Einn helsti munurinn á flokkunum í dag er afstaða þeirra til valds alríkisins og ríkjanna. Repúblikanar vilja draga úr völdum alríkisstjórnarinnar (þings, ríkisstjórnar og forseta) og telja að ríkin eigi að bera ábyrgð á fleiri málaflokkum. Demókratar telja hins vegar að alríkisstjórnin eigi að fara með meiri völd. Þá vilja Repúblikanar afnám reglna á markaði og telja að frjálst viðskiptalíf sé öllum í hag. Þeir vilja ekki setja heildarreglur um lágmarkslaun en vilja lækka skatta á alla, enda auki það hagnað allra. Demókrataflokkurinn vill frekar setja reglur, bæði um starfsemi fyrirtækja og hins opinbera. Hann vill setja reglur um lágmarkslaun og er tilbúinn til að hækka skatta á þá sem þéna mest, enda sé það hlutverk hins opinbera að tryggja ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Gott dæmi um ólíka stefnu þessara flokka og framkvæmd hennar er afstaða þeirra til opinbers sjúkratryggingakerfis. Þessi tilhneiging til þess að draga úr reglusetningu snýst hins vegar við þegar litið er til einstaklingsins. Þannig eru Repúblikanar líklegri til að vilja takmarka rétt kvenna til fóstureyðinga, rétt samkynhneigðra til að gifta sig og takmarka til dæmis stofnfrumurannsóknir. Demókratar vilja almennt gera getnaðarvarnir og fóstureyðingar aðgengilegar og eru fleiri í hópi þeirra sem styðja bæði stofnfrumurannsóknir og réttindi samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Þó verður að taka fram að afstaða til þessara mála byggist oft á bæði trúarlegum bakgrunni og búsetu frambjóðanda og kjósendahóps hans. Nokkur munur kemur fram á flokkunum hvað varðar utanríkisstefnu. Repúblikanar eru líklegri til að aðhyllast utanríkisstefnu sem byggir á styrk Bandaríkjanna og vilja að ákvarðanir séu teknar á grundvelli hagsmuna ríkisins eins. Demókratar hafa verið hlynntari þátttöku í alþjóðastofnunum og bandalögum. Þeir kjósa að taka þátt í verkefnum á grundvelli alþjóðlegs samkomulags um hvernig líklegast sé að ná árangri. Nokkur hugmyndafræðilegur munur er á þessum tveimur stærstu stjórnmálaflokkum í Bandaríkjunum. Þar í landi er vísað til Repúblikanaflokksins sem íhaldsflokks, það er flokks sem vill varðveita hefðbundnar stofnanir samfélagsins, en Demókrataflokksins sem frjálslynds, það er flokks sem byggir á réttindum einstaklinga og samfélagslegu réttlæti. Kosningakerfið gerir það að verkum að flokkarnir leita gjarnan inn á miðjuna og þannig verður munurinn í framkvæmd ekki svo mikill. Helsta muninn má þó greina í því hvernig flokkarnir nálgast reglusetningu um fólk og fyrirtæki. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum? eftir Árna Helgason
- Hvers vegna þarf sá sem fær flest atkvæði í forsetakosningum í Bandaríkjunum ekki endilega að verða fyrir valinu? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Hver er munurinn á efri og neðri deild Bandaríkjaþings? eftir Silju Báru Ómarsdóttur
- Hvaða völd hefur forseti Bandaríkjanna? eftir Árna Helgason
- Hvert er vald varaforseta Bandaríkjanna, innan bandaríska stjórnsýslukerfisins? eftir Indriða Hauk Indriðason
- Republican National Committee
- The Democratic Party
- eHow - How to know the difference between a Democrat and a Republican
- Wikipedia.com. Sótt 11.8.2010.