Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum?

Árni Helgason

Í Bandaríkjunum er svokallað tveggja flokka kerfi (e. two party system) þar sem tveir stórir flokkar bera höfuð og herðar yfir aðra flokka og skipta með sér völdum á öllum stigum stjórnkerfisins. Flokkarnir skiptast þá á að vera í meirihluta og minnihluta en aðrir flokkar komast lítið sem ekkert að. Í Bandaríkjunum eru þetta Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn en slíkt fyrirkomulag þekkist þó víða annars staðar í heiminum, til dæmis í Bretlandi, þar sem Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn skipta með sér völdum og á Spáni þar sem Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins hafa verið ráðandi.

Slíkt kerfi getur aftur á móti riðlast og breyst ef nýir flokkar eða einhver þeirra flokka sem fyrir er ná fylgi af stóru flokkunum tveimur. Í þeim löndum þar sem tveggja flokka kerfi er við lýði starfa engu að síður fjöldi annarra stjórnmálaflokka en þeir hafa ekki náð þeirri stöðu sem stóru flokkarnir tveir hafa.

Kosningakerfið í Bandaríkjunum ýtir undir tveggja flokka kerfi þar sem byggt er á einstaklingskosningu í valdamestu embætti landsins. Í þessu felst að þótt margir frambjóðendur bjóði sig fram fær einungis sá sem fær flest atkvæði viðkomandi embætti. Þekktasta embættið er vitaskuld embætti forseta Bandaríkjanna en sama fyrirkomulag á við um þingsæti í bæði fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings. Í fylkjunum er að sama skapi einstaklingur kosinn sem ríkisstjóri. Aðrir frambjóðendur bera hins vegar ekkert úr býtum, jafnvel þótt þeir fái umtalsvert fylgi. Ýmislegt í kosningalögunum torveldar minni flokkum enn fremur að komast að, svo sem það skilyrði fyrir opinberum fjárstuðningi að flokkur fái 5% atkvæða á landsvísu og sú hefð að kappræður séu á milli frambjóðenda stóru flokkanna tveggja.


Skopmynd af tveimur stóru flokkunum í Bandaríkjunum. Fíllinn táknar Repúblikanaflokkinn og asninn Demókrataflokkinn.

Andstaðan við þetta kerfi er hlutfallsreglan, þar sem þingsætum er dreift eftir fylgi og atkvæðum. Til að útskýra muninn má taka dæmi af kosningum þar sem þrír flokkar bjóða fram. Flokkur A fær 45%, flokkur B fær 40% og flokkur C fær 15%. Í einmenningskjördæmi kæmi þingmaður viðkomandi kjördæmis þar af leiðandi úr flokki A. Ef flokkar A og B eru svipað stórir má gera ráð fyrir því að yfir landið myndi fylgi flokkanna rokka eitthvað og þeir skiptast á að tryggja sér þingmenn hvers kjördæmis. Flokkur C er hins vegar alltaf þriðji stærstur og fær því ekkert í sinn hlut. Í hlutfallskerfi myndi flokkur C hins vegar vinna þingsæti í samræmi við þingstyrk. Ágætis dæmi um áhrifalítinn þriðja flokk eru Frjálslyndir demókratar í Bretlandi (Liberal Democrats) sem urðu til árið 1988 með sameiningu Frjálslynda flokksins og Sósíaldemókrata. Flokkurinn hefur fengið á bilinu 16-22% fylgi í kosningum og er í dag með 62 þingmenn, eða um einn tíunda af heildarfjölda þingmanna á breska þinginu. Flokkurinn hefur þó aldrei komist í stjórn.

Í Bandaríkjunum eru ýmis dæmi um framboð utan stóru flokkanna tveggja sem hafa vakið athygli og haft áhrif. Nýleg dæmi eru framboð Ralph Nader og Ross Perot til forseta. Nader, sem er þekktur baráttumaður í neytendamálum, hefur boðið sig fram í nokkrum kosningum en vakti mesta athygli árið 2000 þegar hann fékk um 2,8 milljónir atkvæða eða 2,7% og var talinn hafa tekið mikilvæg atkvæði af Al Gore, frambjóðenda Demókrataflokksins, í lykilkjördæmum á borð við Flórída. Gore tapaði kosningunum á endanum þar sem hann hafði færri kjörmenn en Bush, þrátt fyrir að Gore fengi fleiri atkvæði í heildina.

Framboð Ross Perot er þó sennilega frægasta framboð þriðja aðila í Bandaríkjunum en hann bauð sig fram árið 1992. Frambjóðendur stóru flokkanna þetta ár voru Bill Clinton og George Bush eldri. Barátta Perot var reyndar nokkuð sveiflukennd þar sem hann fékk mikinn byr í seglin og leiddi um tíma í skoðanakönnunum. Hann ákvað hins vegar að draga sig út úr baráttunni um sumarið af persónulegum ástæðum en hóf baráttuna að nýju þegar nær dró kosningunum. Perot var vellauðugur og hafði úr miklu fé að spila í baráttunni og gat því auglýst af krafti. Hann bauð fram í öllum fylkjum og tók þátt í kappræðum með forsetaframbjóðendum. Perot hlaut alls 18,9% fylgi í kosningunum 1992 en vann engan kjörmann. Perot tók fylgi frá báðum flokkum.

Aðrir þekktir þriðju frambjóðendur eru George Wallace, sem bauð fram árið 1968 og fékk alls 46 kjörmenn og framboð Strom Thurmond árið 1948, þá ríkisstjóri S-Karólínu, sem fékk 39 kjörmenn. Örlög þessara manna voru athyglisverð, þótt með ólíkum hætti væri. Wallace var skotinn árið 1972 og var bundinn við hjólastól það sem eftir var ævi sinnar. Hann hafði verið ríkisstjóri Alabama þegar hann bauð sig fram og var kjörinn þrívegis aftur í það embætti. Strom Thurmond var hins vegar kjörinn í öldungardeild Bandaríkjaþings árið 1954 og hélt sæti sínu þar allt til dánardags árið 2003 en þá var Thurmond orðinn 100 ára.

Þrátt fyrir að einstaka frambjóðandi hafi vakið athygli og fengið nokkuð fylgi þá hafa allir forsetar Bandaríkjanna frá árinu 1853 verið úr annaðhvort Demókrataflokknum eða Repúblikanaflokknum. Síðarnefndi flokkurinn var stofnaður árið 1854 en fram að þeim tíma hafði annar flokkur, The Whig Party, verið hinn stóri flokkurinn í bandarískum stjórnmálum við hlið Demókrataflokksins og fjórir forsetar Bandaríkjanna komu úr þeim flokki. Stefna The Whig Party mótaðist meðal annars af andstöðu við Andrew Jackson, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem flokksmenn töldu vera of áhrifamikinn og vildu auka vægi þingsins. Síðar meir barðist flokkurinn fyrir ýmiss konar samfélagslegum og efnahagslegum umbótum í Bandaríkjunum. Flokkurinn liðaðast aftur á móti undir lok í kringum 1860 og höfðu þá ýmsir af þekktustu leiðtogum flokksins þegar yfirgefið hann. Abraham Lincoln var einn þeirra, en hann hafði verið leiðtogi flokksins í Illinois-fylki en gekk í Repúblikanaflokkinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum? Hafa aðrir flokkar aldrei náð fótfestu í bandarískum stjórnmálum?

Höfundur

Árni Helgason

lögfræðingur og fyrrverandi laganemi við HÍ

Útgáfudagur

2.11.2009

Spyrjandi

Sigurvin Guðmundsson, Ríkey Guðmundsdóttir, f. 1991

Tilvísun

Árni Helgason. „Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum?“ Vísindavefurinn, 2. nóvember 2009, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53032.

Árni Helgason. (2009, 2. nóvember). Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53032

Árni Helgason. „Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum?“ Vísindavefurinn. 2. nóv. 2009. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53032>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum?
Í Bandaríkjunum er svokallað tveggja flokka kerfi (e. two party system) þar sem tveir stórir flokkar bera höfuð og herðar yfir aðra flokka og skipta með sér völdum á öllum stigum stjórnkerfisins. Flokkarnir skiptast þá á að vera í meirihluta og minnihluta en aðrir flokkar komast lítið sem ekkert að. Í Bandaríkjunum eru þetta Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn en slíkt fyrirkomulag þekkist þó víða annars staðar í heiminum, til dæmis í Bretlandi, þar sem Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn skipta með sér völdum og á Spáni þar sem Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins hafa verið ráðandi.

Slíkt kerfi getur aftur á móti riðlast og breyst ef nýir flokkar eða einhver þeirra flokka sem fyrir er ná fylgi af stóru flokkunum tveimur. Í þeim löndum þar sem tveggja flokka kerfi er við lýði starfa engu að síður fjöldi annarra stjórnmálaflokka en þeir hafa ekki náð þeirri stöðu sem stóru flokkarnir tveir hafa.

Kosningakerfið í Bandaríkjunum ýtir undir tveggja flokka kerfi þar sem byggt er á einstaklingskosningu í valdamestu embætti landsins. Í þessu felst að þótt margir frambjóðendur bjóði sig fram fær einungis sá sem fær flest atkvæði viðkomandi embætti. Þekktasta embættið er vitaskuld embætti forseta Bandaríkjanna en sama fyrirkomulag á við um þingsæti í bæði fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings. Í fylkjunum er að sama skapi einstaklingur kosinn sem ríkisstjóri. Aðrir frambjóðendur bera hins vegar ekkert úr býtum, jafnvel þótt þeir fái umtalsvert fylgi. Ýmislegt í kosningalögunum torveldar minni flokkum enn fremur að komast að, svo sem það skilyrði fyrir opinberum fjárstuðningi að flokkur fái 5% atkvæða á landsvísu og sú hefð að kappræður séu á milli frambjóðenda stóru flokkanna tveggja.


Skopmynd af tveimur stóru flokkunum í Bandaríkjunum. Fíllinn táknar Repúblikanaflokkinn og asninn Demókrataflokkinn.

Andstaðan við þetta kerfi er hlutfallsreglan, þar sem þingsætum er dreift eftir fylgi og atkvæðum. Til að útskýra muninn má taka dæmi af kosningum þar sem þrír flokkar bjóða fram. Flokkur A fær 45%, flokkur B fær 40% og flokkur C fær 15%. Í einmenningskjördæmi kæmi þingmaður viðkomandi kjördæmis þar af leiðandi úr flokki A. Ef flokkar A og B eru svipað stórir má gera ráð fyrir því að yfir landið myndi fylgi flokkanna rokka eitthvað og þeir skiptast á að tryggja sér þingmenn hvers kjördæmis. Flokkur C er hins vegar alltaf þriðji stærstur og fær því ekkert í sinn hlut. Í hlutfallskerfi myndi flokkur C hins vegar vinna þingsæti í samræmi við þingstyrk. Ágætis dæmi um áhrifalítinn þriðja flokk eru Frjálslyndir demókratar í Bretlandi (Liberal Democrats) sem urðu til árið 1988 með sameiningu Frjálslynda flokksins og Sósíaldemókrata. Flokkurinn hefur fengið á bilinu 16-22% fylgi í kosningum og er í dag með 62 þingmenn, eða um einn tíunda af heildarfjölda þingmanna á breska þinginu. Flokkurinn hefur þó aldrei komist í stjórn.

Í Bandaríkjunum eru ýmis dæmi um framboð utan stóru flokkanna tveggja sem hafa vakið athygli og haft áhrif. Nýleg dæmi eru framboð Ralph Nader og Ross Perot til forseta. Nader, sem er þekktur baráttumaður í neytendamálum, hefur boðið sig fram í nokkrum kosningum en vakti mesta athygli árið 2000 þegar hann fékk um 2,8 milljónir atkvæða eða 2,7% og var talinn hafa tekið mikilvæg atkvæði af Al Gore, frambjóðenda Demókrataflokksins, í lykilkjördæmum á borð við Flórída. Gore tapaði kosningunum á endanum þar sem hann hafði færri kjörmenn en Bush, þrátt fyrir að Gore fengi fleiri atkvæði í heildina.

Framboð Ross Perot er þó sennilega frægasta framboð þriðja aðila í Bandaríkjunum en hann bauð sig fram árið 1992. Frambjóðendur stóru flokkanna þetta ár voru Bill Clinton og George Bush eldri. Barátta Perot var reyndar nokkuð sveiflukennd þar sem hann fékk mikinn byr í seglin og leiddi um tíma í skoðanakönnunum. Hann ákvað hins vegar að draga sig út úr baráttunni um sumarið af persónulegum ástæðum en hóf baráttuna að nýju þegar nær dró kosningunum. Perot var vellauðugur og hafði úr miklu fé að spila í baráttunni og gat því auglýst af krafti. Hann bauð fram í öllum fylkjum og tók þátt í kappræðum með forsetaframbjóðendum. Perot hlaut alls 18,9% fylgi í kosningunum 1992 en vann engan kjörmann. Perot tók fylgi frá báðum flokkum.

Aðrir þekktir þriðju frambjóðendur eru George Wallace, sem bauð fram árið 1968 og fékk alls 46 kjörmenn og framboð Strom Thurmond árið 1948, þá ríkisstjóri S-Karólínu, sem fékk 39 kjörmenn. Örlög þessara manna voru athyglisverð, þótt með ólíkum hætti væri. Wallace var skotinn árið 1972 og var bundinn við hjólastól það sem eftir var ævi sinnar. Hann hafði verið ríkisstjóri Alabama þegar hann bauð sig fram og var kjörinn þrívegis aftur í það embætti. Strom Thurmond var hins vegar kjörinn í öldungardeild Bandaríkjaþings árið 1954 og hélt sæti sínu þar allt til dánardags árið 2003 en þá var Thurmond orðinn 100 ára.

Þrátt fyrir að einstaka frambjóðandi hafi vakið athygli og fengið nokkuð fylgi þá hafa allir forsetar Bandaríkjanna frá árinu 1853 verið úr annaðhvort Demókrataflokknum eða Repúblikanaflokknum. Síðarnefndi flokkurinn var stofnaður árið 1854 en fram að þeim tíma hafði annar flokkur, The Whig Party, verið hinn stóri flokkurinn í bandarískum stjórnmálum við hlið Demókrataflokksins og fjórir forsetar Bandaríkjanna komu úr þeim flokki. Stefna The Whig Party mótaðist meðal annars af andstöðu við Andrew Jackson, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem flokksmenn töldu vera of áhrifamikinn og vildu auka vægi þingsins. Síðar meir barðist flokkurinn fyrir ýmiss konar samfélagslegum og efnahagslegum umbótum í Bandaríkjunum. Flokkurinn liðaðast aftur á móti undir lok í kringum 1860 og höfðu þá ýmsir af þekktustu leiðtogum flokksins þegar yfirgefið hann. Abraham Lincoln var einn þeirra, en hann hafði verið leiðtogi flokksins í Illinois-fylki en gekk í Repúblikanaflokkinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum? Hafa aðrir flokkar aldrei náð fótfestu í bandarískum stjórnmálum?
...