Svarið „af því bara“ er að sumu leyti ekki ósvipað svarinu „ég veit það ekki“. Ef spurt er til dæmis Hvers vegna er himinninn blár? veitir svarið „af því bara“ spyrjandanum ekki þær upplýsingar sem hann bað um. Svarið „af því bara“ er því óupplýsandi og að því leyti ekki gott svar. Aftur á móti upplýsir það spyrjandann ekki heldur um að sá sem svarar viti ekki hver skýringin er, líkt og svarið „ég veit það ekki“, heldur virðist svarið „af því bara“ gefa til kynna að sá sem svarar viti að það sem spurt er um sé staðreynd enda þótt það verði ekki útskýrt frekar að sinni (annaðhvort af því að sá sem svarar nennir ekki að gefa útskýringu á staðreyndinni eða af því að hann veit ekki hver skýringin er). Í sumum tilvikum kann að vera að það sé einfaldlega ekki kostur á frekari skýringum. Spurningunni „Hvers vegna viljum við vera hamingjusöm“ er til dæmis freistandi að svara „af því bara!“ Til dæmis er hugsanlegt að einhver vilji öðlast frægð og ríkidæmi af því að hann heldur að þannig geti hann orðið hamingjusamur en enginn virðist vilja vera hamingjusamur vegna neins annars. Það er bara einfaldlega svo að við viljum vera hamingjusöm. Og þá er hugsanlegt að það sé við hæfi að svara spurningunni með svarinu „af því bara!“ ef það er endanleg skýring. Svo má velta fyrir sér hvort það sé í raun endanleg skýring eða hvort ef til vill megi útskýra löngun okkar til þess að vera hamingjusöm á annan veg, með tilvísun til náttúrulegra skýringa eins og þróunar mannsins og þar fram eftir götunum. Ef slíkar skýringar eiga við er svarið „af því bara“ ófullnægjandi og óviðeigandi, nema þá það þjóni þeim tilgangi, eins og lýst var hér að ofan, að leyfa þeim sem svarar að segja að það sé einfaldlega staðreynd að við viljum vera hamingjusöm enda þótt hann annaðhvort kunni ekki eða nenni ekki að útskýra það neitt frekar. Eftir sem áður er það ekki gott svar. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvernig á maður að svara spurningum? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Er þetta spurning? eftir Erlend Jónsson
- Hvað eru mörg rétt svör til við þessari spurningu? eftir Erlend Jónsson