Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Raðmorðinginn Axlar-Björn hét Björn Pétursson og var fæddur um miðja 16. öld og tekinn af lífi 1596. Kona hans hét Þórdís Ólafsdóttir en önnur heimild telur hana þó hafa heitið Steinunni.
Um svokallaða framætt Axlar-Bjarnar, það er að segja forfeður hans og formæður, er lítið vitað annað en að faðir hans hefur heitið Pétur samkvæmt framansögðu. Samkvæmt frásögn sem séra Sveinn Níelsson skráði var Pétur þessi ættaður úr Hraunhrepp á Mýrum og móðirin úr Breiðuvík á Snæfellsnesi. Axlar-Björn er þess vegna ekki af neinni kunnri ætt og er það stutta svarið við fyrri hluta spurningarinnar.
Ekkert er þó því til fyrirstöðu að kalla afkomendur hans Axlar-Bjarnarætt. Engin hefð er þó fyrir þeirri nafngift enda vilja menn yfirleitt frekar rekja ættir sínar til merkra manna og höfðingja heldur en raðmorðingja, og nafngreindar ættir eru yfirleitt af fyrri tegundinni.
Svo er annað að Axlar-Björn var ekki kynsæll maður, en algengast er að ættfeður og ættmæður nafngreindra ætta hafi eignast mörg börn og marga afkomendur. Aðeins er vitað um einn son Axlar-Bjarnar og hét hann Sveinn „skotti“ og var „landhlaupari.“ Einn sonur hans var Gísli “hrókur.“ Þeir feðgar Sveinn og Gísli voru báðir hengdir.
Af Axlar-Birni eru engu að síður komnir allmargir niðjar vegna þess hve langt er um liðið síðan hann var uppi. Samkvæmt talningu úr gagnagrunni Íslendingabókar eru kunnir afkomendur hans alls 19.829. Þetta er þó ekki há tala ef tímalengdin er höfð í huga. Frá Axlar-Birni til nútímans eru um 13 kynslóðir. Ef við reiknum með þremur kynslóðum á öld og gerum ráð fyrir að hver einstaklingur eignist að meðtaltali 3 frjó börn ættu núlifandi afkomendur Axlar-Bjarnar að vera 313, eða um 1.600.000. Þá væri ljóst að allir Íslendingar væru komnir af Axlar-Birni. (Hægt er að lesa um reiknilíkanið sem hér er notað í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvernig er hægt að rökstyðja þá fullyrðingu að allir Íslendingar séu komnir af Jóni Arasyni?)
En þar sem ekki fer að kveða að afkomendum Axlar-Bjarnar fyrr en um 1700 má reikna dæmið öðruvísi. Þaðan eru níu kynslóðir til nútímans, og þá ættu afkomendurnir að vera 39, eða alls 19.683. Sú tala fer ótrúlega nærri þeirri tölu sem gagnagrunnur Íslendingabókar segir til um.
Þeir sem vilja kanna hvort þeir séu af Axlar-Bjarnarætt geta gert það í hinu kunna forriti Íslendingabók. Þeir sem eru ekki þegar skráðir notendur þurfa þó að byrja á því að skrá sig. Síðan dugir að skrifa „Björn Pétursson“ í reitinn fyrir nafn efst á skjánum og „um 1545“ í reitinn um fæðingardag. Biðja síðan um að forritið reki ættirnar saman. Flestir munu þá fá svarið „Enginn skyldleiki fannst“ vegna þess að þeir eru ekki komnir af Birni svo að vitað sé og ekkert er vitað um framættir hans, þannig að enginn skyldleiki kemur fram þá leiðina. En um það bil fjórtándi hver maður að meðaltali fær út úr þessu svar þar sem ætt hans er rakin til Björns. Fjórtándi hver Íslendingur er þess vegna af Axlar-Bjarnarætt.
Axlar-Björn bjó á Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Hann játaði á sig morð á níu manns en sumir sögðu að hann hefði myrt helmingi fleiri. Aðspurður um fjölda mannabeina sem fundust á Öxl sagðist Björn hafa fundið marga dauða og ekki nennt að flytja til kirkju. Hann hefur því haldið eins konar heimagrafreit. Björn sagðist hafa verið 14 vetra þegar hann myrti mann fyrst, í fjárhúsi. Í annálum eru þrjár mismunandi frásagnir af því hvernig upp komst um morð Axlar-Bjarnar.
Ein hljóðar á þá leið að vermaður nokkur úr Miklaholtshreppi hafi horfið en bróðir hans hafi síðan þekkt aftur hempu hans á Birni. Hann var þá tekinn og játaði á sig morð. Þessi frásögn er í Ballarárannál.
Önnur hljóðar þannig að piltur hafi komið með systur sinni til Björns og er þau voru aðskilin heyrði hann „emjan til hennar.“ (Ann.IV.243) Þá faldi hann sig í ræsi í fjósinu og komst undan og sagði til Björns. Þessi sögu er að finna í Sjávarborgarannál.
Þriðja frásögnin er í Setbergsannál og er á þá leið að förukona hafi komið til Björns með þremur börnum. Björn lokkaði börnin til sín eitt í einu og fyrirfór þeim en náði ekki konunni sem komst undan og sagði til hans.
Í Setbergsannál segir að Björn hafi gefið þá skýringu á morðunum að hann hafi drepið suma til fjár en stundum einnig myrt fátæka. Í sömu heimild segir frá liðveiðslu konu hans:
Þegar honum varð aflskortur, þá veitti kona hans honum lið. Hún hafði brugðið snæri um háls þeim og rotað þá með sleggju, stundum kyrkt þá með hálsklæði sínu. (Ann.IV.73-4)
Þórdís var ekki tekin af lífi með Birni þar sem hún var með barni. Þegar hún varð léttari voru henni dæmd þrjú húðlát.
Höfundur þakkar Sólveigu Ólafsdóttur hjá Íslendingabók veitta aðstoð við svarið.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hverrar ættar var Axlar-Björn og hver var kona hans?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3376.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2003, 30. apríl). Hverrar ættar var Axlar-Björn og hver var kona hans? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3376
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hverrar ættar var Axlar-Björn og hver var kona hans?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3376>.