- Hver er ástæða þess að stjórnmálastefnur er titlaðar til hægri eða vinstri?
- Þegar það er talað um vinstri og hægri í pólitík, hvað er þá átt við?
- Hver er munurinn á hægrisinnuðum manni eða vinstrisinnuðum?
- Hvað er það að vera vinstrisinnaður eða hægrisinnaður?
- Hver er skýringin á nafngiftinni vinstrisinnaður/hægrisinnaður?
Saga og tilurð vinstri-hægri hugtaksins
Rekja má skiptingu í stjórnmálum í hægri og vinstri til sætaskipanar í franska þinginu í kjölfar byltingarinnar árið 1789. Þeir sem voru hollir konungi og talsmenn hægfara samfélagsbreytinga röðuðu sér smám saman hægra megin en ákafari stuðningsmenn frelsis og jafnréttis þjöppuðu sér til vinstri (Noël & Thérien, 2008). Í upphafi 20. aldar hófu önnur Evrópulönd að nota þessi hugtök og fór þá vinstri að standa fyrir róttækar lýðræðisumbætur og síðar sósíalisma með róttækum hugmyndum um jöfnuð. Hægri var hins vegar notað yfir þá sem voru andsnúnir slíkum hugmyndum (Adams, 2001). Fram til ársins 1970 var vinstri-hægri aðgreiningin fyrst og fremst notuð yfir stéttabaráttu og kröfu verkafólks um betri kjör. Það breyttist þegar ungt og menntað fólk fór einnig að taka undir kröfuna um aukinn félagslegan og efnahagslegan jöfnuð (Noël & Thérien, 2008). Vegna þessarar sögu er stundum talað um frjálslyndi (e. liberalism) og íhaldssemi (e. conservatism) í stað vinstri og hægri. Þannig er það til að mynda í Bandaríkjunum.
Rekja má skiptingu í stjórnmálum í hægri og vinstri til sætaskipanar í franska þinginu í kjölfar byltingarinnar árið 1789.

Hægrisinnaður einstaklingur er líklegur til að telja að efnahagslegur og félagslegur ójöfnuður milli fólks sé óhjákvæmilegur og í raun æskilegur. Franskt málmþrykk frá 1840.
Sálfræði vinstri-hægri
Margar rannsóknir hafa fengist við að bera saman viðhorf, markmið, gildismat, áhugahvöt og allskyns einstaklingsmun svo sem persónuleika þeirra sem hallast til vinstri og hægri. Í áhrifamikilli safngreiningu frá árinu 2003 þar sem lagðar voru til grundvallar 88 rannsóknir frá undangengnum 50 árum drógu rannsakendur þá ályktun að bæði aðstæður og einstaklingsmunur sem tengjast þörf til þess að hafa stjórn á ótta og óvissu væru tengdar vinstri-hægri víddinni sterkum böndum (Jost, Glasker, Kruglanski og Sulloway, 2003). Nánar tiltekið þá komust þeir að því að óþol fyrir tvíræðni, þörfin fyrir skipulag og öryggi, jafnvel óttinn við dauðann tengdist hægri en löngun til að upplifa eitthvað nýtt, þol fyrir óvissu og jafnvel ákvörðunarfælni tengdist frekar vinstri.Vinstri-hægri á Íslandi
Á Íslandi er alkunna að talað sé um hægri og vinstri í samhengi við stjórnmál. Rannsóknir hafa sýnt að almenningur á auðvelt með að staðsetja bæði sjálfan sig og stjórnmálaflokkana á ásnum. Áður en rót komst á íslenska flokkalandslagið eftir efnahagshrunið 2008 þá var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn var tvímælalaust álitinn lengst til hægri allra flokka, Framsókn nærri miðju, Samfylking til vinstri en þó ekki eins langt og Vinstri-græn sem voru álitin vera langt til vinstri. Samkvæmt niðurstöðu Íslensku kosningarannsóknarinnar sem gerð var í kjölfar alþingiskosninganna 2016 álitu þátttakendur að flokkarnir sem náðu manni inn á þing röðuðust svona frá vinstri til hægri: Vinstri-græn, Píratar, Samfylking, Björt framtíð, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur. Greiningar á Íslensku kosningarannsókninni sem stjórnmálafræðingar innan Háskóla Íslands hafa framkvæmt eftir hverjar alþingiskosningar frá árinu 1983, hafa sýnt að í kringum 80-90% fólks er tilbúið til að staðsetja eigin stjórnmálaafstöðu á vinsti-hægri ásnum. Þegar fólk er beðið um að staðsetja sig á kvarðanum 0 til 10 þar sem 0 er vinstri og 10 er hægri, eru það yfirleitt á bilinu 22%-26% sem velja miðjugildið (5) en dreifing er þó talsverð og meðaltals-staðsetning hefur iðulega verið rétt hægra meginn við miðju, eða á bilinu 5,15 til 5,56 á kvarðanum. Niðurstöður Íslensku kosningarannsóknarinnar hafa enn fremur sýnt að það sem fyrst og fremst hefur aðgreint vinstri og hægri á Íslandi undanfarin ár er afstaðan til efnahagslegs ójöfnuðar og hversu langt ríkið á að ganga til að draga úr honum. Þetta endurspeglast meðal annars í skoðun fólks á einkarekstri í heilbrigðis- og menntamálum. Afstaðan til jöfnuðar hefur þó sögulega ekki alltaf verið það sem greinilegast skilur á milli vinstri og hægri hér á landi. Fram til ársins 2006, þegar bandaríski herinn hætti að halda úti herstöð í Keflavík, sýndu niðurstöður rannsókna ávallt að afstaðan til veru hersins hafði sterkasta samband allra pólitískra viðhorfa við vinstri-hægri víddina. Vinstrisinnaðir höfðu í senn sterk neikvæð viðhorf til herstöðvarinnar og til veru Íslands í NATÓ. Andstaða við samfélagslegar breytingar í frjálsræðisátt (svo sem réttindabarátta samkynhneigðra) hefur á hinn bóginn ekki haft veruleg tengsl við vinstri-hægri hér á landi. Þessar niðurstöður hafa meðal annars verið endurteknar í all umfangsmikilli BA-ritgerð frá árinu 2012 (Viktor Orri Valgarðsson, 2012).Gagnrýni á vinstri-hægri ásinn
Þrátt fyrir að ekki sé hægt að afneita mikilvægi vinstri-hægri ássins í vestrænum stjórnmálum, hefur notkun hans einnig verið talsvert gagnrýnd. Algengasta gagnrýnin felst líklega í því að ein vinstri-hægri vídd sé svo mikil einföldun á stjórnmálaskoðunum fólks að hún verði hálfgerð merkingarleysa. Í þessu felst að undir merkimiðana hægri og vinstri falli skoðanir sem hafi enga röklega tengingu sín á milli, svo sem skoðanir á sköttum og trúmálum. Af þessu leiði að við gefum öðrum mikilvægum skoðanamun í pólitík ekki nægan gaum (Conover og Feldman, 1981; Kerlinger, 1984) og lítum fram hjá skoðunum sem fólk getur sameinast um (Brittan, 2012).
Rannsóknir hafa sýnt að vinstri-hægri ásinn hefur merkingu í hugum fólks í vestrænum samfélögum og að yfirgnæfandi meirihluti almennings treystir sér til þess að staðsetja eigin skoðanir á ásnum.
- Adams, I. (2001). Political Ideology Today Manchester, UK: Manchester University Press.
- Bell, D. (1960). The End of Ideology. Glencoe, IL: Free Press.
- Bobbio, N. (1996). Left and right. Cambridge, UK: Polity Press.
- Brittan, S. (2012, April 12). The bogus distinction between left and right. The Financial Times. Sótt 20. nóvember 2012 á http://on.ft.com/HEWwek.
- Burke E. 1790/1987. Reflections on the Revolution in France, and on the Proceedings in Certain Societies in London Relative to that Event, ritstj. JGA Pocock. Indianapolis, IN: Hackett Publishing Company.
- Conover, P.J. & Feldman, S. (1981). The origin and meaning of liberal/conservative self identification. American Journal of Political Science, 25, 617-645.
- Converse P.E. (1964). The nature of belief systems in mass publics. Í D. E. Apter (ritstj.), Ideology and discontent (bls. 206-261). New York: Free Press.
- Giddens, A. (1994). Beyond Left and Right: The Future of Radical Politics, Cambridge, UK: Polity Press.
- Huntington, S. P. (1957). Conservatism as an Ideology. The American political science review, 51(2), 454-473.
- Jost, J.T., Glaser, J., Kruglanski, A.W., & Sulloway, F. (2003). Political conservatism as motivated social cognition. Psychological Bulletin, 129, 339-375.
- Kerlinger, F. N. (1984). Liberalism and conservatism: The nature and structure of social attitudes. Hillsdale, NJ: Erlbaum.
- Lipset, S. (1960). Political man. Garden City, NY: Doubleday.
- Muller, J. Z. (2001). Conservatism: Historical aspects. Í N. J. Smelser & P. B. Baltes (ritstj.), International encyclopedia of the social and behavioral sciences (bls. 2624–2628). Amsterdam: Elsevier.
- Noël, A., & Thérien, J. P. (2008). Left and right in global politics. Cambridge: Cambridge University Press.
- Viktor Orri Valgarðsson, (2012). Íslenskir áttavitar, þýðing hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum. BA ritgerð, Háskóli Íslands.
- The Left-Right Political Spectrum Is Bogus - The Atlantic. (Sótt 24. 10. 2017).
- File:A rich physician feels the pulse of a poor, sick patient; he Wellcome L0022225.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 25.10.2017).
- Free photo: Direction, Road, Look, Right, Arrow - Free Image on Pixabay - 654123. (Sótt 25.10.2017).