Almennt má segja að líftími seðla aukist með verðgildi þeirra. Verðminni seðlar velta hraðar, auk þess sem flestir fara betur með verðmeiri seðil en verðminni. Þetta leiðir til þess að þeir síðarnefndu verða ónothæfir fyrr. Önnur atriði hafa einnig áhrif á líftíma seðla, svo sem gæðaþröskuldur seðlabanka, veðurfar, styrkleiki pappírsins sem notaður er í seðlana og hönnun þeirra. Líftími íslenskra seðla er eftirfarandi:
- 500 kr. 12 mánuðir
- 1.000 kr. 12 mánuðir
- 2.000 kr. 26 mánuðir
- 5.000 kr. 36 mánuðir
Mynt endist mun lengur en seðlar, enda er málmur endingarbetri en pappír. Líftími myntar mælist í áratugum. Í lok nóvember 2003 voru um 7,3 milljónir 100 kr. peninga í umferð. Síðan 100 kr. myntin var fyrst sett í umferð árið 1995 hefur Seðlabankinn aðeins dæmt um 9.000 stykki hennar ónýt og í fyllingu tímans verður þeim eytt. Sem dæmi um endingu myntar þá voru rómverskir koparpeningar frá 3. öld eftir Kristburð enn í umferð í Alsír í lok 19. aldar, eða meira en 1500 árum eftir að þeir voru slegnir. Þrátt fyrir langan líftíma myntar þá hefur hún þann eiginleika að týnast í nokkrum mæli, sérstaklega á það við um lægri mynteiningar. Hætt var að setja 50 aura mynt í umferð árið 1990 og 1. október árið 2002 var hún innkölluð. Samt sem áður eru um 10 milljónir 50 aura peninga enn þá í umferð og meirihluti þeirra er líklega týndur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað myndi gerast ef gjaldmiðill eins og peningar yrði að öllu leyti lagður niður? eftir Gylfa Magnússon
- Hversu gamall er elsti peningur á Íslandi? eftir Orra Vésteinsson
- Hvar eru íslensku peningarnir prentaðir, eða má enginn vita það? eftir Gylfa Magnússon
- Eykst peningamagn í umferð með tilkomu greiðslukorta? eftir Gylfa Magnússon
- Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum? eftir Gylfa Magnússon
- Hvaða fisktegundir eru á íslensku myntinni og hvert er latneskt heiti þeirra? eftir ÍDÞ
- Seðlabanki Íslands. Sótt 16.12.2003.
Hvað duga peningaseðlar og mynt lengi? Hver sér um að henda peningum?