Askan myndast þegar glóandi bráð freyðir og sundrast við það að eldfjallagufur, einkum vatn, losna úr bráðinni og þenjast út við þrýstilétti, líkt og koltvísýringur í gosflösku þegar tappinn er tekinn af. Mylsnan kólnar svo hratt að kristallar myndast ekki heldur „frýs“ hún sem gler. Gosaska er því óskyld þeirri ösku sem myndast við bruna, þegar kolefni og kolvetni oxast, kolefnið í koltvíoxíð og vetnið í vatn, en óbrennanlegur hluti efnisins, svo sem ýmis steinefni, verður eftir sem aska.Öskumyndun í eldgosum er þannig að mestu leyti af völdum vatns. Að jafnaði myndast lítil aska í basaltgosum, líkt og gosið í Grímsvötnum sem hófst 21. maí árið 2011 var, vegna skorts á vatni en oftar en ekki bætist í vatnið þegar bráðin er á leið upp gíginn en það gerðist einmitt nú í Grímsvötnum þar sem um gos í jökli er að ræða. Þannig varð töluverð öskumyndun og öskufall í kjölfarið.
- Hvað er gosaska? eftir Sigurður Steinþórsson
- Hvers konar gos er það sem nú er nýlega hafið í Grímsvötnum 2011? eftir JGÞ
- Hvernig dreifist aska lóðrétt um lofthjúpinn? eftir Trausta Jónsson
- Hvert berst gosaska? eftir Trausta Jónsson
- Mökkur og eldingar á Veður.is. Sótt 23.5.2011.
Þetta svar er í flokknum „bekkirnir spyrja“ þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.