Það verða því engir nýir peningar til þegar greiðslukort eru notuð. Því hefur notkunin ekki bein áhrif á það sem almennt er kallað peningamagn í umferð. Hins vegar er rétt að hafa í huga að notkun greiðslukorta getur haft talsverð áhrif á það sem kallað er veltuhraði peninga, en með því er átt við hve oft á tilteknu tímabili peningar fara frá einum aðila til annars. Áður en greiðslukort komu til sögunnar þurfti að öðru jöfnu talsvert meira af peningum til að inna af hendi þau viðskipti sem fram fóru. Skýringin er að það var seinlegra að koma peningum frá einum aðila til annars, þeir voru ekki jafnskilvirkir við að liðka fyrir viðskiptum og nú. Sem dæmi um þetta má nefna að árið 1956 voru seðlar og mynt í umferð tæp 8% af verðmæti þjóðarframleiðslu þess árs en nú er sama stærð nálægt 1% af þjóðarframleiðslu eins árs. Það þarf því hlutfallslega miklu minna af peningum í formi seðla og mynta nú en þá til að standa í öllum þeim viðskiptum sem menn eiga. Greiðslukort eru ein skýringin á þessu. Hagfræðingar telja reyndar oftast fleira til peninga en bara seðla og mynt í umferð; oftast eru til dæmis innstæður á tékkareikningum og önnur svokölluð veltiinnlán einnig talin með. Ef lagðir eru saman seðlar og mynt í umferð og veltiinnlán árið 1956 fæst tala sem er tæp 18% af þjóðarframleiðslu þess árs. Sambærilegt hlutfall í ár er um 11%. Greiðslukort auka því ekki peningamagn en þau valda því að þeir peningar sem fyrir eru nýtast mun betur til að liðka fyrir viðskiptum. Því er þörf fyrir minna af þeim. Sérstaklega er minni þörf fyrir seðla og mynt. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað er mikið af peningum á jörðinni? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað er mikið til af íslenskum seðlum og myntum? eftir Gylfa Magnússon
- CreditCardFinder. Sótt 30.7.2010.