Árið 1867 var vikur frá Santorini fluttur í miklu magni til Egyptalands og nýttur í steinsteypu til að fóðra Súez-skurðinn. Þegar mínóska vikurlaginu var flett af eynni kom í ljós fjöldi forna mannvistaleifa. Þær sýndu að þegar Santorini gaus, var þar blómleg byggð Mínóa sem höfðu reist sér myndarlega borg, Akrotiri, á suðurhluta eyjarinnar. Á bronsöld var mínósk menning allsráðandi við austanvert Miðjarðarhaf. Mínóar voru miklir farmenn og kaupmenn og réðu verslun og siglingum. Höfuðstöðvar þeirra voru á Krít, en Santorini var einnig mikilvæg Mínóum, eins og fram kemur í háþróuðum og auðugum menningarleifum þeirra í Akrotiri. Segja má að menning þeirra hafi bæði tengst fornegypskri menningu fyrir sunnan og forngrískri menningu sem átti eftir að þróast á meginlandi Grikklands fyrir norðan. Það hefur verið sagt að með Mínóum hafi evrópsk menning hafist. Samtímis gosinu varð mikil hnignun í mínóskum byggðum í Eyjahafi, einkum á Krít, og algjör eyðing á Santorini. Þegar rústir halla voru grafnar upp á Krít í byrjun tuttugustu aldarinnar, kom fram sú tilgáta að hnignun menningar Mínóa væri að einhverju leyti tengd gosinu á Santorini, annaðhvort vegna gjóskufalls, jarðskjálfta eða flóðbylgju. Síðan hefur þessi tillaga ýmist risið eða dalað í vinsældum meðal fræðimanna sem fjallað hafa um málið, en fá eða engin ný rök komið fram með eða á móti. Mikil óvissa hefur ríkt þar til nú um tvö lykilatriði, en það er stærð gossins og aldur þess. Í seinni tíð hafa nákvæmar greiningar fengist á aldri, og er það talið hafa orðið um það bil 1625 f.Kr. Einnig er nýlega lokið athugun á stærð eða magni gossins með mælingum á þykkt gjóskulagsins á hafsbotni umhverfis eyna.3 Þær sýna að ekki minna en 50 rúmkílómetrar af kviku hafa gosið, eða miklu meira en áður var talið. Loks hafa fundist merki um flóðbylgju í jarðlögum á ströndum Krítar. Þau sýna að hún hefur gengið á land að minnsta kosti tíu metrum ofar en núverandi sjávarmál. Jarðfræðigögnin ætla mínóska gosið svo mikið að búast mátti við gífurlegum áhrifum á umhverfið í Eyjahafi. Nú er það samvinnuverkefni hópa fornleifafræðinga og jarðfræðinga að kanna hvort frekari vitneskja um stórfelld áhrif finnist í mannvistarleifum á Krít og víðar. Ef svo er, kann sögnin fræga um hið horfna meginland Atlantis að breytast úr þjóðsögu í frásögn af raunverulegum atburði.4 Tilvísanir: 1Haraldur Sigurðsson, 1999. Encyclopedia of Volcanoes. Academic Press, San Diego.
2Sigurdsson og fleiri, 2006. Marine investigations of Greece's Santorini volcanic field. EOS, 87, 337-338.
Antonopoulos, J. 1992. The great Minoan eruption of Thera volcano and the ensuing tsunami in the Greek Archipelago. Natural Hazards, 5, 153-168.
3Sigurdsson og fleiri, 2006. Marine investigations of Greece's Santorini volcanic field. EOS, 87, 337-338.
4Sigurður Þórarinsson, 1970. Er Atlantisgátan að leysast? Andvari, 95, 55-84. Myndir:
- NASA Photojournal. (Sótt 14. 10. 2013).
Þetta svar er hluti af umfjöllun um mestu eldgos jarðar í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.