Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiStjórnmálafræðiHver var hugmyndafræði íhaldsstefnunnar og hverjir voru upphafsmenn hennar? Hvert var upphaf hennar og hverjar voru afleiðingarnar?
Íhaldsstefna í núverandi mynd var fyrst sett fram í riti Edmunds Burkes um frönsku stjórnarbyltinguna, Reflections on the Revolution in France, árið 1790. Burke lagði áherslu á þróun fremur en snögg umskipti, á reynsluvit kynslóðanna fremur en einstaklingsbundna skynsemi, á virðingu fyrir venjum og siðum fremur en nýjungagirni.
Eftir daga Burkes má segja, að íhaldsstefna hafi greinst í tvennt. Annars vegar er stjórnlynd íhaldsstefna, sem Joseph de Maistre, Donoso Cortes, Justus Möser og fleiri mæltu fyrir í Evrópu á nítjándu öld. Hún er iðulega nátengd sterku kirkjuvaldi, þjóðernisstefnu, öflugu og afskiptasömu ríkisvaldi, ótta við breytingar og strangri löggjöf um siðferðileg málefni.
Hins vegar er frjálslynd íhaldsstefna, sem kenna má við Acton lávarð og Alexis de Tocqueville, sem voru einnig uppi á nítjándu öld. Hún einkennist af tortryggni gagnvart öllum tilraunum til að endurskapa heiminn og virðingu fyrir sjálfsprottinni þróun. Hún reynir að sameina ávinningsvon einstaklinganna, eins og hún birtist á frjálsum markaði, og almannaheill.
Á tuttugustu öld gat stjórnlynd íhaldsstefna breyst í fasisma, og þegar hún rann saman við jafnaðarstefnu, gat hún jafnvel ummyndast í þjóðernisjafnaðarstefnu eða nasisma (það sem kallast Nationalsozialismus á þýsku).En frjálslynd íhaldsstefna lifir í verkum heimspekinga eins og Michaels Oakeshotts og hagfræðinga eins og Friðriks Ágústs von Hayeks.Einnig má segja, að stjórnmálaforingjar eins og Margrét Thatcher og Ronald Reagan séu frjálslyndir íhaldsmenn. Þau eru bæði frjálslynd í atvinnumálum og íhaldssöm í siðferðilegum efnum. Þau leggja áherslu á sígild verðmæti, fjölskyldu, kirkju og einkaeignarrétt, og eru hlynnt traustum landvörnum og öflugri löggæslu. En jafnframt telja þau, að viðskipti á markaði verði að vera sem frjálsust og íhlutun ríkisins um atvinnumál sem minnst. Í stjórnartíð þeirra í Bretlandi og Bandaríkjunum voru fyrirtæki ríkisins seld, skattar lækkaðir og losað um margvísleg höft.
Á Íslandi var Jón Þorláksson verkfræðingur, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, einn helsti talsmaður frjálslyndrar íhaldsstefnu á fyrsta fjórðungi aldarinnar, eins og sjá má í Ræðum og ritgerðum hans, sem komu út fimmtíu árum eftir lát hans, árið 1985. Einnig háðu þeir Kristján Albertsson og Þórbergur Þórðarson fróðlega ritdeilu um íhaldsstefnu eftir útkomu Bréfs til Láru eftir Þórberg 1924.
Eitt ráðið til að meta afleiðingar ólíkrar stjórnarstefnu í einstökum ríkjum er að leggja á þau svonefnda vísitölu atvinnufrelsis. Þessa vísitölu, samsetningu hennar og niðurstöður, má nálgast á Netinu, meðal annars á slóð kanadísku rannsóknarstofnunarinnar Fraser Institute. Sterkt samband virðist samkvæmt þessari vísitölu vera á milli atvinnufrelsis annars vegar og velmegunar, hagvaxtar og farsældar hins vegar (þar sem farsældin er meðal annars mæld í minni barnadauða, betri aðgangi að heilsugæslu og hreinu vatni og á margvíslegan annan hátt). Þótt fylgni sé vissulega ekki alltaf til marks um orsakasamband, hljóta frjálslyndir íhaldsmenn í anda Thatchers og Reagans að telja að þessar niðurstöður styrki þá skoðun sína, að víðtækt atvinnufrelsi sé þjóðum heims affarasælast.
Myndir:
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Hver var hugmyndafræði íhaldsstefnunnar og hverjir voru upphafsmenn hennar? Hvert var upphaf hennar og hverjar voru afleiðingarnar?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2004.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. (2001, 11. desember). Hver var hugmyndafræði íhaldsstefnunnar og hverjir voru upphafsmenn hennar? Hvert var upphaf hennar og hverjar voru afleiðingarnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2004
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Hver var hugmyndafræði íhaldsstefnunnar og hverjir voru upphafsmenn hennar? Hvert var upphaf hennar og hverjar voru afleiðingarnar?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2004>.