar er til, því að það er ómögulegt að einhver sem er ekki til hugsi. Á þessum trausta grunni („Ég hugsa, þess vegna er ég“) reyndi Decartes síðan að reisa heilt heimspekikerfi. Heimspekikenning af þessu tagi heitir bjarghyggja af því að hún reynir að byggja á traustu bjargi. Þessu fylgir að þekkingin sem myndar bjargið á að vera traustari en önnur þekking sem á henni hvílir. Margir heimspekingar hafna alfarið bjarghyggju nú um mundir.

Að lokum ber að geta þess að margir hafa efast um að mögulegt sé að afla nokkurrar þekkingar yfirhöfuð. Þeir sem neita því og segja að öll þekking sé ómöguleg eru nefndir „neikvæðir kredduspekingar“ því að þeir hafa kreddu eins og aðrir þótt hún sé að vísu neikvæð og gangi út á að þekking sé ómöguleg. Það hafa einnig verið til efahyggjumenn en réttnefndir efahyggjumenn halda því ekki fram að þekking sé ómöguleg (enda hvernig gætu þeir vitað það?) heldur fresta þeir dómi þegar þeim virðist ekki hægt að fá úr því skorið hvort eitthvað er svona eða hinsegin.

Svarið við spurningunni er því í hnotskurn að veltur svolítið á því hvernig við skilgreinum þekkingu hver „öruggasta þekkingin“ er. Ef við skilgreinum þekkingu sem „sanna rökstudda skoðun“ þá er öll þekking örugglega sönn því annars teldist hún ekki þekking. Spurningin er þá á hinn bóginn hvenær við búum yfir þekkingu, það er hvenær við getum verið viss um að við skoðanir okkar séu sannar. Það er engin pottþétt leið til að afla þekkingar sem bregst aldrei; nema þá ef vera skyldi að bein og milliliðalaus sjálfsþekking sé óbrigðul en um hana er deilt. Aftur á móti hafa aðferðir vísindanna með nákvæmum mælingum, ítrekuðum tilraunum og sífelldri endurskoðun niðurstaðnanna reynst okkur hvað best við öflun þekkingar.

Meira lesefni:

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

15.1.2009

Spyrjandi

Stefanía Regína Jakobsdóttir, f. 1990

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers konar þekking er öruggust?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2009, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49347.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 15. janúar). Hvers konar þekking er öruggust? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49347

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers konar þekking er öruggust?“ Vísindavefurinn. 15. jan. 2009. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49347>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar þekking er öruggust?
Eins og fram kemur í svar Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Hvað er þekking? er orðið „þekking“ margrætt og þar að auki er umdeilt meðal þekkingarfræðinga (það er heimspekinga sem fjalla um eðli og uppsprettur þekkingar) hvernig eigi að skilgreina hugtakið og hversu margar gerðir þekkingar eru.

Sumir heimspekingar hafa viljað skilgreina þekkingu sem sanna, rökstudda skoðun eða hafa haldið því fram að þetta séu að minnsta kosti nauðsynleg skilyrði þekkingar. Um þetta má lesa nánar í ofannefndu svari Eyju. En þar með telst ekkert vera þekking ef það er ósatt. Ég gæti því ekki búið yfir þeirri þekkingu að Belgía sé stærri en Þýskaland eða að sólin sé á braut um jörðina því að hvort tveggja er ósatt – ég gæti að vísu haldið að ég byggi yfir þessari þekkingu en það væri ekki rétt. Í þessum skilningi er því öll réttnefnd þekking örugglega sönn. En þegar spurt er hvers konar þekking er öruggust skiptir miklu máli að huga að því hvernig þekkingarinnar er aflað; sumar leiðir til þess að afla þekkingar eru árangursríkari en aðrar. Það getur líka skipt máli hvert viðfang þekkingarinnar er.


Að halda því fram að sólin sé á braut um jörðu er ekki sönn þekking. Myndin er samsett.

En hvaða leiðir til að afla þekkingar eru þá árangursríkar og öruggar? Nú getur verið að spyrjandi eigi annaðhvort við þekkingu einstaklings eða þá uppsafnaða þekkingu mannkyns, sem enginn einn einstaklingur býr yfir. Ef við byrjum á uppsafnaðri þekkingu mannkyns, þá hlýtur vísindaleg þekking að koma helst til greina sem öruggasta þekkingin. Hennar hefur verið aflað á skipulegan og kerfisbundinn hátt með aðferðum sem mótast hafa á löngum tíma og sem hafa reynst okkur best, oft með afar nákvæmum mælingum og ítrekuðum tilraunum. Önnur uppsöfnuð þekking, eins og til dæmis ýmis húsráð sem hafa varðveist frá einni kynslóð til annarrar, hefur ekki verið sannreynd með sama hætti. Það er ekkert víst að einstök húsráð eigi við nein rök að styðjast þótt þau hafi varðveist kynslóð fram af kynslóð. En vísindin eru að sjálfsögðu ekki heldur óskeikul. Þetta má meðal annars sjá af því að þegar nýjar vísindalegar uppgötvanir eru gerðar kemur gjarnan í ljós um leið að fyrri kenningar voru rangar eða að minnsta kosti ófullnægjandi og í þeirra stað eru settar fram nýjar kenningar.

Á síðari hluta 20. aldar gagnrýndu ýmsir þá hugmynd að vísindin hefðu sérstakan aðgang að þekkingu á raunveruleikanum. Um þetta má lesa nánar í svari Jóns Ólafssonar við spurningunni Hvað eru vísindi?. En þar segir líka meðal annars:
Eitt höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar er sífelld endurskoðun vísindalegra niðurstaðna. Það er einnig einkenni vísindalegrar aðferðar að afmarka viðfangsefni þannig að alltaf sé ljóst með hvaða hætti megi hrekja kenningu eða tilgátu sem sett er fram. Þessi einkenni vísinda benda til að sá valdi ekki alltaf sem á heldur.
Þessi höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar eru einmitt meðal þess sem vekur traust á vísindunum, enda þótt niðurstöðurnar geti auðvitað reynst rangar síðar meir. Skýr afmörkun viðfangsefnisins, nákvæmar mælingar, ítrekaðar tilraunir og sífelld endurskoðun niðurstaðna gera að verkum að vísindaleg aðferð er árangursríkari en flestar aðrar aðferðir.

En hvað með þekkingu einstaklinga? Sá sem ætlar að afla sér þekkingar getur í grófum dráttum gert það með þrennum hætti: af eigin reynslu, með rökhugsun og með því að læra af öðrum. Allar þessar leiðir eru misáreiðanlegar. Þegar maður lærir af öðrum, til dæmis með því að lesa bók eða spyrja einhvern, er vitneskjan einungis jafn áreiðanleg og heimildin eða heimildarmaðurinn. Ef ég vil vita hverjar voru orsakir fjármálakreppunnar og spyr einhvern um þær eða les mér til um þær á vefsíðu, þá er upplýsingunum sem ég fæ einungis treystandi ef sá sem ég spyr eða sá sem setti upp vefsíðuna sem ég las býr raunverulega yfir þekkingu á orsökum fjármálakreppunnar. Þegar maður beitir rökhugsun til að afla sér þekkingar (og við gefum okkur að í röksemdafærslunni gerist maður ekki sekur um neinar rökvillur), þá er þekkingin sem leidd er út einungis jafn áreiðanleg og forsendurnar sem maður gefur sér. Þessu sama marki er stærðfræðileg þekking brennd, hún er einungis eins örugg og frumsendurnar sem maður gefur sér. Það eru ekki allar röksemdafærslur afleiðslur heldur geta þær einnig verið tilleiðslur en tilleiðslur geta verið misskynsamlegar. Um þetta má lesa í svari Erlends Jónssonar við spurningunni Hvað eru skynsamleg rök?

Bein reynsla er einnig misáreiðanleg. Þótt við séum allsgáð og í góðu líkamlegu og andlegu ástandi, ekki veik og þar fram eftir götunum getur okkur samt missést eða við misheyrt eitthvað. Sumt er líka erfiðara að þekkja af reynslu en annað, ef til vill af því að það er of lítið til þess að við getum séð það jafnvel með smásjá eða af því að það er of langt í burtu til þess að við getum séð það almennilega jafnvel með öflugum stjörnusjónauka. Þar að auki er minnið brigðult þannig að það er ekki víst að við munum rétt það sem við sáum skýrt og greinilega með eigin augum í gær eða jafnvel rétt áðan. Enda er vel þekkt að vitnisburður sjónarvotta, til dæmis að árekstri eða ráni, getur verið afar ólíkur.

En hvað með okkar eigin upplifanir? Ætli manni geti skjátlast um hvort maður finni til þegar maður finnur til eða sjái eitthvað rautt þegar maður sér rautt? Það getur vel verið að manni skjátlist um að hlutur sem maður sér sé rauður, þegar betur er að gáð gæti hann til dæmis reynst vera brúnn. En getur manni skjátlast um að það sem maður upplifir sem rautt upplifi maður einmitt sem rautt? Og eins má spyrja hvort maður viti ekki einfaldlega beint og milliliðalaust hvort maður er með tannpínu eða ekki. Að sjálfsögðu má vera að það sé ekki tannskemmd sem veldur sársaukanum en ef maður finnur til, þá veit maður örugglega að maður finni til meðan verkurinn er til staðar. Þekking af þessu tagi – þekking á eigin hugarferlum, skynjunum og svo framvegis – er stundum nefnd sjálfsþekking og er oft talin vera sérstaklega örugg þekking. Þess háttar hugmyndum hafa heimspekingar á borð við René Descartes og John Locke haldið fram. En hugmyndir um sjálfsþekkingu hafa einnig sætt gagnrýni úr ýmsum áttum, til dæmis frá Ludwig Wittgenstein og Gilbert Ryle.

Franski heimspekingurinn René Descartes taldi sig hafa aflað sér ákveðinnar þekkingar sem væri algerlega örugg. Hann taldi sig geta efast um hvaðeina, að hinn ytri heimur væri til, að hann hefði líkama og svo framvegis, allt gæti þetta verið blekking einhvers ills anda; en hann taldi sig ekki geta efast um sína eigin tilvist. Sá sem er blekktur og efast er að hugsa og sá sem hugsar er til, því að það er ómögulegt að einhver sem er ekki til hugsi. Á þessum trausta grunni („Ég hugsa, þess vegna er ég“) reyndi Decartes síðan að reisa heilt heimspekikerfi. Heimspekikenning af þessu tagi heitir bjarghyggja af því að hún reynir að byggja á traustu bjargi. Þessu fylgir að þekkingin sem myndar bjargið á að vera traustari en önnur þekking sem á henni hvílir. Margir heimspekingar hafna alfarið bjarghyggju nú um mundir.

Að lokum ber að geta þess að margir hafa efast um að mögulegt sé að afla nokkurrar þekkingar yfirhöfuð. Þeir sem neita því og segja að öll þekking sé ómöguleg eru nefndir „neikvæðir kredduspekingar“ því að þeir hafa kreddu eins og aðrir þótt hún sé að vísu neikvæð og gangi út á að þekking sé ómöguleg. Það hafa einnig verið til efahyggjumenn en réttnefndir efahyggjumenn halda því ekki fram að þekking sé ómöguleg (enda hvernig gætu þeir vitað það?) heldur fresta þeir dómi þegar þeim virðist ekki hægt að fá úr því skorið hvort eitthvað er svona eða hinsegin.

Svarið við spurningunni er því í hnotskurn að veltur svolítið á því hvernig við skilgreinum þekkingu hver „öruggasta þekkingin“ er. Ef við skilgreinum þekkingu sem „sanna rökstudda skoðun“ þá er öll þekking örugglega sönn því annars teldist hún ekki þekking. Spurningin er þá á hinn bóginn hvenær við búum yfir þekkingu, það er hvenær við getum verið viss um að við skoðanir okkar séu sannar. Það er engin pottþétt leið til að afla þekkingar sem bregst aldrei; nema þá ef vera skyldi að bein og milliliðalaus sjálfsþekking sé óbrigðul en um hana er deilt. Aftur á móti hafa aðferðir vísindanna með nákvæmum mælingum, ítrekuðum tilraunum og sífelldri endurskoðun niðurstaðnanna reynst okkur hvað best við öflun þekkingar.

Meira lesefni:

Mynd: