Ef ÞTH vantar er vatn ekki endursogað úr frumþvagi og þvaglát verða mikil og tíð, allt að 20 lítrar á sólarhring. Það veldur miklum þorsta, svo að viðkomandi einstaklingur drekkur mikið. Ef hann drekkur ekki nóg til að vega upp mikið vökvatap er hætta á ofþornun sem getur verið mjög alvarlegt ástand ef ekki er gripið fljótt inn í. Helstu einkenni flóðmigu eru mikil og tíð þvaglát allan sólarhringinn, þvagið er mjög þunnt, þorsti er mikill og hætta er á ofþornun. Fullorðnir með sjúkdóminn geta haldið honum í skefjum með því að drekka nóg en hætta á ofþornun og kalínskorti er ávallt yfirvofandi. Flóðmiga í börnum getur truflað matarlyst og át, þyngdaraukningu og vöxt. Hiti, uppköst og niðurgangur geta líka fylgt flóðmigu hjá börnum. Ýmsar orsakir geta verið fyrir flóðmigu. Skemmd í heiladingli er algengasta orsökin en afturhluti hans geymir og seytir ÞTH. Ýmsir sjúkdómar geta haft skemmdir á heiladingli í för með sér. Einnig má nefna að höfuðmeiðsl, taugaskurðlækningar og arfgengir sjúkdómar geta skemmt undirstúku eða heiladingul. Ef einstaklingur er með flóðmigu sem stafar af skemmdum á heiladingli eða undirstúku má meðhöndla hana með hormónalyfinu desmópressíni.
- National Kidney and Urologic Diseases.
- Diabetes insipidus á en.wikipedia.org.
- Efri mynd: Patient.co.uk. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 30. 4. 2012.
- Neðri mynd: KenFrost.com. Sótt 30. 4. 2012.